Auka-Aðalfundur Pírata 2025

Framkvæmdastjórn boðar hér með til aukaaðalfundar Pírata, fimmtudaginn 30. október næstkomandi, þar sem kosið verður í helstu embætti flokksins samkvæmt nýjum lögum Pírata sem samþykkt voru á aðalfundi 20. september 2025.

📅 Fimmtudaginn 30. október 2025

🕒 Kl. 17:30–19:30

📍 Sjóminjasafnið, Grandagarði 8, Reykjavík - fundarsalurinn Hornsíli,

Aðgengi: Tryggt verður að fundaraðstaða sé aðgengileg fyrir öll

Aukaaðalfundur er vettvangur lýðræðis, samráðs og endurnýjunar. Þar veljum við fólk sem mótar stefnu, ákvarðanir og framtíð Pírata.

Við hvetjum allt félagsfólk — nýtt sem eldra — til að taka þátt, sitja fundinn og gefa kost á sér í embætti. Samkvæmt lögum Pírata gr.14.6 geta öll skráð félagsfólk boðið sig fram og tekið þátt í kosningum, enda hafi þau verið skráð í félagið þegar fundarboð var sent út, utan þess að til þess að vera kjörgeng í embætti formanns þarf félagsfólk að hafa verið skráð í félagið í eitt ár.

Það er í anda Pírata að fjölbreytt sjónarmið, reynsla og bakgrunnur fái rými.

Því eru öll hvött til að stíga fram — hvort sem þú ert á fyrsta fundinum þínum eða hefur starfað innan hreyfingarinnar árum saman.

Á fundinum verða kynnt skýrsla stjórnar og ársreikningur lagður fram, auk þess sem kosið verður í embætti og stjórnir
Endanleg dagskrá aukaaðalfundar verður send út þegar nær dregur.

Kosið verður í öll helstu embætti flokksins samkvæmt nýju lögunum.

Formaður Pírata

Formaður stýrir störfum stjórnar, boðar til funda hennar og hefur yfirumsjón með að ákvarðanir hennar séu framfylgt.

Hlutverkið krefst leiðtogahæfni, samráðsfærni og skýrleika í samskiptum — en fyrst og fremst trausts og virðingar gagnvart grasrótinni.

Tilvísun: Lög Pírata, grein 7.3 – „Formaður boðar til funda stjórnar, stýrir störfum hennar og tryggir að ákvörðunum sé framfylgt.“

Varaformaður Pírata

Varaformaður styður formann í daglegum verkefnum og tekur við hlutverki hans ef hann er fjarverandi eða vanhæfur.

Þetta er samstarfs- og tengslahlutverk — brú milli formanns, stjórnar og grasrótar.

Tilvísun: Lög Pírata, grein 7.3 – „Varaformaður tekur við hlutverki formanns í fjarveru hans og styður hann í daglegu starfi.“

Þrír aðrir stjórnarfulltrúar og tveir varafulltrúar

Stjórn Pírata ber ábyrgð á rekstri og stefnumörkun flokksins. Stjórn skiptir með sér hlutverkum ritara og gjaldkera.

Stjórnarfólk vinnur með formanni að því að framfylgja samþykktum, tryggja gagnsæi og efla innra starf.

📜 Tilvísun: Lög Pírata, grein 7.1–7.6 – „Stjórn Pírata annast almenna stjórn og rekstur félagsins, setur stefnu um rekstur og fjármál og mótar pólitíska afstöðu flokksins.“

📊 Kosið verður með samþykktarkosningu (samkvæmt grein 8.1.1).

Skoðunarmenn reikninga (1 fulltrúi)

Skoðunarmenn reikninga endurskoða ársreikning félagsins og leggja fram álit sitt á fjárhag og bókhaldi.

Þetta er mikilvægt eftirlitshlutverk sem tryggir gagnsæi og áreiðanleika í fjármálum flokksins.

Tilvísun: Lög Pírata, grein 4.11 og 13.5 – „Kjósa skal tvo skoðunarmenn reikninga sem endurskoða reikninga félagsins og gera álit.“

Kjörstjórn (2 fulltrúar og 3 varafulltrúar)

Einn fulltrúi var valinn í kjörstjórn á aðalfundi, en enn er opið fyrir val á tveimur fulltrúum og þremur varafulltrúum.

Kjörstjórn ber ábyrgð á framkvæmd prófkjara og kosninga í stjórnir, nefndir og ráð, ásamt öðrum hlutverkum sem henni er falið með lögum.

Úrskurðarnefnd (2 varafulltrúar)

Þrír fulltrúar voru valdir í úrskurðarnefnd á aðalfundi, en enn er opið fyrir val á tveimur varafulltrúum

Úrskurðarnefnd fjallar um ágreining innan flokksins, túlkun laga og brot á þeim.

Hún vinnur sjálfstætt og hlutlægt, tryggir jafnræði og rétta málsmeðferð.

Tilvísun: Lög Pírata, kafli 8.1–8.7 – „Úrskurðarnefnd úrskurðar í ágreiningsmálum um framkvæmd og brot á lögum félagsins.“

Framboð og nánari upplýsingar

Framboðsfrestur í öll embætti er til klukkan 16:30, 30. október 2025, nema þar sem annað kemur fram í lögum félagsins. Öll framboð skal senda til kjörstjórnar fyrir þann tíma.

📧 kjorstjorn@piratar.is

Næste
Næste

Aðalfundur Pírata og Pírata í Reykjavík 2025