
Landbúnaðarstefna Pírata
Sjálfbær og loftslagsvænn landbúnaður og nýsköpun
Hvergi er eins mikil þörf á nýsköpun og í landbúnaði á komandi árum. Landbúnaður í heiminum stendur frammi fyrir umbyltingu vegna framfara í allri ræktun og vegna breyttra neysluvenja almennings í tengslum við græn umskipti samfélagsins. Í slíkum breytingum felast bæði áskoranir og tækifæri. Píratar eru óhræddir við að taka skrefin inn í framtíðina, efla menntun í landbúnaði og leggja ríka áherslu á nýsköpun fyrir bændur, með hvötum til lífrænnar ræktunar og annarrar mikilvægrar þróunar. Grípa þarf tækifærin sem felast í tækniframförum og grænum umskiptum og gera betur fyrir bændur og neytendur.
Réttlát umskipti og betri stuðningur við bændur
Píratar ætla að tryggja réttlát umskipti bænda. Grunnframfærslu verður komið á til þeirra sem vinna í landbúnaði og verður séð til þess að framtíð þeirra verði ekki háð styrkjum og geðþóttaákvörðunum stjórnvalda um búvörusamninga. Sérstaklega verður stutt við unga bændur til að koma í veg fyrir frekara brottfall úr stéttinni og til að halda landinu í byggð. Bætt lánakjör til ungra bænda verða tryggð þeim sem leggjast í framkvæmdir á nýju húsnæði undir landbúnað.
Efling fræðslu á loftslagsvænum landbúnaði og stuðningur við nýsköpun
Fræðsla á loftslagsvænum landbúnaði verður efld, að kolefni sé bundið í jarðveg og minni þörf sé fyrir aðföng (t.d. áburð). Dæmi um slíkan landbúnað er nú þegar fyrir hendi á Íslandi, í formi auðgandi landbúnaðar (e. Regenerative agriculture) og lífræns landbúnaðar. Píratar munu styðja við nýsköpun í garðrækt, ylrækt og jarðrækt, með áherslu á lífræna framleiðslu, með hvatastyrkjum og sanngjörnu verði á rafmagni.
Tryggjum fæðuöryggi
Fæðuöryggi og fjölbreytt úrval matvæla þarf að tryggja á umhverfisvænan hátt. Styrkja þarf rannsóknir og framleiðslu sem nýta bestu fáanlegu tækni á sjálfbæran máta og draga úr kolefnisfótspori innfluttra og innlendra afurða. Tryggja skal neytendavernd matvæla og að innfluttar vörur séu vottaðar rétt og skýrt.
Dýravelferð
Gæludýr finnast á nær helmingi heimila landsmanna auk þess sem búfénaður og sjávardýr eru undirstaðan í meginatvinnuvegum landsins. Það er því hagur samfélagsins alls að vel sé gætt að dýrum, bæði vegna tilfinningalegra tengsla fólks við gæludýrin sín og vegna krafna um mannúðlega meðferð á húsdýrum og villtum dýrum.
Friða villt dýr sem eru á válista
Friða skal heimskautaref, lunda, sel og hval.
Setja ákvæði um dýravernd í stjórnarskrá
Velferð dýra verður að njóta vafans. Það er gert með því að setja varúðarákvæði í löggjöf þannig að við ákvarðanatöku er varðar dýrahald, sé hagur dýranna ætíð hafður að leiðarljósi.
Tryggjum að framleiðsluhættir í landbúnaði hafi velferð dýra að leiðarljósi
Skýrir ferlar, skjót viðurlög og valdheimildir eftirlitsaðila eru nauðsynlegir þættir til að tryggja velferð dýra, til dæmis ef taka þarf dýr af fólki sem ekki sinnir þeim, getur ekki sinnt þeim eða stundar dýraníð. Þessu þarf að bæta úr strax með auknu fjármagni og markvissum aðgerðum.
Mannúðleg meðferð dýra við slátrun
Við slátrun þarf að huga að eftirliti með mannúðlegri meðferð dýra. Reglur og úrræði fyrir velferð allra húsdýra, með áherslu á alifugla, svín og loðdýr, eiga að taka mið af þörfum dýranna til rýmis, loftgæða, heilsu og eðlislægra þarfa, þar með talið útivist. Ef ekki er unnt að mæta þörfum dýranna er ekki grundvöllur fyrir dýrahaldinu.