71 þúsund aukalega á mánuði fyrir ellilífeyrisþega

Nýlega fékk velferðarnefnd Alþingis lögfræðiálit frá skrifstofu Alþingis um skerðingar á ellilífeyri almannatrygginga vegna lífeyrisgreiðslna. Í stuttu máli var niðurstaðan sú að núverandi löggjöf er óskýr um að það megi skerða greiðslur úr lífeyrissjóðum sem almennar tekjur en ekki sem atvinnutekjur.

Hvað þýðir þetta? Í lögum er kveðið á um tvenns konar frítekjumark. Annars vegar almennt frítekjumark upp á 25 þúsund krónur á mánuði og hins vegar sérstakt frítekjumark atvinnutekna upp á 200 þúsund krónur á mánuði. Það þýðir að skerðingar almannatryggingarlaga byrja ekki að reiknast fyrr en eftir 225 þúsund krónur á mánuði, eftir því hvernig tekjur fólk er með. Ef við tökum einfalt dæmi um einstæðan einstakling með 225 þúsund í lífeyrissjóðsgreiðslur ofan á fullan lífeyri, þá er viðkomandi að fá 422.698 kr. á mánuði. Ef viðkomandi fær hins vegar sömu upphæð í atvinnutekjur, þá þýðir það 493.630 kr. á mánuði í vasann samkvæmt reiknivél TR. Þarna munar um 71 þúsund krónum á mánuði ef lífeyrissjóðsgreiðslur væru flokkaðar sem atvinnutekjur og féllu undir sérstaka frítekjumarkið.

En um það snýst málið. Ég er búinn að vera að eltast við þetta mál síðan rétt fyrir kosningar 2021, en hvergi hefur fengist viðurkenning á þessum galla í framkvæmd almannatryggingarlaga og loksins núna kemur lögfræðiálit sem segir þetta skýrt: “Því er nærtækt að draga þá ályktun á grundvelli orðskýringar að til atvinnutekna teljist greiðslur sem byggjast á því iðgjaldi sem einstaklingur hefur greitt í lífeyrissjóð”.

Afleiðingarnar af þessu geta verið þær að alveg síðan lögin sem voru sett í lok 2016 kjörtímabilsins tóku gildi, að búið sé að hafa af ellilífeyrisþegum umtalsverðar fjárhæðir sem fólk átti rétt á samkvæmt lagabókstafnum. Vandamálið er að ætlunin var að setja lögin þannig að lífeyrissjóðsgreiðslur teldust ekki atvinnutekjur gagnvart sérstaka frítekjumarkinu, en eins og bent hefur verið á virðist sú framkvæmd laganna ekki standast bókstafinn. Hér er nærtækt að benda á annað álíka dæmi þar sem ríkið var dæmt brotlegt við framkvæmd sömu laga út af sambærilegum galla. En þar var ríkið dæmt til þess að greiða 5 milljaraða vegna ólöglegra skerðinga á ellilífeyri vegna mistaka í lagasetningu.

Það sem er kaldhæðnislegt er að þessi galli kemur úr sömu lagasetningu, og þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar hefur kerfið þvermóðskast og neitað að viðurkenna gallann, þangað til núna.

Hvað gerist í framhaldinu? Velferðarnefnd mun líklega leggja til einhvers konar breytingar, en skaðinn er skeður. Það þarf líklega enn eitt dómsmál til þess að meta rétt fólks vegna þeirra ólöglegu skerðinga sem nú eru í gildi. Það gæti þýtt 71 þúsund krónur aukalega á mánuði, einhver ár aftur í tímann.

Björn Leví Gunnarsson

Þingmaður Pírata frá 2016

https://bjornlevi.is
Forrige
Forrige

Einföld og afgerandi skref í þágu líffræðilegrar fjölbreytni

Næste
Næste

Afhverju bara hálft skref áfram?