Stefnuræða Andrésar Inga (155.löggjafarþing)

Fyrir nokkrum árum rakst ég á tíst frá konu sem komst að því í jólaboði að amma hennar hefði verið á þingi rúmum 30 árum áður. Ekki nóg með það heldur kom í ljós að amman var svo mikill töffari að hún var fyrsta manneskjan til að leggja fram tillögu á Alþingi um afnám mismununar gegn samkynhneigðum. Tillaga náði ekki fram að ganga, en haustið 1985 þegar Kristín S. Kvaran úr Bandalagi jafnaðarmanna lagði hana fram sáði hún fræi sem Kvennalistakonan Ingibjörg Sólrún Gísladóttir náði síðan að spíra og Alþingi samþykkti tillöguna sex árum síðar.

Ljósmynd: Eyþór Árnason

Þessi saga finnst mér sýna þrennt. Í fyrsta lagi minnir hún okkur á hversu ótrúlega margt í okkar góða samfélagi má þakka skapandi stjórnmálaöflum sem hafa orðið til utan fjórflokksins. Bandalag jafnaðarmanna og Kvennalistinn eiga mikið í því hversu vel okkur gengur að lifa í samfélaginu okkar. Ég gekk til liðs við Pírata í von um að gera samfélagið betra með því að vera hluti af hópi sem notar pólitíska nýsköpun með sama hætti. Í öðru lagi er einhver falleg hógværð í því að barnabarn fyrrverandi þingkonu frétti þetta í jólaboði löngu seinna. Ég held að það sé hollt fyrir okkur að muna, sem gleymum okkur í heilagleika þess að sitja hér á löggjafarþinginu, að við erum samt bara tif í tímans hjóli. Í þriðja lagi er þarna kannski einn besti mælikvarðinn á það hvort við gerum gagn í þinginu. Við ættum öll að geta verið nokkuð sátt við ferilinn ef afkomendur okkar rekast á eitthvað sem við gerðum og segja: Sko ömmu, hún gerði gagn.

Ímyndað barnabarn er þægilegur rammi til að setja utan um þingstörfin þegar við ætlum að gera eitthvað í þágu komandi kynslóða eða ungs fólks. Við köllum þennan hóp sérstöku heiti, nánast eins og þetta sé framandi tegund. Það er hins vegar þannig og við Píratar höfum oft orðið vitni að því þegar við erum að ræða mikilvægi þess t.d. að fá námslánakerfi sem virkar eða takast á við neyðarástand í loftslagsmálum eða koma fólki hér í þingsal í skilning um vonleysið sem ríkir á húsnæðismarkaði, að í öllum þessum grundvallarmálum fara hagsmunir og sjónarmið eldri og yngri kynslóða ekki algerlega saman.

Á undanförnum vikum höfum við síðan verið óþyrmilega minnt á að unga fólkið okkar býr ekki í nógu öruggu samfélagi. Aukið ofbeldi, félagsleg einangrun og versnandi geðheilsa; þetta ástand er afleiðing áralangrar vanrækslu á félagslegum innviðum. Það er pólitísk ákvörðun vegna þess að á lausnirnar hefur oft verið bent. Það þarf að tryggja öruggt húsnæði, gera fólki auðveldara að komast úr heimilisofbeldi, tryggja aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu, uppræta fátækt. Fjölskyldur þurfa tíma saman við aðstæður sem styrkja þær. Sá jarðvegur mun skila verulegum árangri og varanlegum. Neyðarviðbrögð við vanfjármögnuðum grunnstoðum eiga að vera undantekningin en ekki reglan eins og virðist vera ein helsta arfleifð ríkisstjórnarinnar.

En talandi um neyðarástand þá er ekki hægt að sleppa því að nefna húsnæðismarkaðinn. Húsnæðiskrísan snýst ekki bara um það að öruggt húsnæði er sjálfsögð mannréttindi eða að jafnvægi á húsnæðismarkaði er forsenda þess að vinna varanlega á verðbólgunni, vegna þess að verðbólgan hverfur ekki án aðgerða. Nei, með því að tryggja öllum húsnæði þá búum við til öruggara og betra samfélag. Við í Pírötum áttum okkur á því að ríkisstjórnin virðist neita að horfast í augu við þá staðreynd að það er hennar hlutverk að flétta saman alla þá þræði sem þarf til að ráðast strax í skjótvirkar aðgerðir og stórauka langtímaframboð húsnæðis hér á landi.

Það er rétt að nefna aðeins loftslagsmálin, sem þrátt fyrir að vera ein helsta áskorun samtímans rötuðu ekki í stefnuræðu forsætisráðherra. Samt segir í fjárlagafrumvarpinu að ríkisstjórnin setji umhverfis- og loftslagsmálin á oddinn en baráttan gegn loftslagsbreytingum birtist samt ekkert í tölunum, hvorki í fjárlagafrumvarpinu né annars staðar. Framlög til umhverfis- og orkumála aukast um 2,4 milljarða í fjárlagafrumvarpinu. Þar ber hæst 1,1 milljarðs framlag vegna losunarheimilda sem ráðstafað verður til flugfélaga. Aðalaukningin í málaflokknum er sem sagt niðurgreiðsla á mengandi starfsemi.

Svo verð ég að segja, vegna þess að formaður Vinstri grænna vildi hér áðan brýna allt samfélagið til aðgerða í loftslagsmálum: Góði, líttu þér nær! Í vor var samþykkt fjármálaáætlun þar sem framlög til loftslagsmála eiga að dragast saman á hverju einasta ári. Aðgerðaáætlun var uppfærð í sumar og mætir ekki áskoruninni. Fjárlagafrumvarpið sem við höfum í höndunum gerir það ekki heldur. Ríkisstjórnin er ekki að skila neinum árangri í þessum lykilmálaflokki. Við síðustu kosningar var svo ótal margt óunnið í loftslagsmálum. Við næstu kosningar verður áskorunin meiri vegna þess að ríkisstjórnin er búin að setja fjögur ár í súginn. En eins og spunadeild fjármálaráðherra segir: Þetta er allt að koma. Við erum alveg að fara að losna við þessa vanstilltu ríkisstjórn sem allt of lengi hefur komist upp með að færa í stílinn gagnvart því sem vel gengur og kenna öðrum um eigin afglöp.

Andrés Ingi Jónsson

Þingmaður Pírata frá 2021

Forrige
Forrige

Stefnuræða Halldóru Mogensen (155.löggjafarþing)

Næste
Næste

Ríkisstjórn ríka fólksins