Stefnuræða Halldóru Mogensen (155.löggjafarþing)

Við sem samfélag stöndum á krossgötum. Hvert áfallið á fætur öðru hefur dunið á okkur og stundum mætti halda að hörmungunum ætli aldrei að linna. Við vorum rétt skriðin upp úr heimsfaraldri með fordæmalausri félagslegri einangrun þegar að Reykjanesskaginn tók sig svo til stuttu síðar og hrakti þúsundir Grindvíkinga á flótta í eigin landi. Á sama tíma réðst Rússland inn í Úkraínu og daglega berast okkur fréttir af þjóðarmorði á palestínsku þjóðinni á meðan heimsbyggðin situr hjá. 

Þó að gríðarleg verðbólga og himinháir vextir hér heima séu kannski lítilsháttar óþægindi í þessu samhengi, hefur þessi staða ýtt undir þegar mjög alvarlega húsnæðiskrísu og skapað mikla erfiðleika í lífum fólks sem þegar átti á brattann að sækja.

Ljósmynd: Alþingi

Fyrir stuttu réðst 16 ára barn á annað barn og varð henni að bana. Það verður að koma í veg fyrir að þessi harmleikur endurtaki sig. Ofbeldi verður ekki til í tómarúmi. Samfélagslegir innviðir eiga að vinna gegn ofbeldi með því að styðja betur við fjölskyldur og börn og meðhöndla áföll foreldra og barna snemma. En öll kerfi hins opinbera sem eiga að grípa fólk sem þarf á aðstoð að halda þau hanga á bláþræði. Og skaðinn sem hlýst af því að hunsa mikilvægi þeirrar grunnþjónustu sem hlúir að andlegu og líkamlegu heilbrigði okkar er oftast óafturkræfur. Þessi grunnþjónusta á að grípa okkur þegar við eigum í erfiðleikum og ýta undir getu og vilja okkar til að taka þátt í og bera hlýhug til samfélagsins. Virðing okkar fyrir samfélaginu hún nær nefnilega ekki lengra en virðingin sem samfélagið sýnir okkur. Við lærum það sem fyrir okkur er haft.

Á þessum krísutímum þegar okkur hefur sárvantað sterka sameinaða ríkisstjórn höfum við þurft að díla við sundraða ríkisstjórn, í raun þrjár ríkisstjórnir með þrjár ólíkar stefnur, sem ná ekki saman – ekki einu sinni í smærri málum.  Og Í kjölfarið gerist lítið í þeim mikilvægu málum sem vinna þarf hér á þinginu og traust almennings til lýðræðisins fer skiljanlega dvínandi.


Vantraust á lýðræðislegum ferlum og stofnunum samfélagsins sundrar okkur og ýtir undir ótta og tortryggni. Þetta nýta sér óprúttnir stjórnmálamenn sem kynda undir fordóma, gefa í skyn að örlítið af fólki sem er á flótta undan stríði beri ábyrgð á vandamálum á borð við húsnæðisskort og vanda í heilbrigðiskerfinu. En það er óásættanlegt að kenna minnihlutahópum um vandamál sem stjórnvöld hafa í hendi sér að leysa. 

Þessi ríkisstjórn hefur aldrei verið tilbúin til þess að skoða rót vandans, hugmyndafræðina sem litar þeirra eigin pólitík og samfélagsgerðina okkar alla. Undanfarna áratugi hefur einstaklingshyggjan í bland við hugmyndir um verðleikasamfélag eða það sem kallast “meritocracy” á ensku, ráðið hér ríkjum. Sú hugmynd að þeir sem hafi mestu og bestu verðleikana fái að njóta afraksturs vinnu sinnar hljómar réttlátt og fallegt, en veruleikinn er annar. Því niðurstaðan er sú að samfélagið okkar lofsyngur þá árangursríku en niðurlægir fólk sem nær ekki árangri.

Þessi hugsunarháttur flokkar fólk í sigurvegara og tapara sem eiga örlög sín skilið algjörlega óháð ytri aðstæðum. Þarna höfum við fundið hina raunverulegu skautun í samfélaginu.

Og þegar við búum til sigurvegara sem eiga völd sín og auð skilið og tapara sem verðskulda fáttækt og útilokun þá lítum við algjörlega framhjá þeirri úreltu hagstefnu sem hefur afdrifarík áhrif á getu fólks til að sigra. Þannig vekjum við upp reiði, máttleysi og rof á tengslum og samkennd í samfélaginu. Skautun af þessu tagi er drifkrafturinn í þeirri bylgju popúlisma sem við höfum séð rísa í hinu pólitíska landslagi víða um heim síðasta áratug.
 
Við stöndum á krossgötum sem samfélag vegna þess að við þurfum að taka ákvörðun um hvaða leið við veljum: áframhaldandi einstaklingshyggju og tengslarof eða mennskuna. 

Markaðsdrifin samfélög, sérstaklega þau sem drifin eru áfram af hugmyndafræði nýfrjálshyggjunar, hafa forgangsraðað efnahagslegri velgengni og auðsöfnun á kostnað samheldni, samvinnu og samfélagslegrar ábyrgðar. Við sjáum afleiðingarnar alls staðar í samfélaginu. Aukinn ójöfnuður, biðlistar í heilbrigðisþjónustu, geðheilbrigðiskerfi sem berst í bökkum, húsnæðiskrísa, aukið ofbeldi, loftslagskrísa og sundrung.

En við getum breytt um kúrs og valið mennskuna. Við getum stutt við stjórnmál sem forgangsraða samfélagslega velmegun fram yfir þrönga eiginhagsmuni og ryðja úr vegi þeim kerfislægu hindrunum sem halda aftur af tækifærum fólks til menntunar, heilbrigðisþjónustu og atvinnu. Væri ekki spennandi ef næsta ríkisstjórn hefði raunverulegan áhuga á því að búa til rými fyrir fólk til að taka virkan þátt í samfélaginu? Stjórnmál eru meira en hagvöxtur og hagkvæmur rekstur. Stjórnmál verða líka að fjalla á dýpri hátt um áhrif hugmyndafræði á samfélagið okkar og fjalla um réttlæti, sanngjarna skiptingu gæða og almannaheill.


Slíkt samtal þarf einnig að ná til almennings, því öll eigum við að fá tækifæri til að skilgreina samfélagið sem við viljum búa í. Hér leikur ungt fólk lykilhlutverk enda er framtíðarsamfélagið á þeirra ábyrgð. En það gerist ekki af sjálfu sér að ungt fólk taki þátt í samtalinu. Það þarf að undirbúa jarðveginn og skapa rými, áhuga og tækifæri til þátttöku og til þess þarf stjórnmálafólk sem í alvörunni trúir því að þátttaka ungs fólks skiptir sköpum fyrir samfélagið til lengri tíma. Og beitir sér fyrir því að það verði að veruleika.

Kæra þjóð, við getum valið mennskuna. Það er mín einlæga von að þið séuð til í það ferðalag.

Halldóra Mogensen

Þingmaður Pírata síðan 2016

Forrige
Forrige

Menningarkjarni - Betri þjónusta við efri byggðir

Næste
Næste

Stefnuræða Andrésar Inga (155.löggjafarþing)