Opið fyrir framboð í prófkjör Pírata
Kjörstjórn Pírata boðar til prófkjörs til að velja frambjóðendur á lista í öllum kjördæmum fyrir Alþingiskosningarnar 2024. Opnað er fyrir prófkjör þann 15. október kl. 22:45. Kynningar frambjóðenda munu fara fram dagana 19. og 20. október. Kosningar hefjast 20. október, kl. 16:00 og lýkur þann 22. október, kl. 16:00.
Skráning frambjóðenda fer fram á https://x.piratar.is. Nauðsynlegt er einnig að veita kjörstjórn nánari upplýsingar hér: Skráning upplýsinga fyrir kjörstjórn.
Nauðsynlegt er að skrá framboð á báðum ofangreindum slóðum svo það teljist gilt!
Prófkjörsreglur
Með framboðsskráningu samþykkir frambjóðandi að hann hafi kynnt sér eftirfarandi kvaðir sem fylgir framboðinu og samþykki þær:
Frambjóðandi skal vera skráður í Pírata.
Frambjóðandi skal vera kjörgengur til Alþingis skv. 6. gr. kosningalaga nr. 112/2021.
Frambjóðandi skal staðfesta sæti sitt á lista eigi síðar en 24 klst. eftir að niðurstöður prófkjörs eru kunngjörðar. Frambjóðandi mun á sama tíma staðfesta umboðsmenn listans.
Frambjóðandi skal veita kjörstjórn nauðsynlegar upplýsingar sem hún óskar vegna prófkjörsins.
Ef frambjóðandi er ekki kjörgengur er heimilt að víkja honum af lista svo listinn sé löglegur.
Frambjóðendur gera grein fyrir öllum þeim hagsmunum sem gætu skipt máli við framboðið. Hagsmunaskráningu skal lokið áður en kosning hefst þann 20. október kl. 16:00. Skrá skal hagsmuni inn á Mínum síðum frambjóðanda í kosningakerfi Pírata.
Kaup á atkvæðum eru ekki leyfileg undir neinum kringumstæðum. Verður frambjóðandi uppvís um slíkt verður málinu vísað til úrskurðarnefndar Pírata sem mun taka ákvörðun um áframhaldandi þátttöku frambjóðandans í prófkjöri.
Framkvæmd prófkjörs
Kosningarétt í prófkjöri hafa allir þeir einstaklingar sem eru skráðir í Pírata samkvæmt skráningakerfi x.piratar.is. Prófkjör í öllum kjördæmum verða opin öllum aðildarfélögum.
Úrslit prófkjara eru bindandi fyrir helming þingsæta hvers kjördæmis fyrir sig, námundað upp á við. Raða skal í efstu sæti framboðslista í hverju kjördæmi samkvæmt úrslitum forgangskosningar með Schulze-aðferð.
Kjörstjórn Pírata raðar í sæti neðar á lista með fjölbreytni og jafnrétti að leiðarljósi ásamt því að taka mið af úrslitum prófkjörsins. Kjörstjórn er heimilt að bæta öðrum sem ekki voru í prófkjöri á listann með samþykki þeirra sjálfra og í samráði við þau sem hlutu bindandi kjör á listann.
Frambjóðanda er heimilt að taka sæti neðar á lista en kjör hans segir til um og færast þá aðrir frambjóðendur upp. Hafni frambjóðandi sæti eða geti af öðrum sökum ekki tekið því skal afmá nafn hans af listanum og færa þá sem á eftir koma upp um eitt sæti.
Sáttmáli frambjóðenda
Frambjóðendur lýsa því yfir að þeir muni hafa eftirfarandi atriði í huga í framboði sínu:
Frambjóðendur í prófkjöri sýna öðrum frambjóðendum kurteisi og virðingu og koma fram af háttvísi, bæði í ræðu og riti.
Frambjóðendur koma heiðarlega fram, eru sannsöglir og málefnalegir.
Frambjóðendur gæta þess að sýna auðmýkt gagnvart ábyrgð sinni og valdi sem frambjóðendur Pírata.
Frambjóðendur lýsa því yfir að þeir munu starfa í samræmi við grunnstefnu Pírata.
Frambjóðendur lýsa því yfir að þeir muni taka virkan þátt í kosningabaráttu.
Ábendingar, spurningar og athugasemdir vegna prófkjörsins skulu sendar á kjorstjorn@piratar.is.