Byggðastefna Pírata

Fullorðin hönd og ungbarna hönd gera „klesst'hann“

Valdefling nærsamfélaga

Öll sveitarfélög landsins eiga að vera sjálfbær og geta boðið íbúum upp á þá grunnþjónustu sem þeir eiga rétt á. Þannig sköpum við aðstæður sem tryggja aukna nýsköpun og framleiðslu í heimahögum. Píratar vilja draga úr miðstýringu valds og færa ákvarðanatöku í málefnum byggða og sveitarfélaga í auknum mæli til nærsamfélagsins. Einnig þarf að tryggja að stærra hlutfall skatttekna svæðisbundinnar starfsemi renni beint til sveitarfélaganna. Píratar ætla að vinna að byggðarstefnu í samvinnu við íbúa en aukið íbúalýðræði í nærsamfélagi er grundvöllur fyrir sterku og valdeflandi samfélagi.

Sjávarpláss úti á landi. Bátur við bryggju og nokkur hús uppi á landi.

Píratar ætla að

  • Draga úr miðstýringu og efla lýðræði.

  • Efla tekjustofna sveitarfélaga.

  • Styrkja innviði um allt land.

  • Auka aðgengi að þjónustu óháð búsetu.

  • Valdefla íbúa með beinu lýðræði.

Drögum úr miðstýringu valds og eflum lýðræði

Píratar ætla að draga úr miðstýringu valds á öllum sviðum og efla beint lýðræði í þeim formum sem bjóðast. Við viljum leyfa fólki að taka þátt í ákvörðunum sem varða það beint. Þetta á ekki síst við um nærsamfélagið þar sem fólk á heima.

Eflum tekjustofna sveitarfélaga

Hluti af eflingu nærsamfélagsins felst í fleiri möguleikum til tekjuöflunar. Píratar vilja að skattar á borð við gistináttagjald og hlutfall af fjármagnstekjuskatti og virðisaukaskatti renni til sveitarfélaganna. Skatttekjur sem myndast vegna seldrar vöru og þjónustu eiga að efla samfélagið sem skapaði þær.

Hálf brotið saman landakort af Íslandi með hatti á mælaborði bíls í bakgrunni

Sterka innviði út um allt land

Píratar vilja trausta innviði sem styðja við framþróun um allt land. Þar á meðal frjálst internet um ljósleiðara, þriggja fasa rafmagn og öruggar samgöngur.

Aðgengi að þjónustu óháð búsetu

Aðgengi að félagslegum stuðningi, heilbrigðisþjónustu, geðheilbrigðisþjónustu, íbúðarhúsnæði og menntun við hæfi á að vera öllum tryggð. Búseta á ekki að koma í veg fyrir að fólk hafi aðgengi að nauðsynlegri þjónustu.

Ósamsett púsl. Á einu púslinu stendur „The Pil.... of ...Community“

Valdið til fólksins

Til að tryggja að sveitarfélög iðki vönduð vinnubrögð þarf að færa meira vald til fólksins og gefa því verkfæri til aðhalds og eftirfylgni. Píratar vilja auka gagnsæi í stjórnsýslukerfi sveitarfélaganna öllum til gagns. Lækka ætti hlutfall íbúa sem þarf til að kalla borgarafund saman og óska ætti eftir íbúakosningu um einstök málefni. Þá þarf að auka aðgengi íbúa að upplýsingum og almennt lækka þröskuldinn fyrir lýðræðislegri þátttöku íbúa.