Jafnréttisstefna Pírata

Femínismi og jafnrétti til grundvallar lýðræðissamfélagi

Píratar styðja  og standa með réttindabaráttu kvenna, kvára og hinsegin fólks og vilja að jafnrétti, tækifæri og samfélagsþátttaka allra kynja séu tryggð. Píratar setja í forgang að taka á launamisrétti, hárri tíðni kynbundins ofbeldis og margþættri mismunun gegn hinsegin konum, konum af erlendum uppruna, konum með fötlun, konum með fíknivanda, láglaunakonum og heimilislausum konum. Píratar hlusta á grasrótarhreyfingar  femínista, kvenna, launafólks, fatlaðs fólks og hinsegin fólks sem skoruðu á stjórnmálafólk að ráðast í markvissar aðgerðir til að taka á mismunun og ójafnrétti á Íslandi.

Píratar ætla að

  • Beita sér fyrir því að frjósemisfrelsi kvenna og kvára verði tryggt í stjórnarskrá.

  • Leiðrétta kerfisbundið vanmat á kvennastörfum.

  • Lögfesta rétt barna til leikskólavistar strax að loknu fæðingarorlofi.

  • Afnema skerðingar á lægstu greiðslum í fæðingarorlofi og tryggja að fæðingarorlofsgreiðslur verði aldrei lægri en lágmarkslaun.

  • Tryggja brotaþolum í kynferðisbrotamálum fullnægjandi þjónustu, s.s. túlkaþjónustu og aðgengi, í samskiptum við opinberar stofnanir.

  • Láta brot á nálgunarbanni hafa afleiðingar, að bannið hafi áhrif og lögreglan fái rýmri heimildir til að beita nálgunarbanni.

  • Endurskoða lög um nauðganir og önnur kynferðisbrot og annað kynbundið ofbeldi, til að fanga meðal annars betur brot í netheimum og á samskiptamiðlum.

  • Færa kynjafræði, hinsegin fræði og menntun um birtingarmyndir kynbundins ofbeldis og samskiptafærni inn í námskrá grunn- og framhaldsskóla.

  • Tryggja aðgengi ungs fólks að nafnlausri ráðgjöf og spjalli við ráðgjafa.

  • Efla lög um bann við hatursorðræðu og  gera hana á grundvelli kynjamisréttis og kvenhaturs refsiverða.

Leiðréttum kerfisbundið vanmat á virði kvennastarfa

Atvinnutekjur kvenna eru enn um 21% lægri en karla. Helsta ástæða launamunar  kynjanna er kynjaskiptur vinnumarkaður og vanmat á hefðbundnum kvennastörfum. Konur mynda meirihluta í mörgum lykilstéttum innviða Íslands en búa við að störf þeirra eru ekki metin að verðleikum í launum og réttindum. Píratar vilja leiðrétta kerfisbundið vanmat á kvennastörfum og tryggja að hægt sé að bera saman jafnverðmæt störf þvert á vinnustaði. Þá ætlum við að setja reglur um launagagnsæi byggðar á fyrirmynd ESB, en taka sérstakt tillit til íslenska vinnumarkaðarins, og tryggja virkt eftirlit.

Fjölskyldur og jafnrétti

Píratar ætla að lögfesta rétt barna til leikskólavistar strax að loknu fæðingarorlofi. Píratar vilja lengja fæðingarorlof í skrefum og skilgreina leikskólaþjónustu sem grunnþjónustu. Þá verður að afnema skerðingar á lægstu greiðslum í fæðingarorlofi og tryggja að fæðingarorlofsgreiðslur verði aldrei lægri en lágmarkslaun. Uppfæra verður lög um fæðingarorlof, að konur og fæðandi foreldri fái að lágmarki mánuð aukalega í fæðingarorlof fyrir fæðingu án þess að það bitni á rétti þeirra til samvistar með barninu eftir fæðingu. 

Baráttan gegn kynbundnu ofbeldi

Píratar ætla að berjast af krafti gegn kynferðisofbeldi og kynbundnu ofbeldi. Að brotaþolum sé tryggð fullnægjandi þjónusta, s.s. túlkaþjónusta og aðgengi, í samskiptum við opinberar stofnanir. Að fræðsla hjá þeim sem koma að málum sem tengjast kynbundnu ofbeldi, sérstaklega í tengslum við stöðu jaðarsettra hópa, verði gerð skyldubundin. Þetta á við um dómara, ákærendur, lögregluna og aðra sem koma að málum er varða kynbundið ofbeldi.

Píratar ætla að endurskoða lög um kynferðisbrot til að ná betur utan um brot í netheimum og á samskiptamiðlum.  Við viljum gefa lögreglunni rýmri heimildir til að beita nálgunarbanni og tryggja að brot á því hafi áhrif. Auka skal forvarnir gagnvart heimilisofbeldi, bæði líkamlegu og andlegu, sem og stuðning við þolendur. Bjóða skal upp á sérstök úrræði og fræðslu fyrir hinsegin þolendur heimilisofbeldis, sem og innflytjendur.

Hatursorðræða og forvarnir 

Píratar vilja stuðla að því að kynjafræði, hinsegin fræði og menntun um birtingarmyndir kynbundins ofbeldis og samskiptafærni verði færð inn í námskrá grunn- og framhaldsskóla. Píratar telja mikilvægt að kynfræðsla taki einnig til félagslegra þátta, upplýsts samþykkis og mannhelgi. Slík fræðsla taki mið af fjölbreytileika með tilliti til kynferðis, kynhneigðar, kyntjáningar, kynvitundar eða annars kyngervis. Skýra þarf regluverk í kringum bann við hatursorðræðu og gera hana refsiverða á grundvelli kynjamisréttis og kvenhaturs.