Heiðarlegri stjórnmál á nýju ári

Við lok þessa árs eru ofarlega í huga flestra landsmanna eflaust þær miklu náttúruhamfarir sem dunið hafa yfir á Reykjanesskaga og þær skelfilegu aðstæður sem Grindvíkingar búa við í kjölfar þeirra. Þó svo að gosið nú á aðventunni hafi verið stutt og áfallalaust, þá er það einungis byrjunin á umbrotum sem við munum þurfa að takast á við næstu árin og áratugina. Hafandi  tekið þátt í viðbrögðum við náttúruhamförum víða um heim síðastliðin 30 ár, þá var það gefandi að leggja hönd á plóginn sem sjálfboðaliði samhliða þingstörfum nú í nóvember.

Samstaða á neyðartímum

Það var einnig ánægjulegt að sjá hvernig þingið allt stóð saman þegar kom að stuðningi við Grindvíkinga á þessum neyðartímum. Þar voru stríðsaxir grafnar og samstaða náð um fljóta, en þó vandaða afgreiðslu á málum sem snertu jarðhræringarnar á Reykjanesskaganum. Þetta kom hvergi annars staðar jafn vel fram og í atkvæðagreiðslum á síðustu dögum þingsins, atkvæði voru greidd um mörg umdeild málefni en ávallt þegar Grindavík var nefnd þá var atkvæðataflan einungis lituð grænum lit.

Það væri óskandi að slíkt samstarf og samstaða kæmi oftar fram á Alþingi, því Reykjaneseldar eru ekki eina krísan sem íslenskt samfélag þarf að takast á við. Allt þetta ár höfum við Íslendingar þurft að búa við háa verðbólgu og vexti, ástand sem hefur komið hvað verst niður á ungu fólki, öryrkjum og eldri borgurum. Þar hefur ríkisstjórnin ekki viljað sýna neinn samstarfsvilja þrátt fyrir ítrekaðar kröfur um aðgerðir, bæði innan þings og utan. Í nýsamþykktum fjárlögum fyrir komandi ár var stuðningur við þessa útsettu hópa meira að segja skorinn niður, sennilega til þess að ríkisstjórnin geti í komandi kjarasamningalotu komið fram sem bjargvættur með því að bæta aftur upp það sem skorið var niður nú fyrir þingfrestun. 

Á árinu hefur ríkisstjórnin gengið í gegnum sinn skerf af krísum, oftast sjálfskapaðar vegna eigin mistaka, frændhygli eða hagsmunagæslu. Enn eigum við eftir að sjá þau axla ábyrgð á þessum gjörðum sínum, en eitt er víst að við Píratar munum halda áfram að snúa við hverjum steini þar til við búum við bætt siðferði í íslenskum stjórnmálum. Það hefur heldur ekki farið framhjá neinum að innbyrðis átök innan ríkisstjórnarflokkana hafa verið okkur Íslendingum dýrkeypt, því aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í flestum málaflokkum er algert.

Hrossakaup á milli stjórnarflokkana orsaka það að umdeild frumvörp fá afgreiðslu í gegnum þingið nær óbreytt þrátt fyrir ítrekaðar gagnrýnisraddir þeirra sem málin snerta. Eitt besta dæmið um slíkt voru þær breytingar sem Sjálfstæðismenn þrýstu í gegn á útlendingalögum á vormánuðum. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar okkar Pírata um að ákvæði í þessu frumvarpi brytu gegn ákvæðum stjórnarskrár og ýmsum alþjóðlegum mannréttindasamningum sem Ísland er aðili að og ákall um að fá óháðan aðila til að taka slíkt út, þá mátti ekkert slíkt skoða því það myndi tefja afgreiðslu máls sem þegar var búið að semja um innan ríkisstjórnarinnar.

Það kom svo í ljós á haustmánuðum að viðvaranir okkar um að tugir hælisleitenda myndu enda á götunni yrði þetta frumvarp að lögum áttu fullkomlega við rök að styðjast. Það var einungis fyrir tilstilli stórs hóps mannúðarsamtaka að það tókst að bjarga lífi þessa fólks. Það hefði betur borgað sig að hlusta á umsagnir þessara mannúðarsamtaka í þinglegri meðferð málsins.

