Ekki lögreglunnar að koma fólki í hættu

Val­gerður Árna­dótt­ir, talskona Hvala­vina, seg­ir lög­regl­una hafa skapað hættu­leg­ar aðstæður sem aðgerðasinn­inn Ana­hita þarf að búa við á mastri hval­veiðiskips Hvals hf. við Reykja­vík­ur­höfn.  

Aðgerðasinn­arn­ir Ana­hita og El­issa klifruðu upp mast­urs Hvals 8 og Hvals 9 snemma í gær­morg­un í mót­mæla­skyni við hval­veiðar. Stuttu síðar lagði lög­regl­an hald á bak­poka Ana­hitu sem í voru birgðir henn­ar, svo sem vatn, mat­ur og lyf.

Stuðnings­fólk kvenn­anna tveggja hef­ur lýst yfir áhyggj­um sín­um af heilsu Ana­hitu sem hef­ur verið án vatns og nauðsyn­legra lyfja síðan klukk­an 6 í gær­morg­un. 

Björg­un­ar­sveit­ar­menn geti farið upp í mastrið

„Nýj­asta út­skýr­ing lög­reglu á því af hverju þær fá ekki aðstoð er að það séu svo hættu­leg­ar aðstæður að fara þarna upp í mastrið að þeir vilji ekki senda lækn­isaðstoð. Hingað til hafa þeir sagt að það sé vegna þess að þær vilji ekki aðstoð. Við erum með mynd­band af því þar sem þær eru að biðja um aðstoð. Þær vilja bara að aðstoðin ber­ist til þeirra. Þeir [lög­regl­an] eru að hóta þeim að þær fái ekki aðstoð nema þær fari niður,“ seg­ir Val­gerður við blaðamann mbl.is við Reykja­vík­ur­höfn.

Val­gerður gef­ur ekki mikið fyr­ir þessa skýr­ingu lög­reglu og seg­ir aug­ljóst að björg­un­ar­sveit­ar­menn séu van­ir að fara í mun erfiðari aðstæður.

„Björg­un­ar­sveit­ar­menn geta vel farið þarna upp bara til þess að láta þær fá vatn, lyf og það sem þær þurfa.“

Lög­regl­an skapaði aðstæðurn­ar

„Lög­regl­an skapaði þess­ar aðstæður. Lög­regl­an tók af henni [Ana­hitu] það sem er henni lífs­nauðsyn­legt til þess að lifa af og þá þurfa þeir að láta hana fá það aft­ur. Það er ekki lög­regl­unn­ar að koma fólki í hættu myndi ég halda. Það er þeirra að gæta ör­ygg­is fólks og þeir eru ekki að gera það,“ seg­ir Val­gerður.

Hún seg­ir að þetta sé til­fellið jafn­vel þótt fólk sýni borg­ara­lega óhlýðni enda hafi það mann­rétt­indi.

„Þú hef­ur þau mann­rétt­indi að fá vatn og lyf sem eru lífs­nauðsyn­leg al­veg í sama hvaða aðstæðum þú ert. Það er glæp­ur að taka af fólki vatn og lyf til þess að þrýsta á það og kúga það til þess að fara eft­ir sín­um vilja,“ seg­ir Val­gerður.

Öðru­vísi komið fram­koma ef Ana­hita væri hvít

Val­gerður sagðist hafa farið að íhuga í morg­un hvort að öðru­vísi væri komið fram við Ana­hitu ef hún væri ís­lensk og hvít á hör­und.

„Hún er frá Íran og þar get­ur hún átt hættu á að vera drep­in ef hún sýn­ir borg­ara­lega óhlýðni. Við héld­um að það væri öðru­vísi hér á Íslandi. Það væri ekki verið að skapa henni hættu með þess­um hætti fyr­ir það eitt að koma í veg fyr­ir að murkað sé lífið úr hvöl­um.“

Viðtal fyrst birt á vef Morgunblaðsins þann 5.september 2023.

Höfundar eru Hólmfríður María Ragnhildardóttir og Anton Guðjónsson

Valgerður Árnadóttir

Varaþingmaður Pírata frá 2021

Forrige
Forrige

Ályktun af aðalfundi Pírata árið 2023

Næste
Næste

Orkuskipti og óvinsælar aðgerðir