Tillögur að lagabreytingum vegna aðalfundar Pírata 2025

Með fyrirvara um að endanleg útfærsla verður send með fundargögnum aðalfundar þremur dögum fyrir aðalfund.

Tillaga 1: Sameining Framkvæmdastjórnar og Stefnu- og málefnanefndar

Núgildandi lög:

4.4. Framkvæmdastjórn hefur heimild til að fresta aðalfundi eða aukaaðalfundi um viku frá auglýstri dagsetningu, en aðeins í eitt skipti.

4.6. Framkvæmdastjórn skipuleggur dagskrá aðalfundar.

4.10. Á aðalfundi skal fara fram kosning í framkvæmdastjórn og stefnu- og málefnanefnd, sem og kjör gjaldkera framkvæmdastjórnar, eins og nánar er kveðið á um í 7. Kafla.

4.16. Annað hvert ár skal á aðalfundi kjósa þriggja manna kjörstjórn og þrjá til vara sem tekur til starfa að loknum aðalfundi og þar til næsta kjörstjórn tekur við. Fulltrúinn sem hlýtur besta kosningu skal vera formaður nema kjörstjórn ákveði annað. Kjörstjórn ber ábyrgð á framkvæmd prófkjara og kosninga í stjórnir, nefndir og ráð sem kveðið er á um í 7. kafla laga þessara, ásamt öðrum hlutverkum sem henni er falið með lögum. Kjörstjórn setur sér starfsreglur innan mánaðar frá því að hún nær kjöri þar sem fram koma skilyrði um hæfi og verklagsreglur við undirbúning kosninga.

Aðili í kjörstjórn sem hyggst taka þátt í kosningum eða prófkjöri sem kjörstjórn ber ábyrgð á að framkvæma skal upplýsa kjörstjórn um það og víkja sæti þegar kjörstjórn tekur þá kosningu fyrir, og kemur þá varamaður í hans stað. Framkvæmdastjóri Pírata er kjörstjórn innan handar við störf sín. Kjörstjórn er heimilt að tilnefna aðila til þess að aðstoða við framkvæmd prófkjöra eða kosninga að því tilskildu að viðkomandi séu ekki í framboði í þeim kosningum eða prófkjöri sem um ræðir.

6.9. Sé þörf á skjótri ákvarðanatöku má leggja til, með samþykki stefnu- og málefnanefndar, hraðmeðferð á tillögu, en hún stendur þá yfir í sólarhring. Slíka ákvörðun þarf að staðfesta með hefðbundnum kosningum sem fara af stað samtímis. Skulu sérstök boð vera send til félagsmanna um að slík tillaga sé til kosningar. Þó þarf ekki staðfestingarkosningu til að staðfesta yfirlýsingu félagsins í samræmi við lög um upplýsingaráð, enda er þar ekki um lög eða stefnu félagsins að ræða.

7.1. Framkvæmdastjórn annast almenna stjórn og rekstur félagsins að svo miklu leyti sem hún er ekki í höndum aðildarfélaga.

7.1.1. Í framkvæmdastjórn sitja fimm einstaklingar. Tveir eru almennir stjórnarmenn. Einn er svo formaður, annar er ritari og þriðji gjaldkeri. Á aðalfundi eru fjórir kjörnir í framkvæmdastjórn af röðuðum lista, ásamt tveimur til vara, og gjaldkeri er að jafnaði kjörinn sérstaklega á aðalfundi í einstaklingskjöri. Kjörtímabil allra í framkvæmdastjórn er tvö ár. Listakosning fer fram um tvo aðila og einn til vara annað hvert ár og kosning um gjaldkera fer fram á tveggja ára fresti.

7.1.2.1. Sá meðlimur framkvæmdastjórnar sem hlýtur besta listakosningu ( sbr. gr. 7.1.1) skal stýra störfum hennar sem formaður. Vilji sitjandi formaður sem er ennþá kjörgengur til stjórnar halda formannsstöðu sinni þegar kjör til stjórnar fer fram skal hann þannig taka þátt í listakosningu upp á hver hlýtur formannssætið en heldur stjórnarsæti sínu óháð því hvernig listinn raðast. Ef sá meðlimur sem vinnur listakosningar biðst undan, missir kjörgengi eða staða hans losnar af öðrum ástæðum, þá velur framkvæmdastjórnin sér formann úr sínum röðum fram að næsta aðalfundi eða auka-aðalfundi.

7.1.2.2. Framkvæmdastjórn kýs ritara úr sínum röðum og er sá aðili einnig varaformaður.

7.1.2.3. Biðjist gjaldkeri lausnar, missi hann kjörgengi eða staða hans losnar af öðrum sökum á miðju kjörtímabili kýs framkvæmdastjórn nýjan gjaldkera úr sínum röðum fram að næsta aðalfundi eða auka-aðalfundi. Hið sama gildir ef engin framboð berast til kjör gjaldkera.

7.1.3. Framkvæmdastjórn setur stefnu um rekstur félagsins.

7.1.4. Framkvæmdastjórn telst starfhæf þó meðlimum hennar fækki niður í allt að þrjá, en þó ávallt þannig að skipað sé í stöðu formanns, gjaldkera og ritara út frá þeim reglum um kjörgengi sem kveðið er á um í lögum þessum (sbr. gr. 7.8.1). Ef framkvæmdastjórn er ófær um að manna þessar þrjár stöður telst hún óstarfhæf og skal hún þá boða til auka-aðalfundar við fyrsta mögulega tækifæri þar sem kosið er um lausar stöður í framkvæmdastjórn og um stöðu gjaldkera sé hún laus.

7.2. Stefnu- og málefnanefnd skal vera félagsfólki, kjörnum fulltrúum og nefndum, stjórnum, ráðum og aðildarfélögum Pírata til aðstoðar varðandi stefnumótun og málefnastarf innan flokksins. Þá getur hún haft frumkvæði að viðbrögðum við stóratburðum í samfélaginu, t.d. með skipulagningu viðburða og funda.

7.2.1. Í stefnu- og málefnanefnd sitja fimm einstaklingar sem kosnir eru beinni listakosningu á aðalfundi. Kjörtímabil þeirra er tvö ár. Sá meðlimur nefndarinnar sem hlýtur besta kosningu skal stýra störfum hennar sem formaður, nema viðkomandi biðjist undan eða sæti hans losnar af öðrum sökum, og skal stefnu- og málefnanefnd þá velja sér formann úr sínum röðum.

7.2.2. Stefnu- og málefnanefnd skipuleggur Pírataþing, sem haldin skulu tvisvar á ári.

7.2.3. Í aðdraganda kosninga starfar stefnu- og málefnanefnd með frambjóðendum við undirbúning kosninga.

