Fjölmenningar- og útlendingastefna Pírata
Inngildandi samfélag fjölbreytileika og mannréttinda
Píratar vilja byggja upp fjölbreytt og farsælt fjölmenningarsamfélag með því að tryggja innflytjendum tækifæri til virkrar þátttöku og sporna gegn fordómum. Píratar leggja áherslu á að vernda réttindi erlends launafólks, berjast gegn mansali, tryggja aðgengi að menntun og einfalda móttökukerfi fyrir útlendinga. Einnig vilja þeir mannúðlega meðferð fólks á flótta, að því sé leyft að vinna meðan umsókn er í ferli og að nauðsynleg þjónusta sé tryggð.
Píratar ætla að
Efla inngildingu fólks sem flyst til landsins.
Tryggja vernd réttinda erlends launafólks.
Efla baráttuna gegn mansali.
Auka aðgengi fólks af erlendum uppruna að menntun.
Styðja betur við kennara og skóla til þess að kenna börnum með annað móðurmál en íslensku.
Koma á skilvirkara móttökukerfi mannúðar-, atvinnu-, og dvalarleyfa.
Auka stuðning við fólk á flótta.
Inngilding innflytjenda
Píratar leggja mikla áherslu á að vinna að inngildingu fólks sem flyst til landsins, að því sé tryggð tækifæri til að taka virkan þátt í íslensku samfélagi. Þetta krefst aðlögunar á báða bóga. Píratar vilja ráðast í samfélagsátak til að sporna við fordómum, útlendingahatri og hatursorðræðu, með það að markmiði að byggja upp samfélag sem grundvallast á samkennd og samhug. Mikilvægt er að kennsla sem fólki stendur til boða miði ekki eingöngu að máltöku heldur einnig að fræðslu um réttindi og skyldur ásamt hagnýtum upplýsingum um íslenska menningu og staðhætti. Píratar ætla að styðja við bakið á kennurum og efla menntakerfið til þess að kenna börnum með annað móðurmál en íslensku.
Vernd réttinda erlends launafólks
Íslenskt samfélag byggir velsæld sína að miklu leyti á vinnuframlagi erlends launafólks. Píratar vilja hlúa að þessum mikilvæga mannauði og stöðva brot á réttindum þeirra sem hafa viðgengist vegna aðgerðarleysis stjórnvalda. Píratar leggja áherslu á að tryggja að réttindi samkvæmt lögum og kjarasamningum séu virt, og að öllum sem hingað koma til starfa séu veittar réttar upplýsingar um réttindi sín á tungumáli sem þau skilja og að heimildir eftirlitsaðila séu styrktar til að rannsaka brot. Einnig vilja Píratar að viðurlög gegn brotlegum atvinnurekendum séu nægilega þung til að vega upp á móti hagnaði af brotunum.
Barátta gegn mansali
Píratar telja brýnt að íslensk stjórnvöld standi við skuldbindingar sínar samkvæmt samningi Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali. Það felur í sér að tryggja öryggi þolenda mansals með veitingu dvalarleyfis og veita þeim viðeigandi stuðning og aðstoð. Efla þarf greiningu og skráningu hugsanlegra þolenda mansals og lækka þröskuldinn fyrir veitingu umþóttunarleyfa til að tryggja betur öryggi þeirra. Skýra skal ábyrgð og verkaskiptingu innan málaflokksins og tryggja fjármögnun úrræða sem taka við fólki sem leitar hjálpar vegna mansals.
Aðgengi að menntun
Píratar vilja tryggja að einstaklingar með erlendan bakgrunn hafi aðgang að fjölbreyttum menntunarúrræðum sem henta þeirra þörfum. Menntun erlendis frá skal metin að verðleikum, en þar sem nauðsynlegt er að bæta við þekkingu vegna staðhátta, eins og í lögfræði eða kennslu, skal fólki gert kleift að sækja viðbótarnám til að komast inn á íslenskan vinnumarkað með sína menntun eins fljótt og auðið er. Nám í íslensku skal vera aðgengilegt öllum, óháð aldri, uppruna, fjárhagslegri stöðu eða vinnutíma, og vera í boði á öllum færnistigum til að búa einstaklinginn undir líf í íslensku samfélagi.
Skilvirkara móttökukerfi
Píratar vilja einfalda umsóknarferli dvalar- og atvinnuleyfa sem er nú óþarflega flókið, óskilvirkt og kostnaðarsamt. Píratar vilja að öllum tegundum dvalarleyfa fylgi óbundið atvinnuleyfi. Píratar leggja til að færa verkefni Útlendingastofnunar til annarra viðeigandi stofnana og einfalda umsóknar- og skráningarkerfi fyrir útlendinga til muna. Markmiðið er að draga úr mun á aðstöðu fólks sem kemur frá löndum utan og innan EES-svæðisins, auka möguleika ríkisborgara landa utan EES til að flytjast til landsins og auðvelda leiðina að veitingu ríkisborgararéttar til að hvetja til virkari þátttöku í samfélaginu. Einnig skal unnið að því að draga úr lögfræðikostnaði bæði ríkis og umsækjenda með skýrara og einfaldara regluverki.
Stuðningur við fólk á flótta
Píratar vilja auka mannúð og lækka kostnað við móttöku flóttafólks á Íslandi með því að leyfa því að vinna meðan umsókn þeirra er til meðferðar og með því að straumlínulaga umsóknarferlið til að auka skilvirkni. Umsóknir um alþjóðlega vernd skulu almennt teknar til efnismeðferðar, og umsækjendum skal veitt sérstakt atvinnuleyfi. Beiting matskenndra ákvæða útlendingalaga skal taka mið af mannúð, virðingu fyrir fólki og skilningi á aðstæðum þess. Umsækjendum skal standa til boða mannsæmandi og örugg búseta meðan á umsóknarferli stendur, og að þeir fái aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og lögfræðiþjónustu, og þeim skal skipaður málastjóri sem fylgir þeim í ferlinu frá upphafi til enda. Sömu réttindi skulu gilda jafnt gagnvart einstaklingum, foreldrum og börnum sem hingað koma til lands.