Fíkni- og vímuefnastefna Pírata

Tvær manneskjur teygja sig yfir borð og haldast í hendur

Mannvirðing, fordómaleysi og stuðningur við fólk með fíknivanda

Fólk með fíknivanda ber að nálgast af virðingu og með skaðaminnkun og afglæpavæðingu að leiðarljósi. Skaðaminnkun vísar til stefnu, úrræða og aðgerða sem minnka neikvæð heilsufarsleg, félagsleg og efnahagsleg áhrif af notkun vímuefna. Píratar hafa frá upphafi barist fyrir skaðaminnkandi nálgun sem byggir á vísindum og gagnreyndum aðferðum.

Birtingarmynd vandamála tengd vímuefnanotkun er margbreytileg. Píratar leggja þó ávallt áherslu á mannvirðingu, mannréttindi og skaðaminnkandi stefnubreytingar eins og afglæpavæðingu.

Nærmynd af ljósastaur með límmiða á sem stendur á „Every Human has Rights“

Píratar ætla að

  • Skoða notkun vímuefna út frá skaðaminnkandi nálgun.

  • Stuðla að áfallamiðaðri nálgun, þjónustu og úrræðum.

  • Fjölga sértækum úrræðum fyrir fólk með fjölbreyttar þarfir.

  • Leggja áherslu á virðingu og mannréttindi.

  • Efla félagslega velsæld með áherslu á forvarnir, félagsstarf og notendavæna þjónustu.

  • Afglæpavæða neysluskammta vímuefna og tryggja lagalegan grundvöll fyrir skaðaminnkandi þjónustu.

Gulur veggur úr fjölum með hamingjusamri konu fyrir framan. Konan heldur regnhlif uppi

Skaðaminnkandi nálgun

Píratar hafa frá upphafi beitt sér fyrir skaðaminnkandi nálgun í vímuefnamálum. Við höfum m.a. beitt okkur fyrir því að hætta að refsa vímuefnanotendum, enda eru refsingar til þess fallnar að hindra notendur vímuefna í að fá aðgengi að heilbrigðisþjónustu og skaðaminnkandi úrræðum. Vegna ávana- og fíkniefnalöggjafar er t.d. ekki hægt að setja á laggirnar efnagreiningu á vímuefnum, þróa verklag við notkun vímuefna í neyðarskýlum, skaðaminnkandi úrræði og hjúkrunarheimili fyrir fólk með virkan vímuefnavanda o.fl. Píratar ætla að endurskoða löggjöfina og kanna kosti og fýsileika þess að regluvæða ólögleg vímuefni. Regluvæðing gerir ráð fyrir mismunandi höftum og reglum fyrir hvert vímuefni byggt á áhættunni sem fylgir notkun þeirra sem og þörfum samfélagsins.

Mjó göngubryggja yfir vatni við sólsetur

Áfallamiðuð nálgun, þjónusta og úrræði

Áfallamiðuð nálgun byggir á mikilvægi utanaðkomandi þátta á geðheilsu einstaklinga, hvernig andleg heilsa mótast af streitu og áföllum. Með áfallamiðaðri nálgun og þjónustu er átt við að skapa umhverfi þar sem öll eru örugg án þess að ýtt sé undir áfallaviðbrögð. Slíkar nálganir eru mannúðlegar, margreyndar og vísindalega rannsakaðar í þjónustu við fólk með fíknivanda. 

Sértæk úrræði fyrir fólk með fjölbreyttar þarfir 

Píratar ætla að setja sértækar stefnur um skaðaminnkandi úrræði fyrir ákveðna hópa samfélagsins. Þörf er á fleiri og fjölbreyttari skaðaminnkandi þjónustu fyrir fólk með fjölbreyttar þarfir. Nauðsynlegt er að vernda slík rými með lagalegum hætti. Sá hópur sem er hvað viðkvæmastur fyrir skaðlegum áhrifum vímuefnanotkunar er fangar. Skaðaminnkandi úrræði hafa gefist vel í öðrum löndum. Píratar munu útfæra slík úrræði  í fangelsum landsins  á öruggan hátt. Ungt fólk er sérstaklega viðkvæmt fyrir skaðlegum áhrifum vímuefna. Píratar ætla að draga úr vímuefnanotkun ungmenna með forvörnum og fræðslu. Einnig þarf að fræða unga vímuefnanotendur um eins örugga notkun vímuefna og mögulegt er, til að draga úr hættu á dauðsföllum ungmenna af völdum þekkingarleysis. Jaðarhópar eru sérstaklega viðkvæmir og líklegri til þess að ánetjast vímuefnum og þarfnast því sérstakrar athygli, fyrirbyggjandi úrræða og sértækra meðferðarúrræða.

Nærmynd af gulu blómi með miklu ljósi fyrir aftan

Virðing og mannréttindi í forgrunni

Mikilvægt er að passa upp á mannréttindi fólks sem notar vímuefni. Dæmi eru um að einstaklingar með sögu um vímuefnanotkun mæti mismunun og fordómum í heilbrigðiskerfinu. Mikilvægt er að þjónustan sé áfallamiðuð og að skaðaminnkandi úrræði séu við hæfi. Einstaklingar sem hafa greinst með margþættan vanda fá oft ekki viðeigandi meðferð við hæfi og meðferðarstofnanir eru oft ekki í stakk búnar að taka á slíkum vanda sem er óásættanlegt. Þessu munu Píratar breyta.

Efla félagslega velsæld með áherslu á forvarnir, félagsstarf og notendavæna þjónustu

Þátttaka í skipulögðu félagsstarfi í öruggu umhverfi hefur mikið forvarnargildi fyrir fólk á öllum aldri. Stuðla þarf að félagslegri velferð fólks og draga úr frelsistakmörkunum til að allir geti notið lífsins á eigin forsendum. Fjölga þarf tækifærum til félagslegrar þátttöku með sérstöku tilliti til fólks sem hætta er á að einangrist. Píratar munu bjóða upp á valdeflandi og fjölbreytt félagsstarf á landsvísu með viðeigandi aðgengi, í samræmi við ólíkar félags- og þjónustuþarfir fólks. Efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi eiga að vera í samræmi við alþjóðasamninga óháð uppruna eða stöðu. Píratar munu lögfesta lágmarksframfærslu, tryggja aðgang að velferðarþjónustu og grunninnviðum, þar með talið að sálfræðiþjónustu og skaðaminnkunarúrræðum vegna fíkni- og vímuefnavanda.

Haustlauf í mikilli birtu

Afglæpavæðing

Píratar ætla að afglæpavæða neysluskammta vímuefna. Samhliða mun fara fram endurskoðun á refsiramma gagnvart vímuefnabrotum á grundvelli mannréttinda, mannhelgi og mannúðar og í takt við nýjustu þekkingu. Píratar vilja draga úr eftirspurn eftir vímuefnum með gagnreyndum og fyrirbyggjandi forvörnum sem leggja áherslu á skaðaminnkun og mannúð. Píratar ætla að tryggja lagalegan grundvöll fyrir rekstur neyslurýma og annarrar skaðaminnkandi þjónustu, eins og t.d. nálaskiptaþjónustu. Píratar telja mikilvægt að regluvæða kannabis og skoða fýsileika þess að regluvæða hugvíkkandi efni.