7.2.4. Í aðdraganda alþingiskosninga skal stefnu- og málefnanefnd útbúa kosningastefnuskrá sem byggir á samþykktri stefnu flokksins að höfðu samráði við frambjóðendur. Kosningastefnuskrá skal samþykkt með atkvæðagreiðslu í rafrænu kosningakerfi flokksins.

7.2.5. Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga aðstoðar stefnu- og málefnanefnd aðildarfélög sem taka þátt í kosningum eftir þörfum.

7.2.6. Stefnu- málefnanefnd telst starfhæf þó meðlimum hennar fækki niður í allt að þrjá. Ef stefnu- og málefnanefnd er ófær um að manna þrjár stöður telst hún óstarfhæf og skal framkvæmdastjórn þá boða til auka-aðalfundar við fyrsta mögulega tækifæri þar sem kosið er um lausar stöður í stefnu- og málefnanefnd.

7.3. Gjaldkeri ber ábyrgð á gerð fjárhagsáætlunar Pírata fyrir hönd framkvæmdastjórnar félagsins og í samstarfi við hana.

7.3.1. Gjaldkeri situr í framkvæmdastjórn en er kjörinn beinni kosningu á aðalfundi, sbr. gr. 7.1.1 og gr. 7.1.2.

7.3.2. Gjaldkeri skal leggja verklagsreglur til samþykktar í framkvæmdastjórn um fjármálaumsjón félagsins og stofnana þess. Í reglunum sé að lágmarki kveðið á um:

  • að tvöföld undirritun sé á reikningum,

  • að haldið sé vel um kvittanir og önnur bókhaldsgögn,

  • að bókhaldi sé skilað til framkvæmdastjórnar a.m.k. ársfjórðungslega,

  • að lögum félagsins um opið bókhald sé framfylgt og;

  • fjárveitingar til svæðisbundinna aðildarfélaga samkvæmt skilgreindri reikniaðferð í 11. kafla laganna.

7.4. Samráðsfundir skulu haldnir á þriggja mánaða fresti. Eftirfarandi skulu eiga að lágmarki eitt sæti á samráðsfundi:

  • Framkvæmdastjórn

  • Stefnu- og málefnanefnd

  • Kjördæmabundin aðildarfélög

  • Önnur aðildarfélög sem tilkynna um þátttöku

  • Þingflokkur

  • Fulltrúar úr hverri sveitarstjórn þar sem Píratar eiga fulltrúa

7.5. Framkvæmdastjórn skal ráða framkvæmdastjóra til að annast daglegan rekstur Pírata. Framkvæmdastjóri ræður annað starfsfólk Pírata. Um störf framkvæmdastjóra og annars starfsfólks fer nánar samkvæmt 9. kafla.

7.6. Framkvæmdastjórn skal viðhafa reglubundið samráð við framkvæmdastjóra um fjármál og rekstur félagsins.

7.7. Framkvæmdastjórn og stefnu- og málefnanefnd er heimilt að skipa nefndir, starfshópa og málefnahópa um afmörkuð verkefni. Skal viðkomandi stjórn eða nefnd setja þeim hópum og nefndum sem hún skipar reglur um hlutverk, ábyrgðarsvið og starfstímabil.

7.8. Kosningar í framkvæmdastjórn og stefnu- og málefnanefnd skulu skila raðaðri niðurstöðu, þar sem röðun á lista ákvarðar hverjir hljóta sæti og hverjir hljóta varasæti. Einstaklingskjör fer fram með sama hætti, þar sem fyrsta sæti á röðuðum lista ákvarðar hver hlýtur viðkomandi stöðu. Að öðru leyti fer um kjörið samkvæmt 4. kafla um aðalfund.

7.8.1. Aðilar þurfa að vera félagar í Pírötum til að vera kjörgengir til framkvæmdastjórnar, nefnda og til stöðu gjaldkera. Óheimilt er að sitja lengur en fjögur kjörtímabil samfleytt í sömu stjórn eða nefnd, eða gegna stöðu gjaldkera. Kjörnir fulltrúar mega sitja í framkvæmdastjórn en þau geta ekki tekið stöðu formanns. Varamenn teljast hér ekki kjörnir fulltrúar og geta því tekið sér stöðu formanns og sinnt henni, jafnvel meðan þau taka sæti tímabundið á Alþingi eða í sveitarstjórn. Kjörnum fulltrúum er að öðru leyti heimilt að taka sæti í nefndum innan félagsins, nema annað sé sérstaklega tekið fram í lögum þessum.

7.8.2. Engar takmarkanir gilda um samhliða setu einstaklinga í framkvæmdastjórn eða nefndum, sé viðkomandi kjörgengur til viðkomandi stöðu á annað borð.

8.a.1. Framkvæmdastjórn tekur við tilnefningum og skipar þrjá einstaklinga í trúnaðarráð. Skipun ráðsins skal staðfest á gildum félagsfundi.

9.2. Framkvæmdastjóra er heimilt, í samráði við framkvæmdastjórn, að ráða til sín starfsfólk í tengslum við kosningabaráttu eða önnur tímabundin verkefni án auglýsingar.

10.4. Framkvæmdastjóri skal setja erindisbréf í rafrænt atkvæðagreiðslukerfi Pírata innan sólarhrings frá samþykkt félagsfundar eða Aðalfundar.

10.5. Erindisbréf öðlast gildi þegar það hefur verið staðfest á þrennan hátt. Fyrst með einföldum meirihluta í atkvæðagreiðslu meðal allra Pírata í rafrænu atkvæðagreiðslukerfi flokksins og svo af einföldum meirihluta aðalmanna í framkvæmdastjórn og einföldum meirihluta þingflokks Pírata þegar slíkum flokki er til að dreifa.

10.6. Framkvæmdastjórn og þingflokkur skulu greiða atkvæði um afdrif erindisbréfs innan 7 daga frá samþykkt erindisbréfs í rafrænni atkvæðagreiðslu. Láti framkvæmdastjórn eða þingflokkur undir höfuð leggjast að greiða atkvæði um erindisbréf innan 7 daga frá samþykkt í rafrænni atkvæðagreiðslu skal það tákna samþykkt erindisbréfsins af þeirra hálfu.

11.1. Heimilt er að líta svo á að lögaðilar séu aðildarfélög Pírata að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Félag sem óskar eftir að teljast aðildarfélag Pírata sendir umsókn um slíkt til framkvæmdastjórnar, ásamt lögum sínum. Framkvæmdastjórn úrskurðar hvort tilvonandi aðildarfélag uppfylli þau skilyrði sem hér eru lögð fram. Sé svo skal aðildarfélagið tafarlaust hljóta aðild, en að öðrum kosti skal því tilkynnt um þá ágalla sem á umsókninni eru

11.3. Framkvæmdastjórn heldur sameiginlega félagaskrá fyrir öll aðildarfélög Pírata. Allir félagar aðildarfélags teljast jafnframt félagar í Pírötum. Nú segir félagsmaður sig úr félaginu eða aðildarfélagi og hann gegnir trúnaðarstöðu hjá því og skal framkvæmdastjórn þá tilkynna aðildarfélaginu um úrsögnina.

