Píratar í Kópavogi álykta um lýðræðisvitund og málefni innflytjenda

Aðalfundur Pírata í Kópavogi fór fram á Bryggjunni Brugghúsi síðastliðinn laugardag. Hefðbundin aðalfundarstörf voru á dagskrá en þau nýmæli voru að aðalfundurinn var haldinn samhliða aðalfundum Pírata í Reykjavík og Ungra Pírata. Aldrei hafa fleiri Kópavogsbúar sótt aðalfund félagsins og miklar umræður fóru fram á fundinum. Af umræðuefnum má helst nefna Reit 13, innflytjendamál og ófagleg vinnubrögð meirihlutans í bæjarstjórn. Einnig var samþykkt að stofna sameiginlegan starfshóp Pírata í Kópavogi, Pírata í Reykjavík, Ungra Pírata og aðalfélags Pírata um samræmingu á framsetningu laga félagsins. 

Á aðalfundinum var samþykkt eftirfarandi ályktun: 

“Aðalfundur Pírata í Kópavogi ályktar að bæjaryfirvöld Kópavogsbæjar hafi ekki gert nóg í málefnum innflytjenda. Þar ber hæst að ekki hefur enn verið komið á fót fjölmenningarráði í samræmi við önnur sveitarfélög, þvert á fögur loforð meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Enn fremur hafa hugmyndir um aðgerðaáætlun um aukna kosningaþátttöku og bætta lýðræðisvitund innflytjenda mátt mæta daufum eyrum meirihlutans. Aðalfundur Pírata í Kópavogi hvetur því Kópavogsbæ til betri verka í málefnum innflytjenda.”

Ný stjórn kjörin

Á fundinum var ný stjórn Pírata í Kópavogi kjörin en aldrei hafa fleiri framboð borist til stjórnar, alls átta talsins. Nýr formaður var kjörinn Árni Pétur Árnason. Hann tekur við embættinu af Matthíasi Hjartarsyni sem tók við embætti gjaldkera félagsins. Nýr varaformaður félagsins er Eva Sjöfn Helgadóttir og ritari Elín Kona Eddudóttir. Indriði Ingi Stefánsson var einnig kjörinn í stjórn.

Ný stjórn Pírata í Kópavogi

Árni Pétur Árnason, sagnfræðinemi

Indriði Ingi Stefánsson, tölvunarfræðingur

Eva Sjöfn Helgadóttir, sálfræðingur

Matthías Hjartarson, verkfræðingur

Elín Kona Eddudóttir, skáld

Varamenn

Margrét Ásta Arnarsdóttir, stuðningsfulltrúi

Kjartan Sveinn Guðmundsson, lögfræðinemi

Þorgeir Lárus Árnason, afgreiðslumaður

Um Árna

Árni Pétur Árnason, nýr formaður félagsins, er 21 árs gamall sagnfræðinemi við Háskóla Íslands. Hann er uppalinn Kópavogsbúi og gekk í Smáraskóla allan sinn grunnskólaferill. Samhliða grunnskólanum stundaði hann ýmsar íþróttir í Breiðablik og HK en fann sig í básúnunámi í Tónlistarskóla Kópavogs og síðar Skólahljómsveit Kópavogs og Menntaskólanum í tónlist. Árni hefur leikið með ýmsum hljómsveitum innanlands og utan, svo sem Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Stórsveit FÍH og Humboldts Studentische Philharmonie í Berlín. Þessa stundina spilar hann með Lúðrasveit Verkalýðsins. Meðfram sagnfræðináminu vinnur hann á Bókasafni Kópavogs og er aðstoðarkennari í latínu, grísku og sagnfræði við Háskóla Íslands. Áður hefur hann unnið á Héraðsskjalasafni Kópavogs, við rannsóknir á sviði sagnfræði og sem sjálfstætt starfandi latínu- og málfræðikennari. Árni situr jafnframt í stefnu- og málefnanefnd Pírata og er formaður áðurnefnds starfshóps um samræmingu framsetningar laga Pírata.

Árni Pétur Árnason

Formaður Pírata í Kópavogi

Forrige
Forrige

Styttum skulda­hala stúdenta

Næste
Næste

Ályktun af aðalfundi Pírata árið 2023