Húsnæðisstefna Pírata
Þak yfir höfuðið er mannréttindi
Það eru mannréttindi að hafa þak yfir höfuðið, því skal fara með húsnæði fyrst og fremst sem heimili. Öll umgjörð um húsnæðismarkaðinn verður að taka mið af þeirri sýn en það hefur vantað upp á þetta á Íslandi. Píratar ætla að tryggja nægt framboð húsnæðis á viðráðanlegu verði og passa að það húsnæði sem byggt er rati á markaðinn, ásamt því að setja stífari ramma um skammtímagistingu. Efla þarf réttindi leigjenda svo fólk geti búið við fyrirsjáanleika og húsnæðisöryggi á leigumarkaði. Gæði og fjölbreytileiki á húsnæðismarkaði eru markmið Pírata, ásamt því að vinna gegn myglu og raka og bæta lánakjör með stöðugri gjaldmiðli.
Píratar ætla að
Tryggja næga uppbyggingu húsnæðis með því að skilyrða að lífeyrissjóðir fjármagni að jafnaði þriðjung af uppbyggingarþörf.
Draga úr skammtímaleigu eins og Airbnb með því að skilyrða heimagistingu við íbúðir þar sem einstaklingar eru skráðir til heimilis og herða eftirlit.
Innleiða lögheimilisskyldu, takmarka veðsetningarhlutfall aukaíbúða við 60% og bæta 0,7% aukafasteignargjöldum á aukaíbúðir.
Setja kvaðir um að öll sveitarfélög bjóði upp á ákveðið lágmark af félagslegu húsnæði.
Ráðast í sérstakt átak í byggingu íbúða fyrir fatlað fólk til að vinna á allt of löngum biðlistum eftir viðeigandi íbúðarhúsnæði. Vinna með rekstraraðilum að nauðsynlegri aðlögun atvinnuhúsnæðis svo þátttaka fatlaðs fólks á vinnumarkaði eða í samfélaginu í heild strandi ekki á aðgengi.
Efla réttindi leigjenda, innleiða hvata til fjölgunar langtímaleigusamninga og verja leigjendur gegn hástökki í upphæðum leigusamninga.
Tryggja að byggingarreglugerð skilyrði gæði eins og birtu, vistlegt umhverfi og nægan gróður við uppbyggingu.
Endurvekja rannsóknir á myglu í Rannsóknarmiðstöð byggingariðnaðarins og standa með réttindum mygluveikra með skýrum ramma í kringum tryggingar vegna mygluskemmda.
Auka gagnsæi og setja skorður á ófyrirsjáanleg lánakjör eins og breytilega vexti og verðtryggingu.
Aukum framboð á húsnæði á viðráðanlegu verði
Öll eiga að geta fundið húsnæði við hæfi á viðráðanlegu verði. Píratar munu fyrst og fremst ráðast í framboðsaukandi aðgerðir frekar en að fresta vandanum með aukinni eftirspurn. Tryggja þarf næga húsnæðisuppbyggingu með öruggri fjármögnun sem heldur dampi í kreppuástandi. Þannig er stuðlað að sveiflujöfnun sem styrkir framleiðni á húsnæðismarkaði. Tryggja þarf áframhaldandi öfluga óhagnaðardrifna uppbyggingu verkalýðsfélaga á íbúðarhúsnæði og stefna að því að skilyrða lífeyrissjóði til að fjármagna að jafnaði þriðjung af uppbyggingarþörf eða um 1500 íbúðir á ári. Píratar munu gera langtímaáætlanir sem taka á innviðaskuld og húsnæðisskorti. Við viljum tryggja fjármagn snemma í uppbyggingarferlinu, til dæmis með útgreiðslu hlutdeildarlána á fyrri stigum, en það mun flýta fyrir að bygging nýs húsnæðis geti hafist.
Tryggjum að byggt húsnæði rati á markaðinn
Tiltölulega hátt hlutfall íbúða á markaði eru ekki skráð sem lögheimili. Við því þarf að bregðast til að styrkja stöðu ungs fólks og fyrstu kaupenda, og takmarka svigrúm fjárfesta til að halda húsnæði taktískt af markaði. Einnig þarf að takmarka gististarfsemi í óleyfi. Píratar vilja að húsnæði sé nýtt sem heimili frekar en fjárfesting. Slíkt er hægt að gera með lögheimilisskyldu, takmörkun á veðsetningarhlutfalli aukaíbúða við 60% og hærri fasteignagjöldum á aukaíbúðir um 0,7%. Skilyrða skal heimagistingu við íbúðir með skráð lögheimili og herða eftirlit með brotum á reglum um heimagistingu.