11.4. Aðildarfélagi ber að skila fundargerð aðalfundar, ársskýrslu og bókhaldsgögnum sínum til framkvæmdastjórnar. Hafi slík gögn borist fyrir lok júnímánaðar telst aðildarfélag vera virkt.

11.7. Aðildarfélagi er heimilt að skipta starfsemi sinni frekar. Aðildarfélagi ber að gera framkvæmdastjórn grein fyrir slíkri skiptingu að því leyti sem hún hefur áhrif á félagaskráningu.

14.2. Kjörstjórn Pírata semur nánari reglur um prófkjör Pírata í samvinnu við stefnu- og málefnanefnd, sem leggja þarf fyrir kosningakerfi Pírata til samþykktar eða synjunar innan mánaðar frá því að dagsetning prófkjara hefur verið ákveðin.

15.1.Framkvæmdastjóri Pírata ræður kosningastjóra fyrir Alþingiskosningar í samráði við framkvæmdastjórn. Kosningastjóri ber ábyrgð á framkvæmd kosningabaráttu Pírata á landsvísu í samstarfi við oddvita kjördæmanna og í samráði við aðra frambjóðendur og aðildarfélög eða kjördæmafélög eftir því sem við á. Kosningastjóri og oddvitar kjördæmanna mynda kosningastjórn sem getur skorið úr um ágreiningsefni með atkvæðagreiðslu þar sem einfaldur meirihluti atkvæða ræður.

15.3. Kosningastefnuskrá Pírata skal unnin að frumkvæði stefnu- og málefnanefndar í opnu ferli innan hreyfingarinnar. Leggja skal kosningastefnuskrá Pírata fyrir kosningakerfið eins tímanlega og frekast er unnt fyrir kosningar.

Verða:

4.4. Stjórn hefur heimild til að fresta aðalfundi eða aukaaðalfundi um viku frá auglýstri dagsetningu, en aðeins í eitt skipti.

4.6. Stjórn skipuleggur dagskrá aðalfundar.

4.10. Á aðalfundi skal fara fram kosning í stjórn félagsins, eins og nánar er kveðið á um í 7. Kafla.

4.16. Annað hvert ár skal á aðalfundi kjósa þriggja manna kjörstjórn og þrjá til vara sem tekur til starfa að loknum aðalfundi og þar til næsta kjörstjórn tekur við. Fulltrúinn sem hlýtur besta kosningu skal vera formaður nema kjörstjórn ákveði annað. Kjörstjórn ber ábyrgð á framkvæmd prófkjara og kosninga í stjórnir, nefndir og ráð sem kveðið er á um í 7. kafla laga þessara, ásamt öðrum hlutverkum sem henni er falið með lögum. Kjörstjórn setur sér starfsreglur innan mánaðar frá því að hún nær kjöri þar sem fram koma skilyrði um hæfi og verklagsreglur við undirbúning kosninga.

Sé engin kjörstjórn starfandi tveimur vikum fyrir aðalfund ber stjórn að skipa tímabundna kjörstjórn til þess að annast aðalfund. Takist það ekki fellur hlutverk kjörstjórnar í hlut stjórnar, en aðalfundur skal þá staðfesta umboð slíkrar tímabundinnar kjörstjórnar, eða stjórnar til að annast hlutverkið, sérstaklega og kjósa þarf tímabundna kjörstjórn úr hópi félagsfólks á aðalfundi sé það ekki staðfest. Slík tímabundin kjörstjórn ber ábyrgð á kosningum á þeim aðalfundi, en ber ekki að öðru leiti ábyrgð á störfum sem kjörstjórn eru falin.

Aðili í kjörstjórn sem hyggst taka þátt í kosningum eða prófkjöri sem kjörstjórn ber ábyrgð á að framkvæma skal upplýsa kjörstjórn um það og víkja sæti þegar kjörstjórn tekur þá kosningu fyrir, og kemur þá varamaður í hans stað. Framkvæmdastjóri Pírata er kjörstjórn innan handar við störf sín. Kjörstjórn er heimilt að tilnefna aðila til þess að aðstoða við framkvæmd prófkjöra eða kosninga að því tilskildu að viðkomandi séu ekki í framboði í þeim kosningum eða prófkjöri sem um ræðir.

6.9. Sé þörf á skjótri ákvarðanatöku má leggja til, með samþykki stjórnar, hraðmeðferð á tillögu, en hún stendur þá yfir í sólarhring. Slíka ákvörðun þarf að staðfesta með hefðbundnum kosningum sem fara af stað samtímis. Skulu sérstök boð vera send til félagsmanna um að slík tillaga sé til kosningar. Þó þarf ekki staðfestingarkosningu til að staðfesta yfirlýsingu félagsins í samræmi við lög um upplýsingaráð, enda er þar ekki um lög eða stefnu félagsins að ræða.

7.1. Stjórn Pírata, eða stjórn, annast bæði almenna stjórn og rekstur félagsins og ber ábyrgð á pólitískri stefnumörkun og afstöðu flokksins í samræmi við samþykktir og grunnstefnu félagsins, nema þar sem slíkar ákvarðanir eru í höndum aðildarfélaga samkvæmt lögum þessum. stjórn Pírata ber ábyrgð á framboði flokksins í kosningum, nema þar sem það hlutverk er í höndum aðildarfélaga. 

7.2 Í stjórn Pírata sitja fimm einstaklingar. Í stjórn skulu vera formaður, varaformaður, ritari og gjaldkeri. stjórn skiptir sjálf með sér þeim hlutverkum sem ekki eru valin í beinni kosningu félagsfólks. Varaformaður getur samtímis gegnt hlutverki gjaldkera eða ritara, en önnur hlutverk innan stjórnar geta ekki farið saman. Á aðalfundi eru þeir fulltrúar í stjórn sem ekki eru valdir í beinni kosningu kjörnir í raðaðri forganskosningu, ásamt tveimur til vara. Kjörtímabil framkvæmdastjórnar er tvö ár, nema kosið sé í hlutverkið í beinni kosningu þar sem annað tímabil er tiltekið.

7.3 Formaður stýrir störfum stjórnar, boðar til funda hennar og hefur yfirumsjón með að ákvörðunum stjórnar sé framfylgt. Varaformaður tekur við hlutverki formanns í fjarveru hans eða þegar formaður er vanhæfur, og skal styðja formann í daglegu starfi og verkefnum. 

