Mannúðleg utanríkisstefna

Just be nice plakat yfir fallegu graffíti

Meiri mannúð,

Íslenskt samfélag á frelsi sitt og frið undir því að alþjóðalög séu virt. Brot á mannúðarlögum eiga ekki að viðgangast. Píratar vilja að Ísland sé öflug rödd á alþjóðavettvangi þegar kemur að mannúð, mannréttindum og alþjóðalögum. Píratar leggja áherslu á að Ísland sýni í verki að brot á alþjóðalögum og mannréttindum hafi afleiðingar og að landið styðji við fjölskyldusameiningar og móttöku kvótaflóttamanna frá stríðssvæðum. Píratar vilja að Ísland beiti sér fyrir friði í átökum. Píratar telja mikilvægt að taka upplýsta ákvörðun um aðild að Evrópusambandinu og að öflug utanríkisþjónusta tryggi virka hagsmunagæslu og borgaraþjónustu. Píratar vilja stórauka framlög Íslands til þróunarsamvinnu til að stuðla að réttlátari og sjálfbærari heimi.

Píratar ætla að

Gera Ísland að öflugri rödd á alþjóðavettvangi þegar kemur að friði, mannúð, mannréttindum og alþjóðalögum.

  • Tryggja að Ísland sýni í verki að brot á alþjóðalögum og mannréttindum hafi afleiðingar.

  • Hafa forystu um að Ísland styðji við fjölskyldusameiningar og móttöku kvótaflóttamanna frá átakasvæðum.

  • Sjá til þess að Ísland beiti sér fyrir friði og gegn þjóðarmorði.

  • Sjá til þess að Ísland fordæmi þjóðarmorðin í Úkraínu og Palestínu opinberlega.

  • Leggja til að þjóðin taki upplýsta ákvörðun um áframhald aðildaviðræðna við Evrópusambandið.

  • Vinna að því að íslensk utanríkisþjónusta tryggi öfluga hagsmunagæslu og borgaraþjónustu.

  • Stórauka framlög Íslands til þróunarsamvinnu.

Maður mótmælir fyrir framan löggur með grímur og hjálma
Maður með gjallarhorn að mótmæla

Ísland sé öflug rödd á alþjóðavettvangi þegar kemur að mannúð, mannréttindum og alþjóðalögum

Mikilvægt er að Ísland taki virkan þátt á alþjóðavettvangi og eigi frumkvæði að því að berjast fyrir friði, mannúð, mannréttindum, stöðu hinsegin og kynsegin einstaklinga og að alþjóðalögum sé fylgt. Ísland á aldrei að sitja hjá þegar þjóðarmorð eiga sér stað, eins og nú standa yfir í Palestínu. Þrátt fyrir smæð sína hefur Ísland sýnt að það getur verið öflug rödd í alþjóðasamfélaginu, rödd sem þorir að benda á óréttlæti og standa með þeim sem minna mega sín. Með því að standa fast á grunngildum sínum og tala skýrt gegn mannréttindabrotum, óháð stærð annarra ríkja, getur Ísland haft raunveruleg áhrif á alþjóðlegum vettvangi. Með því að nýta sér stöðu sína sem óháð og friðsöm þjóð getur Ísland hvatt aðrar þjóðir til að fylgja fordæmi sínu í baráttunni fyrir friði, mannréttindum og virðingu fyrir alþjóðalögum. Þetta er ekki aðeins siðferðileg skylda okkar heldur einnig mikilvægt fyrir alþjóðlegt samstarf og frið.

Einhver að ýta dominos leik af stað.

Ísland sýni í verki að brot á alþjóðalögum og mannréttindum hafi afleiðingar

Píratar vilja að Ísland sýni í verki að brot á alþjóðalögum og mannréttindum hafi raunverulegar afleiðingar. Til að ná þessu fram ætti Ísland að beita viðskiptaþvingunum gegn ríkjum sem brjóta gegn alþjóðalögum og mannréttindum, og senda þannig skýr skilaboð um að slíkt verði ekki liðið. Einnig ætti Ísland að berjast fyrir því á alþjóðavettvangi að aðrar þjóðir geri slíkt hið sama, til að auka þrýsting á þessi ríki og stuðla að breytingum. Ísland ætti að vinna að því að komið verði á alþjóðlegu vopnabanni gegn ríkjum sem brjóta gegn alþjóðalögum og mannréttindum, til að hindra frekara ofbeldi og kúgun. Með því að draga úr stjórnmálasambandi við þessi ríki getur Ísland einnig undirstrikað alvarleika málsins og sýnt að það er leiðandi innan alþjóðasamfélagsins í baráttunni fyrir réttlæti og friði.

The shoes of a father and a child standing on a forest floor.