Það eru að sjálfsögðu ávallt mál sem koma inn í þingið sem eru umdeild, en það að þrýsta slíkum málum í gegn án þess að hlusta á bæði umsagnir hagaðila og þær ábendingar sem fram koma frá stjórnarandstöðunni er uppskrift að vandamálum sem takast þarf á við þegar slík frumvörp eru orðin að lögum. Við alþingismenn þurfum að læra að hlusta betur á hvort annað og taka tillit til ábendinga bæði frá umsagnaraðilum og andstæðingum okkar í pólitík um hvað megi betur fara. 

Við alþingismenn höfum sýnt það á undanförnum árum að við getum náð slíkri samstöðu ef viljinn er fyrir hendi. Við höfum nær ávallt staðið saman sem eitt þing þegar kemur að málefnum Úkraínu. Við höfum sýnt það að við getum náð saman, jafnvel um jafn umdeilt mál eins og ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs. Við höfum svo sannarlega sýnt það þegar kemur að því að styðja við bakið á Grindvíkingum.

Breyttir tímar kalla á ný stjórnmál og betri vinnubrögð

Við þurfum að beisla þann samstarfsvilja sem þar fékk að blómstra og nýta hann í að tækla þau fjölmörgu og flóknu mál sem við stöndum frammi fyrir. Við lifum á tímum mikilla breytinga þar sem við þurfum að takast á við sífellt fjölbreyttari og erfiðari krísur. Það loftslag sem við og forfeður okkar hafa upplifað er að ganga í gegnum örar breytingar sem ógna framtíð barna okkar. Tæknibyltingar eru að gjörbreyta menntun og vinnumarkaði. Aukið nám- og atvinnufrelsi milli landa hefur leitt til þess að við búum í fjölmenningarsamfélagi þar sem fjórðungur þjóðarinnar er af erlendu bergi brotinn. Meira ferðafrelsi og ódýrari flugsamgöngur gera það einnig að verkum að hingað til lands koma fjórfalt fleiri ferðamenn en íbúar þessa lands. 

Á sama tíma byggja flestir af þeim flokkum sem sitja á Alþingi stefnur sínar á því að halda í við hina gömlu tíma og það samfélag sem var hér á síðustu öld. Skiptir þar engu hvort flokkarnir eru til hægri, vinstri, eða í miðju hins pólitíska litrófs því þegar kemur að breytingum þá flokkast þeir sem íhaldsflokkar. Þetta sést í þeim þingmálum sem lögð eru fram, því flest ganga þau út á að halda í horfinu, frekar en að tækla breytta heimsmynd. Þetta sést líka í aðgerðar- og skilningsleysi þegar kemur að þeim flóknu viðfangsefnum sem við ættum að vera takast á við, eins og öllu því sem snýr að loftslagsvánni.

Þessir flokkar ala á hræðslunni við hvers konar breytingar og allt það sem er öðruvísi í stað þess að tala fyrir samúð og auknum skilningi á hinu óþekkta. Þetta sést einna helst þegar kemur að málefnum útlendinga en þar eru öll vopn notuð til þess að hræða fólk sem mest. Þau tala um að menning okkar og tungumál mun hverfa ef við leyfum framandi fólki að setjast hér að. Á sama tíma er því fólki sem hingað kemur gert mjög erfitt fyrir að læra íslensku, nema með ærnum tilkostnaði. Námskeið um íslenska menningu, haldin á tungumálum fólksins, eru heldur ekki í boði. 

Við Píratar áttum okkur á því að aðferðafræði síðustu aldar virkar einfaldlega ekki þegar kemur að því að takast á við hið ört breytilega samfélag sem við búum við í dag. Stjórnmál síðustu aldar eiga ekki lengur við, heldur er þörf á flokkum og stjórnmálafólki sem er tilbúið að takast á við breyttan heim og tryggja það að við siglum á sem öruggastan hátt í gegnum þann ólgusjó breytinga sem er framundan. Við í Pírötum höfum því lagt fram mál sem fjárfesta í fólki og umhverfi til framtíðar á sama tíma og við tryggjum að öryggi og frelsi íbúa þessa lands er ekki fórnað á altari öra breytinga. 

Það er von okkar Pírata að nýtt ár beri í skauti sér heiðarlegri stjórnmál, aukið samstarf þvert á flokka á Alþingi, aukna framtíðarsýn og síðast en ekki síst aukna mannúð um alla heim. Gleðilegt nýtt ár!  

Gísli Rafn Ólafsson

Þingmaður Pírata frá árinu 2021

Forrige
Forrige

Öfug­snúin um­ræða í orku­málum

Næste
Næste

Félagsgjöld 2023