7.1.2.2. Fellur niður

7.1.2.3. Fellur niður

7.4  Stjórn skipuleggur Pírataþing, undirbýr kosningabaráttur í samstarfi við aðildarfélög og mótar kosningastefnuskrár í samstarfi við grasrót og frambjóðendur.

7.5 Stjórn Pírata setur stefnu um rekstur og fjárhag félagsins, og tekur ákvarðanir um pólitíska afstöðu þess þegar flýta þarf fyrir eða þegar mál falla utan formlegra stefnumótunarferla.

7.6 Stjórn Pírata telst starfhæf þó meðlimum hennar fækki niður í allt að þrjá, en þó ávallt þannig að stöður formanns, gjaldkera, ritara og varaformanns skipaða. Ef stjórn Pírata er ófær um að manna þessar stöður telst hún óstarfhæf og skal hún þá boða til auka-aðalfundar við fyrsta mögulega tækifæri þar sem kosið er um lausar stöður í stjórn. Kjörtímabil þeirra fulltrúa sem kosnir eru við slíkt tilefni miðast við kjörtíma þeirrar stjórnar sem þau ganga inn í.

Kaflaheitið Stefnu- og málefnanefnd fellur niður

7.2  Fellur niður

7.2.1. Fellur niður

7.2.2. Fellur niður

7.2.3. Fellur niður

7.2.4. Fellur niður

7.2.5. Fellur niður

7.2.6. Fellur niður

7.3. Gjaldkeri ber ábyrgð á gerð fjárhagsáætlunar Pírata fyrir hönd stjórnar Pírata og í samstarfi við hana.

7.3.1. Fellur niður

7.3.2. Gjaldkeri skal leggja verklagsreglur til samþykktar í stjórn Pírata um fjármálaumsjón félagsins og stofnana þess. Í reglunum sé að lágmarki kveðið á um:

  • að tvöföld undirritun sé á reikningum,

  • að haldið sé vel um kvittanir og önnur bókhaldsgögn,

  • að bókhaldi sé skilað til framkvæmdastjórnar a.m.k. ársfjórðungslega,

  • að lögum félagsins um opið bókhald sé framfylgt og;

  • fjárveitingar til svæðisbundinna aðildarfélaga samkvæmt skilgreindri reikniaðferð í 11. kafla laganna.

7.6. Samráðsfundir skulu haldnir á þriggja mánaða fresti. Eftirfarandi skulu eiga að lágmarki eitt sæti á samráðsfundi:

  • Stjórn Pírata

  • Kjördæmabundin aðildarfélög

  • Önnur aðildarfélög sem tilkynna um þátttöku

  • Þingflokkur, sé honum til að skipa.

  • Fulltrúar úr hverri sveitarstjórn þar sem Píratar eiga fulltrúa

7.7. Stjórn Pírata má ráða framkvæmdastjóra til að annast daglegan rekstur félagsins. Framkvæmdastjóri ræður annað starfsfólk Pírata. Um störf framkvæmdastjóra og annars starfsfólks fer nánar samkvæmt 9. Kafla. Velji stjórn Pírata ekki að ráða framkvæmdastjóra getur hún engu að síður kosið að ráða eða kosningastjóra og annað starfsfólk til að annast framboð og framkvæmd kosningabaráttu. 

7.8. Stjórn Pírata skal viðhafa reglubundið samráð við framkvæmdastjóra um fjármál og rekstur félagsins, sé framkvæmdastjóri til staðar

7.9. Stjórn Pírata er heimilt að skipa nefndir, starfshópa og málefnahópa um afmörkuð verkefni. Skal hún setja þeim hópum og nefndum sem hún skipar reglur um hlutverk, ábyrgðarsvið og starfstímabil.

7.8. Fellur niður

7.10. Aðilar þurfa að vera félagar í Pírötum til að vera kjörgengir í stjórn Pírata eða í stöður innan hennar sem kosnar eru beinni kosningu. Enginn getur setið lengur en fjögur kjörtímabil samfleytt í sömu stjórn, nefnd, eða embætti sem kjörið er beinni kosningu í innra starfi flokksins. Kjörnum fulltrúum er heimilt að taka sæti í stjórnum, nefndum og embættum innan félagsins, nema annað sé sérstaklega tekið fram í lögum þessum.

7.11 Engar takmarkanir gilda um samhliða setu einstaklinga í stjórn Pírata eða nefndir, sé viðkomandi kjörgengur til viðkomandi stöðu á annað borð, nema annað sé sérstaklega tekið fram í lögum þessum

8.a.1. Stjórn Pírata tekur við tilnefningum og skipar þrjá einstaklinga í trúnaðarráð. Skipun ráðsins skal staðfest á gildum félagsfundi.

9.2. Framkvæmdastjóra er heimilt, í samráði við stjórn Pírata, að ráða til sín starfsfólk í tengslum við kosningabaráttu eða önnur tímabundin verkefni án auglýsingar. Þegar enginn framkvæmdastjóri er starfandi fer stjórn Pírata með þessa heimild.

10.4. Framkvæmdastjóri skal setja erindisbréf í rafrænt atkvæðagreiðslukerfi Pírata innan sólarhrings frá samþykkt félagsfundar eða Aðalfundar, þetta hlutverk fellur á ritara stjórnar Pírata sé enginn framkvæmdastjóri starfandi.

10.5. Erindisbréf öðlast gildi þegar það hefur verið staðfest á þrennan hátt. Fyrst með einföldum meirihluta í atkvæðagreiðslu meðal allra Pírata í rafrænu atkvæðagreiðslukerfi flokksins og svo af einföldum meirihluta aðalmanna í stjórn Pírata og einföldum meirihluta þingflokks Pírata, sé hann til staðar.

10.6. Stjórn Pírata og þingflokkur skulu greiða atkvæði um afdrif erindisbréfs innan 7 daga frá samþykkt erindisbréfs í rafrænni atkvæðagreiðslu. Láti stjórn Pírata eða þingflokkur undir höfuð leggjast að greiða atkvæði um erindisbréf innan 7 daga frá samþykkt í rafrænni atkvæðagreiðslu skal það tákna samþykkt erindisbréfsins af þeirra hálfu.

11.1. Heimilt er að líta svo á að lögaðilar séu aðildarfélög Pírata að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Félag sem óskar eftir að teljast aðildarfélag Pírata sendir umsókn um slíkt til stjórnar Pírata, ásamt lögum sínum. stjórn Pírata úrskurðar hvort tilvonandi aðildarfélag uppfylli þau skilyrði sem hér eru lögð fram. Sé svo skal aðildarfélagið tafarlaust hljóta aðild, en að öðrum kosti skal því tilkynnt um þá ágalla sem á umsókninni eru

11.3. Stjórn Pírata heldur sameiginlega félagaskrá fyrir öll aðildarfélög Pírata. Allir félagar aðildarfélags teljast jafnframt félagar í Pírötum. Nú segir félagsmaður sig úr félaginu eða aðildarfélagi og viðkomandi gegnir trúnaðarstöðu hjá því og skal stjórn Pírata þá tilkynna aðildarfélaginu um úrsögnina.

