Réttindi hinsegin fólks í fyrsta sæti

Áherslur Pírata í hinsegin málum

Þrátt fyrir miklar framfarir í réttindabaráttu hinsegin fólks á Íslandi undanfarin ár, þá hefur komið fram bakslag í samfélaginu – bæði hérlendis sem og erlendis. Slíkt bakslag hefur einna helst birst í auknum fordómum gegn hinsegin fólki og meiri öfgahyggju gegn réttindum þeirra. Píratar vilja sporna við þessari þróun.

Píratar ætla að

  • Gera Ísland að leiðandi ríki í réttindabaráttu hinsegin fólks á heimsvísu.

  • Tryggja lagalegt jafnrétti hinsegin para á við gagnkynja pör.

  • Uppfæra ákvæði í stjórnarskrá til að ná yfir kyntjáningu, kynvitund og kyneinkenni.

  • Bæta þjónustu í tengslum við kynstaðfestandi ferli.

  • Banna öll ónauðsynleg inngrip í líkama intersex barna. 

  • Beita okkur fyrir sanngirni og skoða bótagreiðslur til þeirra sem hafa sætt óréttlátri meðferð vegna hinseginleika síns.

Gera Ísland að leiðandi ríki í réttindabaráttu hinsegin fólks á heimsvísu

Píratar vilja koma Íslandi í fyrsta sæti á regnbogakorti ILGA Europe og Transgender Europe með því að uppfylla öll skilyrði kvarðanna. 

Tryggja lagalegt jafnrétti hinsegin fólks

Píratar vilja tryggja að hinsegin mæður búi við sama lagalegt jafnrétti og gagnkynja pör í tengslum við tæknifrjóvgun, og þurfi ekki að skila aukalega inn staðfestingu á tæknifrjóvgun til Þjóðskrár. Uppfæra þarf ákvæði í stjórnarskrá um að öll séu jöfn fyrir lögum sem nái ekki aðeins til kynhneigðar, heldur líka kyntjáningar, kynvitundar og kyneinkenna. Tryggja þarf að blóðgjöf hinsegin karlmanna og trans fólks verði leyfð án takmarkana. Framfylgja verður lögum um kynrænt sjálfræði sem gerir ráð fyrir því að kynsegin fólk hafi greiðan aðgang að salernis- og búningsaðstöðu í samræmi við kynvitund í almannarýmum og starfsstöðvum íþróttastarfs, á baðstöðum, og í líkamsræktarstarfi.

Útvíkka og bæta þarf þjónustu í tengslum við kynstaðfestandi ferli 

Sjúkratryggingar eiga að taka þátt í niðurgreiðslu á öllum læknisfræðilegum þáttum kynstaðfestandi ferlis, svo sem vegna hárrótartöku, andlitsaðgerða, brjóstauppbyggingar og talþjálfunar. Koma þarf á niðurgreiðslu á kostnaði við frystingu kynfrumna fyrir trans fólk.

Píratar munu berjast gegn falsfréttum og áróðri, efla fræðslustarfsemi og tryggja að hinsegin fólk búi við sömu lífsgæði og annað fólk. Styrkja þarf löggjöf um hatursorðræðu og regluverk í kringum hatursglæpi.

Aðlögun hins opinbera að réttindum hinsegin fólks

Auka þarf ferðaöryggi kynsegin fólks með sérstöku fyrirkomulagi í tengslum við vegabréf, t.d. að það hafi aðgang að tveimur vegabréfum, annars vegar réttri skráningu og hins vegar hefðbundinni.

Banna þarf öll ónauðsynleg inngrip í líkama intersex barna og vernda líkamlega friðhelgi þeirra og setja þarf á fót eftirlit og skráningu á inngripum í líkama intersex barna.

Greiða þarf fyrir því að hinsegin fólk sem hefur sætt óréttlátri meðferð fái aðgang að bótum og uppgjöri við fortíðina af hálfu stjórnvalda, t.d. intersex fólk sem hefur þurft að sæta broti á líkamlegri friðhelgi sinni með óþörfum læknisfræðilegum inngripum og HIV smitaðir, sem fengu enga þjónustu né stuðning vegna aðgerðarleysis stjórnvalda á tímum HIV faraldursins.

Auka þarf fjármögnun á hinsegin fræðslu

Píratar vilja að hinsegin málefni séu samtvinnuð í námsefni í skólum í samræmi við aðalnámskrá. Horfa þarf sérstaklega til inngildingar hinsegin fólks í íþrótta- og æskulýðsstarfi, og uppræta fordóma og útilokun þeirra. Efla þarf ráðgjöf og meðferðarúrræði sem styðja sérstaklega við hinsegin fólk. Huga þarf sérstaklega að stöðu hinsegin flóttafólks og hælisleitenda með skýrum lagaramma og vernd, og tryggja þarf sérstök úrræði fyrir þann hóp. Píratar vilja einnig skoða sérstöðu eldra hinsegin fólks, og sjá til þess að þjónusta við eldra fólk taki mið af sérþörfum og lífi þess og starfsfólk fái viðeigandi fræðslu.