Kosningafnykur í lofti
Á yfirstandandi þingi hefur ríkisstjórnin samþykkt fjölda stefna og áætlana og fyrir liggur að fleiri eiga eftir að bætast við. Á meðal þessara er fjármálaáætlunin, þar sem ríkisstjórnin verður að sýna í tölum hvernig hún hyggst fjármagna fyrirhugaðar framkvæmdir og stefnur. Ekki er hægt að sjá að það sé til fjármagn fyrir þessu öllu og ríkisstjórnin gæti þurft að endurskoða eða jafnvel yfirgefa nýlega samþykktar áætlanir.
Á þessu þingi er þegar búið að samþykkja tillögur eins og stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024–2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028, stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025, málstefna íslensks táknmáls 2024–2027 og aðgerðaáætlun og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024–2027.
Í nefnd eru samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028, húsnæðisstefna fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028, aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023–2026, landsskipulagsstefna fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028 og stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024–2028.
Að lokum á fjármálaáætlunin sjálf eftir að koma fram og það má í raun kalla frumvarp um þjóðarsjóð eins konar áætlun líka þar sem það þarf að fjármagna sjóðinn einhvern veginn. Það frumvarp bíður 1. umræðu. Til viðbótar við þetta eru það svo kjarasamningarnir, en nýgerðir kjarasamningar þurrkuðu upp það fjármagn sem ríkisstjórnin hafði sett til hliðar í varasjóði fjárlaga sem þýðir að enn á eftir að fjármagna kjarasamninga opinberra starfsmanna. Tvær stefnur voru svo lagðar fyrir ríkisstjórn á síðasta ríkisstjórnarfundi: Tillaga til þingsályktunar um bókmenntastefnu fyrir árin 2024-2030 og tillaga til þingsályktunar um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030.
Ríkissjóður er nú þegar rekinn með halla, og við þennan halla bætast þessar nýju áætlanir og verkefni. Auk þess eru þekktar áskoranir í nær öllum málaflokkum, svo sem í löggæslu-, fangelsis-, landhelgis-, náttúruhamfara-, heilbrigðis-, mennta-, útlendinga-, orku-, hjúkrunar-, húsnæðis-, landbúnaðar- og umhverfismálum. Einnig er vaxtabyrði ríkisins í hæstu hæðum. Þessar aðstæður sýna fram á að ríkisstjórnin stendur frammi fyrir flóknum og umfangsmiklum áskorunum í fjármögnun og stefnumótun.
Núna er tíminn til þess að forgangsraða í ríkisfjármálum. Í staðinn dælir ríkisstjórnin inn alls konar stefnum sem hún veit að hún getur ekki fjármagnað. Þetta eru óábyrg vinnubrögð sem búa til væntingar hjá fólki sem mun ekki vera hægt að standa við. Með öðrum orðum, það er kosningafnykur af þessum vinnubrögðum.