11.4. Aðildarfélagi ber að skila fundargerð aðalfundar, ársskýrslu og bókhaldsgögnum sínum til stjórnar Pírata. Hafi slík gögn borist fyrir lok júnímánaðar telst aðildarfélag vera virkt.
11.7. Aðildarfélagi er heimilt að skipta starfsemi sinni frekar. Aðildarfélagi ber að gera stjórn Pírata grein fyrir slíkri skiptingu að því leyti sem hún hefur áhrif á félagaskráningu.

14.2. Kjörstjórn Pírata semur nánari reglur um prófkjör Pírata í samvinnu við stjórn Pírata, sem leggja þarf fyrir kosningakerfi Pírata til samþykktar eða synjunar innan mánaðar frá því að dagsetning prófkjara hefur verið ákveðin.

15.1.Framkvæmdastjóra Pírata er heimilt að ráða kosningastjóra fyrir Alþingiskosningar í samráði við stjórn Pírata. Kosningastjóri ber ábyrgð á framkvæmd kosningabaráttu Pírata á landsvísu í samstarfi við oddvita kjördæmanna og í samráði við aðra frambjóðendur, stjórn Pírata, aðildarfélög eða kjördæmafélög eftir því sem við á. Kosningastjóri og oddvitar kjördæmanna mynda kosningastjórn sem getur skorið úr um ágreiningsefni með atkvæðagreiðslu þar sem einfaldur meirihluti atkvæða ræður. Sé enginn framkvæmdastjóri starfandi fer stjórn Pírata með þetta umboð og gegnir þá formaður hlutverki framkvæmdastjóra í kosningastjórn nema stjórn Pírata velji annan fulltrúa.

15.3. Kosningastefnuskrá Pírata skal unnin að frumkvæði stjórnar Pírata í opnu ferli innan hreyfingarinnar. Leggja skal kosningastefnuskrá Pírata fyrir kosningakerfið eins tímanlega og frekast er unnt fyrir kosningar.


Greinargerð:

Í ljósi stöðu félagsins er nauðsynlegt að ráðast í ákveðnar breytingar. Erfitt hefur reynst að manna bæði framkvæmdastjórn og stefnu- og málefnanefnd, en jafnframt hefur skipting verkefna virkað óþarflega flókin og mögulega hefur það flækst fyrir nauðsynlegum ákvörðunum og úrbótum.

Þessari tillögu er ætlað að skerpa á hlutverkum, valdefla nýja stjórn og skýra umboð hennar. Ný stjórn fer bæði með núverandi rekstrarhlutverk framkvæmdastjórnar, en hún fær líka umboð til að sinna pólitísku forystuhlutverki, gefa út ályktanir í samræmi við stefnu flokksins og hafa frumkvæði að nauðsynlegum viðbrögðum og breytingum.

Við höfum of lengi verið of upptekin af því að setja hvert öðru íþyngjandi takmörk, sem eru letjandi til þátttöku og draga úr frumkvæði. Við ættum að skilgreina umboð og ábyrgð saman og við ættum að velja fólk í stjórn félagsins sem við treystum til að fara með þá ábyrgð.




Tillaga 2: Kosning formanns og varaformanns


Núverandi Lög, 

  • með fyrirvara um að hugsanlega hafi þær breyst með samþykkt fyrri tillögu:

7.1.1. Í framkvæmdastjórn sitja fimm einstaklingar. Tveir eru almennir stjórnarmenn. Einn er svo formaður, annar er ritari og þriðji gjaldkeri. Á aðalfundi eru fjórir kjörnir í framkvæmdastjórn af röðuðum lista, ásamt tveimur til vara, og gjaldkeri er að jafnaði kjörinn sérstaklega á aðalfundi í einstaklingskjöri. Kjörtímabil allra í framkvæmdastjórn er tvö ár. Listakosning fer fram um tvo aðila og einn til vara annað hvert ár og kosning um gjaldkera fer fram á tveggja ára fresti.

7.1.2.1. Sá meðlimur framkvæmdastjórnar sem hlýtur besta listakosningu ( sbr. gr. 7.1.1) skal stýra störfum hennar sem formaður. Vilji sitjandi formaður sem er ennþá kjörgengur til stjórnar halda formannsstöðu sinni þegar kjör til stjórnar fer fram skal hann þannig taka þátt í listakosningu upp á hver hlýtur formannssætið en heldur stjórnarsæti sínu óháð því hvernig listinn raðast. Ef sá meðlimur sem vinnur listakosningar biðst undan, missir kjörgengi eða staða hans losnar af öðrum ástæðum, þá velur framkvæmdastjórnin sér formann úr sínum röðum fram að næsta aðalfundi eða auka-aðalfundi.

7.1.2.2. Framkvæmdastjórn kýs ritara úr sínum röðum og er sá aðili einnig varaformaður.

0. Umboðsmenn Pírata

10.1. Píratar geta á almennum félagsfundum og Aðalfundi skipað umboðsmenn, einn eða fleiri, til að sinna ákveðnum, vel skilgreindum og tímabundnum verkefnum í umboði flokksins.

10.2. Verkefni umboðsmanna, skyldur þeirra til skýrslugjafar og tímamörk verkefnisins skal skilgreint í erindisbréfi sem lagt er fram á Aðalfundi flokksins eða almennum félagsfundi. Tímamörk verkefnis skal samsvara gildistíma erindisbréfs.

10.3. Tímabinding skipunar skal vera eins þröng og kostur er og aldrei lengra en eitt ár. Hægt er að endurnýja erindisbréf þegar mest einn mánuður er eftir af gildistíma fyrra erindisbréfs. Endurnýjun fer fram eins og um nýtt erindisbréf væri að ræða.

10.4. Framkvæmdastjóri skal setja erindisbréf í rafrænt atkvæðagreiðslukerfi Pírata innan sólarhrings frá samþykkt félagsfundar eða Aðalfundar.

10.5. Erindisbréf öðlast gildi þegar það hefur verið staðfest á þrennan hátt. Fyrst með einföldum meirihluta í atkvæðagreiðslu meðal allra Pírata í rafrænu atkvæðagreiðslukerfi flokksins og svo af einföldum meirihluta aðalmanna í framkvæmdastjórn og einföldum meirihluta þingflokks Pírata þegar slíkum flokki er til að dreifa.