Styðjum við félagslega blöndun og fjölbreytt búsetuform
Píratar vilja greiða götu kjarnasamfélaga (e. co-housing) og fjölbreyttra búsetuforma. Stutt verður við félagslega blöndun byggðar, aukna uppbyggingu félagslegs húsnæðis og kvaðir lagðar á sveitarfélög um að bjóða upp á ákveðið lágmark af félagslegu húsnæði. Námsmannaíbúðum skal fjölga í takt við þörf, í nálægð við góðar almenningssamgöngur.
Eflum réttindi leigjenda og tryggjum þeim öruggt húsnæði til lengri tíma
Píratar ætla að efla réttindi leigjenda svo fólk geti búið við fyrirsjáanleika og húsnæðisöryggi á leigumarkaði. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir fjölskyldufólk, svo skólaganga barna sé ekki trufluð af stanslausum flutningi. Skapa skal hvata til langtímaleigu, auka skyldur leigusala um sanngjarna umgjörð um útleigustarfsemi og vernda leigjendur gagnvart stökkbreytingu leigu. Leigjendur skal valdefla með aukinni upplýsingagjöf og ráðgjöf um réttarstöðu þeirra í samstarfi við félagasamtök.
Tryggjum gæði, vistvænt og öruggt umhverfi fyrir börn
Uppbygging þéttrar byggðar, með blöndu af atvinnustarfsemi, þjónustu og íbúðarhúsnæði, sem tryggir góða nýtingu innviða og skapar grundvöll fyrir vistvænar samgöngur, nærþjónustu og öruggt umhverfi út frá forsendum barna. Standa skal vörð um vaxtarmörk og sjálfbæra þróun byggðar. Tryggjum að byggingarreglugerð skilyrði gæði við uppbyggingu á forsendum íbúa eins og næga birtu, aðgengi fyrir vistvæna ferðamáta, vistlegt umhverfi og aðgengi að náttúru og gróðri.
Komum í veg fyrir myglu og styðjum við þau sem veikjast vegna myglu
Endurvekja þarf myglurannsóknir og aðrar byggingarrannsóknir sem hætt var með aflagningu Rannsóknarmiðstöðvar byggingariðnaðarins, enda af nógu að taka. Styðja skal við nýsköpun og þróun fyrirbyggjandi byggingaraðferða og tryggja útbreiðslu þekkingar þegar kemur að forvörnum gegn myglu í húsnæði. Þannig styðja Píratar við nýsköpun í notkun innlends byggingarefnis og auka hlut hráefnis sem er umhverfis- og náttúruvænt. Við þurfum að nýta þekkingu erlendis frá í auknum mæli og miðla þessum upplýsingum betur til fagaðila. Tryggja þarf fullnægjandi viðhald á opinberum eignum og innleiða matskerfi og eftirlit með framkvæmdum. Þannig er komið í veg fyrir gallaðar nýbyggingar og brugðist rétt við vandamálum sem koma upp á byggingartíma. Efla skal hvata til þess að endurgera húsnæði frekar en að rífa niður til að byggja nýtt. Skapa þarf ramma í kringum tryggingar vegna mygluskemmda, stuðla að vitundarvakningu um skaðsemi myglu og vinna gegn myglufordómum í heilbrigðiskerfinu.
Bætum vaxtarkjör og að rammi kringum lán, lánastofnanir og vaxtahækkanir verði skýrari
Lánakjör eru lykilþáttur í samkeppnishæfni landsins. Í nágrannalöndum okkar þurfa lántakendur almennt að vinna mun færri vinnustundir til að greiða afborganir íbúðalána. Píratar vilja auka efnahagslegan stöðugleika með stöðugri gjaldmiðli, en slíkt leiðir af sér betri lánakjör fyrir almenning. Auka skal gagnsæi og setja skorður á ófyrirsjáanleg lánakjör eins og breytilega vexti og verðtryggingu. Þannig stöndum við vörð um hag neytenda. Einnig þarf að tryggja sanngirni og gagnsæi við gjaldþrotameðferð og nauðungauppboð.