Menningarkjarni - Betri þjónusta við efri byggðir

Við Píratar viljum tryggja öllum bæjarbúum aðgengi að þjónustu í nærumhverfi sínu. Helst í göngufjarlægð. Hins vegar er það svo að íbúar efri byggða Kópavogs þurfa í dag að sækja menningar- og menntaþjónustu langa leið niður dalinn eða þá til Reykjavíkur. Nálægasta bókasafnið við Vatnsendann er í Breiðholti! Á sama tíma tölum við endalaust í hringi um versnandi læsi og lesskilning barnanna okkar. Besta leiðin til þess að fá börn til að lesa er að tryggja þeim aðgengi að bókum sem þau hafa áhuga á.

Börn í efri byggðum geta sömuleiðis einungis sótt rytmískt tónlistarnámi í nágrenni sínu (í Tónsölum) en þurfa að fara alla leið upp í Hamraborg (í Tónlistarskólann) eða Digranes (í Skólahljómsveitina) til þess að sækja klassískt nám. Það tekur þrjú korter í strætó, aðra leiðina.

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur nú í eitt og hálft kjörtímabil lofað betrumbótum í þessum málum en ekkert hreyfast málin. Meirihlutinn hefur í staðinn ákveðið að eyða tíma kjörinna fulltrúa og embættismanna í að skera niður menningarþjónustu við íbúa og leggja niður menningarstofnanir, með tilheyrandi kostnaði og ónotum fyrir íbúa. Kópavogsbúar eiga betra skilið.

Eiga börnin okkar ekki að geta farið á bókasafnið eða tónlistaræfingu eftir skóla án þess að sitja í strætó í 45 mínútur? Bókasöfnin eru líka samkomustaður fyrir fjölskyldur, sérstaklega um helgar, og vettvangur menningarviðburða.

Nokkrar staðsetningar hafa verið nefndar fyrir nýtt útibú Bókasafnins, svo sem í tilþesshönnuðu húsnæði fyrir ofan Krónuna í Vatnsenda, eða í Kórnum þar sem Kóraskóli er núna. Í Úlfarsárdal stendur hins vegar menningarkjarni sem ég myndi vilja líta til varðandi uppbyggingu þjónustu í efri byggðum. 

Þar er bókasafn, sundlaug, íþróttamiðstöð og skólar. Væri þetta ekki fullkomið fyrirkomulag fyrir Vatnsendann á komandi árum? Í Kópavogi mætti bæta við skólahljómsveit í kjarnann, enda hefur plássum í Skólahljómsveit Kópavogs fækkað um rúmlega 50% m.v. íbúafjölda frá stofnun 1966. Svona fyrir utan fjarlægðina frá efri byggðum.

Þetta þarf að bæta. Þetta viljum við Píratar bæta.

Höfundur er fulltrúi Pírata í Lista- og menningarráði Kópavogs. 

Höfundur er einnig fyrrum starfsmaður Bókasafns Kópavogs og Héraðsskjalasafns Kópavogs, og fyrrum nemi við Tónlistarskóla Kópavogs og Skólahljómsveit Kópavogs.


Árni Pétur Árnason

Formaður Pírata í Kópavogi

Forrige
Forrige

Vilt þú taka þátt í kosningabaráttu Pírata?

Næste
Næste

Stefnuræða Halldóru Mogensen (155.löggjafarþing)