10.6. Framkvæmdastjórn og þingflokkur skulu greiða atkvæði um afdrif erindisbréfs innan 7 daga frá samþykkt erindisbréfs í rafrænni atkvæðagreiðslu. Láti framkvæmdastjórn eða þingflokkur undir höfuð leggjast að greiða atkvæði um erindisbréf innan 7 daga frá samþykkt í rafrænni atkvæðagreiðslu skal það tákna samþykkt erindisbréfsins af þeirra hálfu.

10.7. Erindisbréf skal vera til umræðu í atkvæðagreiðslukerfi Pírata í sjö daga og atkvæðagreiðsla skal standa aðra sjö daga.

10.8. Fjöldi umboðsmanna verkefnis skal vera oddatala og skal hver umboðsmaður velja sér sinn varamann.

10.9. Umboðsmenn þurfa ekki að vera Píratar en geta verið sérfræðingar á því sviði sem verkefnið krefst eða eftir atvikum aðrir þeir sem sinnt geta verkinu.

10.10. Séu umboðsmenn verkefnis fleiri en einn skal þeirra fyrsta verk vera að skipta með sér verkum og kjósa sér fyrsta umboðsmann og einnig annan umboðsmann ef umboðsmenn eru fleiri en einn, úr sínum hópi.

10.11. Fyrsti umboðsmaður skal jafnan stýra fundum hópsins og sinna almennri verkstjórn hópsins en annar umboðsmaður skal rita fundi og taka við verkstjórn í forföllum fyrsta umboðsmanns.

10.12. Almennur félagsfundur eða Aðalfundur geta krafið umboðsmenn um skýrslu um stöðu verkefnis og skal henni skilað innan þriggja vikna frá því að hennar er krafist.

10.13. Hægt er að afturkalla erindisbréf umboðsmanna fyrir þau tímamörk sem bréfið kveður á um með sama hætti og þau eru búin til, sbr. 1. gr. og öðlast afturköllun gildi með sama hætti og erindisbréf, sbr. 5. gr.

15.1.Framkvæmdastjóri Pírata ræður kosningastjóra fyrir Alþingiskosningar í samráði við framkvæmdastjórn. Kosningastjóri ber ábyrgð á framkvæmd kosningabaráttu Pírata á landsvísu í samstarfi við oddvita kjördæmanna og í samráði við aðra frambjóðendur og aðildarfélög eða kjördæmafélög eftir því sem við á. Kosningastjóri og oddvitar kjördæmanna mynda kosningastjórn sem getur skorið úr um ágreiningsefni með atkvæðagreiðslu þar sem einfaldur meirihluti atkvæða ræður.

17.3. Fulltrúar í þingflokkum og sveitarstjórnarflokkum skiptast á að gegna þeim embættum sem skylt er að þau taki sér, eigi lengur en til árs í senn.

17.4. Tilheyri þingflokkur minni hluta á Alþingi og geti ekki fengið aðstoðarmann til starfa á þinginu nema með því að hafa formann, skal einn þingmaður gegna embætti formanns félagsins, eitt þing í senn. Skal hann slembivalinn eftir þingkosningar, en gangi það í keðju þar eftir. Hann hafi ekki aukin pólitísk völd og afþakki formannsálag á þingfararkaup. Þingflokksformaður getur ekki einnig verið formaður félagsins.

Verða:

Til verður nýr kafli 7: Formaður og Varaformaður

7.1. Formaður Pírata og Varaformaður eru kjörin beinni kosningu, hvort í sínu lagi, á aðalfundi Pírata. Sú kosning skal fara fram með raðaðri forgangskosningu. Kjörgengt er allt félagsfólk Pírata sem skráð hefur verið í ár eða lengur.

7.2. Haga skal kosningum þannig að fyrst sé kjörinn formaður Pírata, síðan varaformaður og að því loknu skal kosið til Stjórnar Pírata, þannig gefist þeim sem ekki hljóta kjör til formanns möguleiki á að gefa kost á sér til varaformanns, og þeim sem ekki hljóta kjör sem varaformaður möguleiki á að gefa kost á sér í Stjórn Pírata, það skal vera frambjóðendum í boði þó svo framboðsfrestur sé annars útrunninn, en þó ekki lengur en fram að því að kosning hefst.

7.3. Formaður Pírata stýrir störfum stjórnar, boðar til funda hennar og hefur umboð til að tala fyrir hönd flokksins innanlands og erlendis. Hann er einnig ábyrgur fyrir því að unnið sé í takt við þær ályktanir og stefnur sem samþykkt eru á aðalfundi eða með öðrum réttmætum hætti samkvæmt lögum félagsins. Formaður ber að tryggja að í starfsemi flokksins sé unnið í samræmi við grunnstefnu, góða stjórnarhætti, siðareglur og þannig að starf flokksins takist sem best.  

7.4 Formaður Pírata leiðir samningaviðræður við stjórnarmyndun og gerð stjórnarsáttmála  í samráði við stjórn, ákveður ráðherralista í samstarfi við stjórn og þingflokk, og ber slíkar ákvarðanir undir stjórn til samþykktar.
7.5. Varaformaður tekur við hlutverki formanns tímabundið þegar formaður forfallast og ber, ásamt formanni, ábyrgð á innra starfi flokksins, stefnumótunarvinnu, umsjón með málefnastarfi og öðrum verkefnum samkvæmt ákvörðun stjórnar.

7.6. Hægt er að lýsa vantrausti á formann og/eða varaformann með tvennum hætti. Annars vegar getur einfaldur meirihluti stjórnar Pírata lýst vantrausti á formann/varaformann. Þá skal þegar boðað til auka-aðalfundar, þar sem vantraustið er borið upp til staðfestingar. Sé vantraust á formann staðfest með einföldum meirihluta félagsfólks þarf þegar að boða til nýs aðalfundar, eigi lengur en mánuði síðar, þar sem kosinn er nýr formaður, gegnir þá varaformaður hlutverki formanns þangað til. Sá sem er lýst vantrausti á með þessum hætti missa jafnframt sæti í stjórn. Sé samþykkt vantraust á bæði formann og varaformann er enginn starfandi formaður fram að aðalfundi. Sé framlagt vantraust á formann ekki staðfest skal kjósa nýja stjórn, utan formanns og varaformanns. Sé vantraust á varaformann samþykkt, en ekki formann, skal stjórn velja nýjan varaformann úr sínum röðum sem klári tímabil fráfarandi varaformanns. Jafnframt getur grasrót Pírata farið fram á vantrausts kosningu. Skal þá boðað til félagsfundar þar sem tilgreint er að til umræðu verði vantrauststillaga á formann, og/eða varaformann. Sé slík tillaga samþykkt með meirihluta félagsfólks á félagsfundi, þó ekki færri en tíu, skal stjórn þegar boða til auka aðalfundar með sama hætti og ef vantraust væri borið fram af stjórn, með þeirri undantekningu að ekki þarf að kjósa nýja stjórn sé vantrauststillagan felld.

