Ályktun frá Ungum Pírötum
Ungir Píratar hafa sent frá sér eftirfarandi ályktun:
Í ljósi núverandi umræðu í stjórnmálum vilja Ungir Píratar koma því á framfæri að við stöndum ávallt með þeim grunngildum sem Píratar voru stofnaðir á.
Sérstaklega eru mannréttindi okkur þar ávallt efst í huga.
Þess vegna teljum við rétt að segja það skýrt að við höfum miklar áhyggjur af vaxandi útlendingaandúð á Íslandi og orðræðu sem byggist á hörku, rangfærslum og hræðsluáróðri.
Við vitum að lýðræðið þarfnast fjölbreyttrar aðkomu ólíks fólks á jafnréttisgrundvelli. Ólíkt fólk af ólíkum uppruna er ekki ógn við samfélagið, heldur styrkleiki. Þess vegna ítrekum við að við gjöldum mikinn varhug við öllum tillögum um lokuð búsetuúrræði sem stuðla að því að jaðarsetja umsækjendur um alþjóðlega vernd enn frekar og takmarka rétt þeirra til að leita réttar síns og taka þátt í samfélaginu.
Píratar eru og hafa alltaf verið lýðræðishreyfing þar sem ákvarðanir eru teknar í sameiningu, ekki einhliða af einum formanni eða öðrum kjörnum fulltrúum. Við leggjum mikla áherslu á opnar umræður þar sem kostir og gallar ákvarðana eru ræddir. Má nefna sem dæmi að allar stefnur okkar hafa verið mótaðar í hinum ýmsu umræðuhópum og nefndum sem eru svo bornar undir félagsfólk til samþykkis. Þar hefur lýðræði verið haft í fyrirrúmi, árum saman og eru ákvarðanir og stefnur Pírata í stanslausri endurskoðun.
Viljum við einnig taka fram að Píratar hafa og eru alltaf opnir fyrir öll áhugasöm og tökum við á móti öllu fólki með opnum örmum.
Stjórn Ungra Pírata samþykkja einróma ályktun þessa.