Ísland styðji við fjölskyldusameiningar og móttöku kvótaflóttamanna frá átakasvæðum

Ísland ætti að styðja við fjölskyldusameiningar og taka á móti kvótaflóttamönnum frá átakasvæðum eins og Palestínu. Með því að auðvelda fjölskyldum að sameinast eftir að hafa verið sundraðar vegna átaka, sýnir Ísland mannúðlega afstöðu og stuðlar að betri aðlögun flóttafólks að samfélaginu. Móttaka kvótaflóttamanna er mikilvægt framlag til alþjóðlegrar ábyrgðar, þar sem Ísland hjálpar til við að létta á álagi í flóttamannabúðum og veitir fólki í neyð tækifæri til nýs lífs.

Aw white dove flying with a boring gray building in the background.

Ísland beiti sér fyrir friði og gegn þjóðarmorðum í Úkraínu og Palestínu

Píratar fordæma innrás Rússlands í Úkraínu og styðja úkraínsku þjóðina í baráttu fyrir fullveldi sínu og frelsi, þar sem herlaust Ísland ætti að veita mannúðaraðstoð og stuðla að friði. Jafnframt standa Píratar með Palestínumönnum og vilja stöðva þjóðarmorð á Gaza. Þeir leggja til viðskiptaþvinganir og alþjóðlegt vopnabann gegn Ísrael, auk þess að draga úr stjórnmálasambandi við Ísrael og beita áhrifum Íslands í Mannréttindaráði SÞ til að þrýsta á Ísrael. Píratar styðja einnig málsókn Suður-Afríku gegn Ísrael fyrir brot á hópmorðasamningi SÞ. 

Bygging Evrópusambandsins í Brussels

Upplýst ákvörðun um aðild að Evrópusambandinu

Píratar telja að þjóðin eigi að fá að kjósa um hvort halda eigi áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Við teljum nauðsynlegt að ljúka viðræðunum til að fá skýra mynd af því hvað aðild felur í sér fyrir Ísland. Aðeins með vitneskju um hvað kemur út úr viðræðunum er hægt að taka upplýsta ákvörðun um hvort aðild sé hagstæð fyrir landið. Píratar leggja áherslu á að ferlið verði lýðræðislegt og gagnsætt, að almenningur hafi aðgang að öllum upplýsingum og geti tekið þátt í ákvarðanatökunni. Við viljum tryggja að vilji þjóðarinnar ráði för og að ákvörðunin um aðild verði byggð á staðreyndum og heildstæðum upplýsingum.

Fallegt íslenskt fjall í sumarkvöldsólinni

Öflug hagsmunagæsla og borgaraþjónusta

Píratar vilja sjá öfluga utanríkisþjónustu sem sinnir Íslendingum erlendis og styður við hagsmunagæslu Íslands á alþjóðavettvangi. Með því að efla utanríkisþjónustuna tryggjum við að Íslendingar fái þá aðstoð og þjónustu sem þeir þurfa, hvar sem þeir eru staddir í heiminum. Jafnframt getum við betur varið hagsmuni Íslands á sviðum eins og viðskiptum, umhverfismálum og mannréttindum. Öflug utanríkisþjónusta gerir okkur kleift að taka virkari þátt í alþjóðlegu samstarfi og hafa áhrif á ákvarðanir sem snerta Ísland og heiminn allan. Píratar leggja áherslu á að utanríkisþjónustan sé gagnsæ, skilvirk og starfi í þágu almennings. Með því að styrkja hana getum við stuðlað að aukinni velmegun, öryggi og réttlæti fyrir alla landsmenn.

Steypibíll á leið á vettvang

Framlög Íslands til þróunarsamvinnu séu stóraukin

Píratar leggja áherslu á að Ísland taki virkan þátt í alþjóðlegri þróunarsamvinnu með það að markmiði að stuðla að réttlátari og sjálfbærari heimi. Píratar vilja að Ísland nái markmiði OECD um að 0,7% af vergri landsframleiðslu fari til þróunarsamvinnu fyrir árið 2030, þar af að minnsta kosti 0,2% til fátækustu ríkja heims. Þetta er í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar og sýnir ábyrgð Íslands sem hluta af alþjóðasamfélaginu. Píratar telja mikilvægt að Ísland leggi sitt af mörkum í baráttunni gegn fátækt og hungri. Með því að beita okkur fyrir því að aukin hagsæld samfélaga skili sér til þeirra fátækustu, eflum við mannauð, stuðlum að auknum jöfnuði og leggjum okkar af mörkum til stöðugleika á heimsvísu.  Aukning í framlögum til þróunarsamvinnu ætti að fara að mestu leyti í gegnum frjáls félagasamtök, líkt og tíðkast á hinum Norðurlöndunum.