Númer annarra lagakafla uppfærast til samræmis, eða með tilliti til annarra samþykktra lagabreytinga.

8.1.1. Í framkvæmdastjórn sitja fimm einstaklingar. Tveir eru almennir stjórnarmenn. Einn er svo formaður, annar er ritari og þriðji gjaldkeri. Á aðalfundi eru fjórir kjörnir í framkvæmdastjórn af röðuðum lista, ásamt tveimur til vara, og gjaldkeri er að jafnaði kjörinn sérstaklega á aðalfundi í einstaklingskjöri. Kjörtímabil allra í framkvæmdastjórn er tvö ár. Listakosning fer fram um tvo aðila og einn til vara annað hvert ár og kosning um gjaldkera fer fram á tveggja ára fresti.

8.1.2.1. Formaður stýrir störfum stjórnar, boðar til funda hennar og hefur yfirumsjón með að ákvörðunum stjórnar sé framfylgt. Varaformaður tekur við hlutverki formanns í fjarveru hans eða þegar formaður er vanhæfur, og skal styðja formann í daglegu starfi og verkefnum.

7.1.2.2. Fellur niður

Kafli 10 um umboðsmenn, ásamt öllum undirköflum, falla niður.

15.1.Framkvæmdastjóri Pírata ræður kosningastjóra fyrir Alþingiskosningar í samráði við stjórn. Kosningastjóri ber ábyrgð á framkvæmd kosningabaráttu Pírata á landsvísu í samstarfi við oddvita kjördæmanna og í samráði við aðra frambjóðendur og aðildarfélög eða kjördæmafélög eftir því sem við á. Kosningastjóri, formaður Pírata og oddvitar kjördæmanna mynda kosningastjórn sem getur skorið úr um ágreiningsefni með atkvæðagreiðslu þar sem einfaldur meirihluti atkvæða ræður. Sé enginn framkvæmdastjóri starfandi fer stjórn Pírata með þetta umboð og gegnir þá formaður hlutverki framkvæmdastjóra í kosningastjórn nema stjórn Pírata velji annan fulltrúa.

17.3. Fulltrúar í þingflokki og sveitarstjórnarflokkum ákveða sjálf með hvaða hætti þau velja í þau embætti sem þeim ber að skipa.

17.4. Sé formaður Pírata ekki hluti af þingflokki Pírata getur þingflokkurinn beðið stjórn um sérstakan auka-aðalfund til þess að kjósa nýjan formann að kosningum loknum, sé það að valda því að þingflokkurinn fái ekki aðstoðarmenn sem ráðnir eru til formanna flokka. Sé það samþykkt af stjórn skal þegar boðað til þess auka-aðalfundar, þar sem kosning formanns fer fram. Sé enginn þingmaður kjörinn formaður á þeim auka-aðalfundi stendur sú niðurstaða. Þingflokksformaður getur ekki einnig verið formaður félagsins, nema hann sé eini þingmaður flokksins.



Greinargerð:

Það hefur flækst fyrir okkur of lengi að vera hvorki með formann né varaformann. Það gerir að verkum að hlutverk og völd eru óskýr, verða óformleg og erfitt að aðgreina frá persónum og leikendum. Þau sem eru frek, eða aðsópsmikil geta safnað að sér óformlegu valdi sem hvergi er skilgreint og erfitt að fjarlæga. Með því að fela fólki formlega vald og ábyrgð er líka hægt að skýra ferla um það hvernig það sé gert, hversu lengi, og með hvaða hætti það vald og ábyrgð sé tekin af þeim.

Með því að velja formann eyðum við einnig vafa, bæði meðal fjölmiðla, kjósenda og annarra flokka, um það hvern ætti að tala við þegar mikilvæg málefni koma upp. Þegar þetta er ekki skýrt geta fjölmiðlar og aðrir valið eftir eigin hentisemi við hvern er talað, eða sleppt því alfarið að tala við nokkurn Pírata, á hátt sem gerir okkur erfiðara fyrir að kynna málstað okkar.

Við þurfum að geta treyst hvert öðru ef við ætlum að vinna saman, og hluti af því er að vera tilbúin til að fela hvert öðru ábyrgð og vald, ásamt skýrum mörkum.

Hér er um að ræða bráðabirgðatillögur, sem ég hvet eindregið til að verði unnar nánar í framhaldinu.


Tillaga 3: Niðurfelling kosningakerfis


Núgildandi Lög, 

-með fyrirvara um að þeim hafi þegar verið breytt með öðrum tillögum, þá uppfærist þær með sama hætti. Þær lagagreinar sem felldar hafa verið niður í öðrum tillögum skulu jafnframt felldar út úr þessari tillögu

4.5. Á félagsfundi samkvæmt 5. kafla er hægt að leggja fram tillögu um að boða til auka-aðalfundar. Slík tillaga skal koma fram í fundarboði. Sé hún samþykkt á félagsfundinum skal hún sett í kosningu í kosningakerfi Pírata til samþykktar eða synjunar. Sé hún samþykkt með að minnsta kosti ⅔ atkvæða í kosningakerfi Pírata er framkvæmdastjórn skylt að boða auka-aðalfund eins fljótt og mögulegt er. Framkvæmdastjórn hefur einnig sjálfstæða heimild til að boða til auka-aðalfundar.

6.1. Lög þessi eru öll lög félagsins, en þeim má aðeins breyta með ⅔ meirihluta greiddra atkvæða félagsmanna í kosningakerfi flokksins.

6.4. Stefnu má ákveða með einföldum meirihluta í gegnum rafræn kosningakerfi félagsins.

6.7. Með samþykki 5% fundarmanna á almennum félagsfundi, en lágmark þriggja, skal vísa tillögu að stefnu til rafrænna kosninga.

6.8. Að jafnaði skulu rafrænar kosningar standa yfir í 6 daga.

6.9. Sé þörf á skjótri ákvarðanatöku má leggja til, með samþykki stefnu- og málefnanefndar, hraðmeðferð á tillögu, en hún stendur þá yfir í sólarhring. Slíka ákvörðun þarf að staðfesta með hefðbundnum kosningum sem fara af stað samtímis. Skulu sérstök boð vera send til félagsmanna um að slík tillaga sé til kosningar. Þó þarf ekki staðfestingarkosningu til að staðfesta yfirlýsingu félagsins í samræmi við lög um upplýsingaráð, enda er þar ekki um lög eða stefnu félagsins að ræða.

