Ekki lögreglunnar að koma fólki í hættu
Valgerður Árnadóttir, talskona Hvalavina, segir lögregluna hafa skapað hættulegar aðstæður sem aðgerðasinninn Anahita þarf að búa við á mastri hvalveiðiskips Hvals hf. við Reykjavíkurhöfn.
Aðgerðasinnarnir Anahita og Elissa klifruðu upp masturs Hvals 8 og Hvals 9 snemma í gærmorgun í mótmælaskyni við hvalveiðar. Stuttu síðar lagði lögreglan hald á bakpoka Anahitu sem í voru birgðir hennar, svo sem vatn, matur og lyf.
Stuðningsfólk kvennanna tveggja hefur lýst yfir áhyggjum sínum af heilsu Anahitu sem hefur verið án vatns og nauðsynlegra lyfja síðan klukkan 6 í gærmorgun.
Björgunarsveitarmenn geti farið upp í mastrið
„Nýjasta útskýring lögreglu á því af hverju þær fá ekki aðstoð er að það séu svo hættulegar aðstæður að fara þarna upp í mastrið að þeir vilji ekki senda læknisaðstoð. Hingað til hafa þeir sagt að það sé vegna þess að þær vilji ekki aðstoð. Við erum með myndband af því þar sem þær eru að biðja um aðstoð. Þær vilja bara að aðstoðin berist til þeirra. Þeir [lögreglan] eru að hóta þeim að þær fái ekki aðstoð nema þær fari niður,“ segir Valgerður við blaðamann mbl.is við Reykjavíkurhöfn.
Valgerður gefur ekki mikið fyrir þessa skýringu lögreglu og segir augljóst að björgunarsveitarmenn séu vanir að fara í mun erfiðari aðstæður.
„Björgunarsveitarmenn geta vel farið þarna upp bara til þess að láta þær fá vatn, lyf og það sem þær þurfa.“
Lögreglan skapaði aðstæðurnar
„Lögreglan skapaði þessar aðstæður. Lögreglan tók af henni [Anahitu] það sem er henni lífsnauðsynlegt til þess að lifa af og þá þurfa þeir að láta hana fá það aftur. Það er ekki lögreglunnar að koma fólki í hættu myndi ég halda. Það er þeirra að gæta öryggis fólks og þeir eru ekki að gera það,“ segir Valgerður.
Hún segir að þetta sé tilfellið jafnvel þótt fólk sýni borgaralega óhlýðni enda hafi það mannréttindi.
„Þú hefur þau mannréttindi að fá vatn og lyf sem eru lífsnauðsynleg alveg í sama hvaða aðstæðum þú ert. Það er glæpur að taka af fólki vatn og lyf til þess að þrýsta á það og kúga það til þess að fara eftir sínum vilja,“ segir Valgerður.
Öðruvísi komið framkoma ef Anahita væri hvít
Valgerður sagðist hafa farið að íhuga í morgun hvort að öðruvísi væri komið fram við Anahitu ef hún væri íslensk og hvít á hörund.
„Hún er frá Íran og þar getur hún átt hættu á að vera drepin ef hún sýnir borgaralega óhlýðni. Við héldum að það væri öðruvísi hér á Íslandi. Það væri ekki verið að skapa henni hættu með þessum hætti fyrir það eitt að koma í veg fyrir að murkað sé lífið úr hvölum.“
Viðtal fyrst birt á vef Morgunblaðsins þann 5.september 2023.
Höfundar eru Hólmfríður María Ragnhildardóttir og Anton Guðjónsson