Ríkisstjórn ríka fólksins

Aukinn ójöfnuður í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og VG er hvorki slys né eitthvað sem gerðist ómeðvitað. Aukinn ójöfnuður er afleiðing efnahags- og skattastefnu ríkisstjórnarinnar. Afleiðing efnahagsaðgerða sem hafa margfaldað auð hinna ríku og um leið haldið ríkum Íslendingum í lægra skatthlutfalli en almennt vinnandi fólk þarf að venjast.

Mér varð hugsað til þessarar staðreyndar  þegar ég rak augun í nýjustu ummæli Sigurðar Inga Jóhannssonar, fjármálaráðherra og formann Framsóknar, þar sem hann segir okkur frá þeirri hugmynd hans að DNA Íslendinga innihaldi þol, jafnvel ásókn, fyrir verðbólgu umfram aðrar þjóðir. Ummælin eru merki um uppgjöf ráðherrans gagnvart eigin hlutverki, yfirlýsing um að hann hafi bara ekkert með efnahagsmál að gera. Sigurður Ingi er um leið að gefa þeim ranghugmyndum undir fótinn að almenningur og láglaunafólk beri raunar mesta ábyrgð á erfiðu efnahagsástandi; framfærslukrísu, ójöfnuði, húsnæðiskrísu og verðbólgu langt umfram ríkasta fólk landsins. Hópinn sem hann og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og VG hafa dekstrað við með lágum sköttum og gríðarlegum tilfærslum undanfarin kjörtímabil.

Á Íslandi er aðeins 22% skattur á fjármagnstekjum en lægsta skattþrep launatekna eru 31,48% og fellur á launatekjur upp að 446 þúsund.  Árið 2021 jók ríkasta 0.1% Íslendinga auð sinn um 40 milljarða, sem eru 4.2% allra tekna á Íslandi. Hópurinn telur 244 heimili og tók sama ár til sín 36 milljarða í fjármagnstekjur. Það er fimmtungur allra fjármagnstekna á Íslandi. Ríkasta fólk landsins öðlast stærstan hluta tekna sinna með fjármagnstekjum. Sú stefna að viðhalda lægra skatthlutfall á fjármagnstekjum en launatekjum er ekkert annað en pólitísk hönnun lágskatta fyrir ríka kjósendur.

Árið 2021 gekk ríkisstjórnin svo hart fram í hagsmunagæslu fyrir ríka fólkið að 0,1 prósentið  næstum  tvöfaldaði tekjur sínar á milli ára, og voru tekjur þeirra 54 milljarðar árið 2020 en 94 milljarðar 2021. Leita þarf aftur í árin fyrir bankahrun til að finna jafn hraða auðsöfnun hinna ríkustu á Íslandi. Umrædd hagsmunagæsla fól m.a. í sér margháttaðar styrkt­­ar­greiðslur til fyr­ir­tækja og veit­ingu á vaxta­­lausum lánum í formi frestaðra skatt­greiðslna. Þá afnam Seðla­­banki Íslands hinn svo­­kall­aða sveiflu­­jöfn­un­­ar­auka sem jók útlána­­getu banka lands­ins um mörg hund­ruð millj­­arða króna og stýri­vextir voru lækk­­aðir niður í 0,75 pró­­sent. Þeir höfðu þá aldrei verið lægri. Þessar aðgerðir gerðu það að verkum að mikil til­­­færsla varð á fjár­­munum til fjár­­­magns­eig­enda. Sama hóp og ekki má skattleggja með sama hætti og almennt launafólk. Hjá ríkasta 1% Íslands er þróunin sú sama. Tekjur hópsins fóru úr 161 millj­arði króna árið 2020 í 226 millj­arða króna árið 2021, og juk­ust þar með um 65 millj­arða króna. Alls voru 54 millj­arðar króna af þeirri tölu fjár­magnstekj­ur, sem þýðir að 30 pró­sent allra fjár­magnstekna Íslands lenti hjá rík­asta eina prósentinu. 

Ef fjár­­­magnstekju­skattur yrði hækk­­aður úr 22 í 25 pró­­sent myndi það skila tæp­­lega 5,3 millj­­örðum króna fyrir rík­­is­­sjóð á ári miðað við árið 2021. Af þeirri upp­­hæð myndu þau tíu pró­­sent lands­­manna sem eru með hæstu tekj­­urnar greiða 4,6 millj­­arða króna, eða tæp 87 pró­­sent. Þetta hefur ríkisstjórnin vitað síðan í október 2022 eftir að skrifstofa skattamála í fjár­­­mála- og efna­hags­ráðu­­neyt­inu vann, að beiðni efna­hags- og við­­skipta­­nefndar, minnisblað um tekjuöflun. Þessi breyting hefur að sjálfsögðu ekki komist á dagskrá.

Þessi skattapólitík er skaðleg lífskjörum 99% þjóðarinnar og Piratar ætla sér að umbylta henni hljóti þeir umboð kjósenda til þess í komandi kosningum.


(Birt í Heimildinni 23.ágúst 2024)

Þórhildur Sunna

Þingmaður Pírata síðan 2016

Forrige
Forrige

Stefnuræða Andrésar Inga (155.löggjafarþing)

Næste
Næste

Það er ákvörðun að beita mannvonsku