Stefna Pírata í málefnum eldra fólks
Aldursvæna Ísland
Píratar vilja stuðla að tækifærum eldra fólks til að lifa sjálfstæðu lífi með reisn, tryggja þeirra mannhelgi, afkomu og styrkja tækifæri til sjálfshjálpar. Við viljum koma fram við eldra fólk eins og um fullorðið fólk sé að ræða, það fái að ráða eigin lífi en sé ekki fast í boðum, bönnum og skerðingum. Píratar vilja skapa sanngjarnt og hvetjandi lífeyriskerfi með fullnægjandi grunnframfærslu, efla heilbrigðis- og velferðarþjónustu við eldra fólk, auka heimaþjónustu og heimahjúkrun og gera fólki kleift að búa heima eins lengi og unnt er. Sömuleiðis er brýnt að fjölga hjúkrunarrýmum í takt við þörf og fjölga lífsgæðakjörnum og hentugu húsnæði fyrir eldra fólk í blandaðri byggð með kynslóðablöndun að leiðarljósi. Meginstef Pírata í málefnum eldra fólks eru sjálfstæði, velsæld, öryggi, samráð og virðing.
Píratar ætla að
Tryggja að ellilífeyrir fylgi launaþróun og tryggja valfrjálsa frestun töku hans.
Sjá til þess að lífeyrissjóðsgreiðslur og atvinnutekjur skerði ekki lögbundinn ellilífeyri.
Styðja við kynslóðablöndun.
Efla heimahjúkrun og heimaþjónustu svo fólk geti búið heima sem lengst.
Fjölga fjölbreyttum búsetuúrræðum, styðja við lífsgæðakjarna og fjölga hjúkrunarplássum.
Tryggja að mannhelgi og mannréttindi eldra fólks með mikla þjónustuþörf séu í hávegum höfð.
Tryggja samráð við eldra fólk.
Leita fjölbreyttra leiða til að rjúfa einangrun og vinna gegn einmanaleika eldra fólks.
Ellilífeyrir fylgi launaþróun
Útrýmum fátækt eldra fólks sem reiðir sig einvörðungu á lögbundinn ellilífeyri. Það er einungis tryggt með því að lögbundinn ellilífeyrir og frítekjumark fylgi almennri launaþróun, þó þannig að breytingar á ellilífeyri verði aldrei lakari en breytingar á lágmarkslaunum. Lífeyrir á að duga fyrir framfærslu allra sem hann þiggja. Að óháðir sérfræðingar verði fengnir til að reikna út kjaragliðnun ellilífeyris undanfarinna ára og hún unnin upp með reglubundnum hækkunum á kjörtímabilinu.
Sveigjanleiki við töku ellilífeyris
Píratar standa vörð um rétt eldra fólks til að hætta að vinna við 67 ára aldur en á sama tíma hafi valfrelsi til að vinna lengur og fresta töku ellilífeyris án þess að hann skerðist. Starfslok eiga að vera á forsendum fólks og færni, ekki aldurs.
Lífeyrissjóðsgreiðslur og atvinnutekjur skerði ekki lögbundinn ellilífeyri
Við viljum lögfesta lágmarksframfærsluviðmið fyrir alla íbúa landsins, hækka frítekjumark ellilífeyris í lágmarksframfærslu og afnema skerðingar. Brýnast er að afnema skerðingar vegna atvinnutekna.
Efling þjónustu í nærsamfélaginu
Píratar ætla að gera bragarbót á húsnæðismálum eldra fólks. Heimili fólks á að vera griðastaður. Búseta þarf því að endurspegla þarfir og áhuga fólks svo það geti varið efri árum í samræmi við eigin vilja og getu. Byrja þarf á því að tryggja húsnæði og þjónustu við hæfi í heimabyggð fólks og gera hjónum kleift að búa áfram á sama stað, óháð þjónustuþörf. Píratar vilja byggja upp lífsgæðakjarna í blandaðri byggð, stuðla að kynslóðablöndun og skapa kjarnasamfélög (co-housing) fyrir eldra fólk til að rjúfa einangrun og vinna gegn einmanaleika.
Millistig milli heimilis og hjúkrunarheimilis
Nauðsynlegt er að fjölga úrræðum á milli búsetu á eigin heimili og hjúkrunarheimila. Má þar nefna heimahjúkrun og heimaþjónustu, þjónustuíbúðir, dagvistunarúrræði og aukinn og fjölbreyttari stuðning í daglegu lífi. Einnig er nauðsynlegt að stórauka uppbyggingu hjúkrunarheimila í samræmi við hækkandi meðalaldur þjóðar.
Fjölbreytt úrræði og samráð við eldra fólk
Stórauka þarf endurhæfingarmöguleika fyrir aldraða sem aftur eykur sjálfstæði og valdeflingu þeirra. Mikill skortur er á úrræðum til endurhæfingar eftir veikindi/slys sem aftur leiðir til óþarflega langra innlagna á sjúkrahús með tilheyrandi álagi á heilbrigðiskerfið.