Frelsi og tækifæri óháð fötlun og færni
Áherslur Pírata í málefnum öryrkja og fatlaðs fólks
Píratar trúa því að með þátttöku allra í samfélaginu bætum við og eflum samfélag okkar. Við viljum valdefla einstaklinga til að athafna sig á eigin forsendum. Víðtækar skerðingar og hindranir í núverandi kerfum skapa samfélagslegt tap og fórna tækifærinu til að fjárfesta í einstaklingnum. Lífsgæði fatlaðs fólks skulu vera eins góð og þau geta verið miðað við aðstæður hvers og eins.
Fatlaðir einstaklingar eiga að fá að lifa án mismununar, fordóma, og hvers kyns misréttis. Tryggja skal rétt allra sem þurfa til framfærslu vegna örorku og endurhæfingar og miða við að hún dugi til nægjanlegrar framfærslu og mannsæmandi búsetu. Sá réttur á ekki að vera takmarkaður af hjúskaparstöðu, búsetu eða öðrum valfrjálsum aðstæðum. Píratar ætla að afnema ómanneskjulegar skerðingar og byggja upp mannúðlegra stuðningskerfi hins opinbera. Það er hagur okkar allra að fólk fái tækifæri til að lifa og dafna út frá eigin þörfum og ástríðu.
Píratar ætla að
Gera úrbætur á almannatryggingakerfinu.
Gera lífeyrisþegum kleift að afla tekna án skerðingar.
Ráðast í heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu.
Endurskoða umsóknarferlið um örorku- og endurhæfingalífeyri.
Lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Fjölga NPA-samningum.
Auka frelsi til búsetu.
Bæta framboð á störfum eftir ólíkri getu fólks.
Hafa ríkt samráð við fulltrúa öryrkja og fatlaðs fólks við allar ákvarðanir sem varða hag þeirra.
Úrbætur í almannatryggingakerfinu
Örorku- og endurhæfingarlífeyrir á að standa öllum til boða frá 16 ára aldri til eftirlaunaaldurs. Takmörkuð búseta á Íslandi á ekki að skerða bótarétt og hætta skal strax öllum búsetuskerðingum. Píratar vilja afnema skilyrði til uppbóta á lífeyri og vinna að því að fjarlægja skilyrði og skerðingar úr almannatryggingakerfinu. Breyta þarf lögum um almannatryggingar svo að fjárhæð örorku- og endurhæfingarlífeyris fylgi almennri launaþróun, og að breytingar á lífeyri verði aldrei lakari en breytingar á lágmarkslaunum. Óháðir sérfræðingar verða fengnir til að reikna út kjaragliðnun lífeyris undanfarinna ára. Vinna þarf þessa kjaragliðnun upp með reglubundnum hækkunum á fjárhæðum örorku- og endurhæfingarlífeyris á kjörtímabilinu.
Leyfum lífeyrisþegum að afla tekna
Píratar ætla að hækka og lögfesta varanlegt frítekjumark vegna atvinnutekna öryrkja og auka möguleika þeirra til tekjuöflunar meðfram lífeyrisgreiðslum án víðtækra skerðinga. Tryggt verður að eignir lífeyrisþega valdi ekki skerðingum á lífeyrisgreiðslum. Skerðingar vegna tekna úr lífeyrissjóðum verða afnumdar.
Endurhugsum kerfið frá grunni
Heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins getur ekki beðið. Búa þarf til gagnsætt, notendavænt og mannúðlegt framfærslukerfi sem tryggir öllum framfærslu sem þurfa. Markmið kerfisins á að vera að tryggja öllum mannsæmandi búsetu og lífskjör og efla þarf fólk á einstaklingsgrundvelli. Píratar eru ósammála hugmyndafræðinni um starfsgetumat og munu standa með öryrkjum gegn innleiðingu þess.
-
Tökum umsóknarferlið um örorku- og endurhæfingarlífeyri í gegn til að einfalda það, gera það notendavænna og auka gagnsæi í meðferð umsókna. Látum ríkið standa straum af öllum kostnaði við mat á örorku og endurhæfingu.
-
Ísland hefur fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en hann hefur ekki verið lögfestur í heild sinni, þess vegna er mikilvægt að hann verði lögfestur og hljóti formlegt gildi.
-
Píratar ætla að afnema kvóta ríkisins gagnvart fjármögnun samninga um notendastýrða persónulega aðstoð og sjá til þess að öll sem þurfi þjónustuna hafi völ á henni. Það má ekki vera kvóti á réttindum fólks. Markmið Pírata er að tryggja notendum valfrelsi í sinni þjónustu og að fatlað fólk geti notið sjálfstæðis til jafns við aðra. Þrátt fyrir að NPA hafi verið lögfest þá hefur aðgengi ekki verið tryggt og biðlistar langir með tilheyrandi annmörkum hér á landi, sem kemur í veg fyrir að fatlað fólk geti sótt rétt sinn í stjórnsýslu og fyrir dómstólum á grundvelli lífsgæðaskerðinga sem hindrar þátttöku þess í samfélaginu. Tryggja þarf fjármagn og útrýma biðlistum.
-
Píratar standa vörð um starfsemi félaga og samtaka sem bjóða starfsendurhæfingu eftir sjúkdóma eða slys sem er mikilvægt skref fyrir fólk til að ná aftur fyrri getu.
-
Hafa skal ríkt samráð við fulltrúa öryrkja og fatlaðs fólks við allar ákvarðanir sem varða hag þeirra.
Samráð við notendur
Hafa skal ríkt samráð við fulltrúa öryrkja og fatlaðs fólks við allar ákvarðanir sem varða hag þeirra.