Mannréttindi sama hvað
Það er auðvelt í heimi þjáninga og endalausra spillingarmála að telja atkvæði í einhverjum kosningum skipta litlu máli. Mun eitt atkvæði til eða frá hafa áhrif á ábyrgðartilfinningu stjórnmálafólks, tryggja mannréttindi eða veita almenningi betra aðgengi að ákvarðanatöku um eigin málefni?
Og enn einn stjórnmálaflokkurinn
Píratahreyfingin varð til vegna þess að hið hefðbundna flokkakerfi virtist illa í stakk búið til þess að tryggja að tiltekin mikilvæg mál kæmust á dagskrá stjórnmálanna. Í upphafi var um að ræða mál sem vörðuðu örar tæknibreytingar sem stjórnmálaumræðan hafði einfaldlega ekki haldið í við, og var því ekki verið að taka á afleiðingum þeirra á upplýsingafrelsi fólks, tjáningarfrelsi og önnur grundvallarréttindi. Með nokkurri einföldun má segja að Píratahreyfingin hafi verið stofnuð af tölvunördum sem fannst skorta skilning á nýrri tækni á meðal stjórnmálamanna. Boðuð var breytt hugsun í stjórnmálum, með áherslu á gagnrýna hugsun og upplýsta ákvarðanatöku, gagnsæi og ábyrgð, ásamt vernd annarra grundvallarréttinda.
Hefðbundnir stjórnmálaflokkar stýrast mikið til af baráttunni um atkvæði kjósenda, sem er eðlilegt upp að ákveðnu marki og mikilvægur þáttur lýðræðisins. Framþróun í tækni og þekkingu er hins vegar oft á tíðum hraðari en þróun samfélagslegrar umræðu og viðhorfa. Þetta getur orðið til þess að popúlísk viðhorf til nýrra vandamála leiði til skyndilausna, sem grafa undan lýðræði og mannréttindum. Til þess að kjósendur í lýðræðisríki geti myndað sér upplýsta skoðun þurfa ákveðnar forsendur að vera fyrir hendi, og því miður eru dæmin fjölmörg í sögunni um það að lýðræðið hafi verið misnotað til þess að níðast á minnihlutahópum í krafti meirihlutans.
Til þess voru mannréttindi sett á blað. Og til þess eru þau í stjórnarskránni sjálfri en ekki einungis í almennum lögum, sem breyta má með einföldum meirihluta. Atkvæðagreiðslur um grundvallarréttindi tiltekinna hópa og jafnvel tilvistarrétt fólks þekkjast víða í samfélögum sem alla jafna kenna sig við lýðræði, oft með skelfilegum afleiðingum fyrir réttindi fólks.
Það er öllum sama um mannréttindi, húsið er að brenna!
Þegar vel árar er sjaldnast mikill ágreiningur um mikilvægi mannréttinda. Það er fyrst og fremst þegar á reynir sem borgaraleg réttindi tapa vinsældum sínum. Stríðsátök, farsóttir og ótryggt efnahagsástand hafa í gegnum alla mannkynssöguna verið frjór jarðvegur fyrir skerðingu réttinda þeirra sem minna mega sín, fordóma, útskúfun og ótta. Við slíkar aðstæður er fólk upp til hópa reiðubúnara að láta af réttindum sínum - og ekki síður réttindum annarra - til þess að tryggja öryggi sitt og sinna allra nánustu gagnvart (oft illa eða alveg óskilgreindri) ógn.
Það er því aldrei mikilvægara að standa vörð um mannréttindi en þegar að þeim er sótt vegna annarra áskorana. En hefðbundnir stjórnmálaflokkar hafa tilhneigingu til þess að missa sjónar á því þegar það eru atkvæðaveiðarnar sem ráða för.
Mannréttindi, sama hvað
Grunnstefna Pírata snýst um að tryggja jafnvægi á milli hinna valdameiri og hinna valdaminni, með skýrum leikreglum og með því að hafa grundvallarréttindi borgaranna alltaf í forgrunni. Alltaf.
Píratar munu aldrei gefa afslátt af mannréttindum í baráttunni fyrir betra samfélagi, og fyrir valdeflingu hinna valdaminni og eðlilegum takmörkunum á valdi þeirra sem það hafa. Það er okkar DNA. Þessi grundvallaratriði munu Píratar ávallt leggja áherslu á í öllum sínum störfum, sama hvernig vindar pólitíkurinnar blása og sama hvert atkvæðin leita.