7.2.4. Í aðdraganda alþingiskosninga skal stefnu- og málefnanefnd útbúa kosningastefnuskrá sem byggir á samþykktri stefnu flokksins að höfðu samráði við frambjóðendur. Kosningastefnuskrá skal samþykkt með atkvæðagreiðslu í rafrænu kosningakerfi flokksins.

10.4. Framkvæmdastjóri skal setja erindisbréf í rafrænt atkvæðagreiðslukerfi Pírata innan sólarhrings frá samþykkt félagsfundar eða Aðalfundar.

10.5. Erindisbréf öðlast gildi þegar það hefur verið staðfest á þrennan hátt. Fyrst með einföldum meirihluta í atkvæðagreiðslu meðal allra Pírata í rafrænu atkvæðagreiðslukerfi flokksins og svo af einföldum meirihluta aðalmanna í framkvæmdastjórn og einföldum meirihluta þingflokks Pírata þegar slíkum flokki er til að dreifa.

10.6. Framkvæmdastjórn og þingflokkur skulu greiða atkvæði um afdrif erindisbréfs innan 7 daga frá samþykkt erindisbréfs í rafrænni atkvæðagreiðslu. Láti framkvæmdastjórn eða þingflokkur undir höfuð leggjast að greiða atkvæði um erindisbréf innan 7 daga frá samþykkt í rafrænni atkvæðagreiðslu skal það tákna samþykkt erindisbréfsins af þeirra hálfu.

10.7. Erindisbréf skal vera til umræðu í atkvæðagreiðslukerfi Pírata í sjö daga og atkvæðagreiðsla skal standa aðra sjö daga.

14.2. Kjörstjórn Pírata semur nánari reglur um prófkjör Pírata í samvinnu við stefnu- og málefnanefnd, sem leggja þarf fyrir kosningakerfi Pírata til samþykktar eða synjunar innan mánaðar frá því að dagsetning prófkjara hefur verið ákveðin.

15.3. Kosningastefnuskrá Pírata skal unnin að frumkvæði stefnu- og málefnanefndar í opnu ferli innan hreyfingarinnar. Leggja skal kosningastefnuskrá Pírata fyrir kosningakerfið eins tímanlega og frekast er unnt fyrir kosningar.

Ónúmeruð lokagrein:

Lög þessi eru byggð á samþykktum lögum Pírata í kosningakerfi Pírata. Ef um misræmi milli útgáfa af lögum er að ræða þá ræður textinn úr samþykktum lögum í kosningakerfinu: innra skipulag á x.piratar.is þó með fyrirvara um að númeraröð lagagreina hefur riðlast vegna viðbóta við lögin


Verða:

4.5. Á félagsfundi samkvæmt 5. kafla er hægt að leggja fram tillögu um að boða til auka-aðalfundar. Slík tillaga skal koma fram í fundarboði. Sé hún samþykkt af ⅔ hluta félagsfólks á félagsfundinum, þó ekki færri en 10 manns, telst hún samþykkt. Þá er stjórn skylt að boða auka-aðalfund eins fljótt og mögulegt er. Stjórn hefur einnig sjálfstæða heimild til að boða til auka-aðalfundar.

6.0. (Tímabundið ákvæði): Stjórn skal bera ábyrgð á því, í samstarfi við kjörstjórn, sé hún til staðar, að setja í gang vinnu við að skrifa kosningareglur Pírata, sem gildi um bæði innri kosningar og kosningar í prófkjöri, þeirri vinnu skal lokið eigi síðar en ári frá samþykkt þessarar greinar.

6.1. Lög þessi eru öll lög félagsins, en þeim má aðeins breyta með ⅔ meirihluta greiddra atkvæða á aðalfundi félagsins.

6.4. Stefnu má ákveða með einföldum meirihluta á aðalfundi. 

6.7. Félagsfundur getur gefið út ályktun, sé hún samþykkt af meirihluta félagsfólks, þó ekki færri en fimm manns, skal þess getið í fundarboði að til standi að leggja fram ályktun.

6.8. Fellur niður

6.9. Fellur niður

7.2.4. Í aðdraganda alþingiskosninga skal stefnu- og málefnanefnd útbúa kosningastefnuskrá sem byggir á samþykktri stefnu flokksins að höfðu samráði við frambjóðendur og félagsfólk

10.4. Fellur niður

10.5. Erindisbréf öðlast gildi þegar það hefur verið staðfest á af einföldum meirihluta aðalmanna í stjórn og einföldum meirihluta þingflokks Pírata þegar slíkum flokki er til að dreifa

10.6. Stjórn og þingflokkur skulu greiða atkvæði um afdrif erindisbréfs innan 7 daga frá samþykkt þess. Láti stjórn eða þingflokkur undir höfuð leggjast að greiða atkvæði um erindisbréf innan 7 daga frá samþykkt þess skal það tákna samþykkt erindisbréfsins af þeirra hálfu.

10.7. Fellur niður

14.2. Kjörstjórn Pírata, í samstarfi við stjórn, skal semja reglur um framkvæmd prófkjara Pírata og aðildarfélaga. Þær reglur skulu lagðar fram til staðfestingar á aðalfundi sé það mögulegt.

15.3. Kosningastefnuskrá Pírata skal unnin að frumkvæði stefnu- og málefnanefndar í opnu ferli innan hreyfingarinnar. 

Ónúmeruð lokagrein:

Lög þessi eru byggð á samþykktum lögum Pírata samkvæmt lögum þessum. Ritari félagsins ber ábyrgð á því að uppfæra lögin í samræmi við gerðar breytingar. 



Greinargerð.

Það er ljóst að við getum ekki lengur notast við kosningakerfið x.piratar.is, enda er það bæði gamalt og þeir píratar sem skrifuðu það og héldu því við ekki lengur virkir í félaginu. Við einfaldlega getum ekki haldið áfram að hafa kerfi svona innrammað í alla ákvarðanatöku sem við treystum á greiðvikni óvirkra félaga til að halda gangandi.

Þessar lagabreytingar eru hugsaðar til þess að gera okkur kleift að halda áfram án þess kerfis, en ég hvet okkur þó til þess að fara í ítarlegri vinnu til að lagfæra lögin okkar, skilgreina hvernig innri kosningar ættu að fara fram og mögulega finna annað rafrænt kosningakerfi til að nota í framtíðinni. Lögin okkar ættu þó aldrei að vera skrifuð í kringum það að eitt tiltekið kerfi sé nothæft og aðgengilegt.

Meðan við höfum ekki rafrænt kosningakerfi gefur það einnig augaleið að við getum ekki notað Schulze, og myndi ég sterklega hvetja aðildarfélög og aðra til að tilgreina það ekki sérstaklega í sínum lögum. Það er mögulegt að handtelja STV, en bara sérfræðingar geta handtalið í Schulze kosningu.


Næste
Næste

Niðurstöður vinnufundaröð Pírata