Eflum innviði til kornræktar

Víða um heim er alvarlegur uppskerubrestur vegna loftslagsbreytinga og stríðsátaka sem ekki sér fyrir endann á. Þessi uppskerubrestur, sem gæti reynst langvarandi, ógnar fæðuöryggi okkar. Brýnt er að bregðast við og efla innviði á Íslandi svo að unnt sé að rækta og vinna hérlendis nauðsynlega matvöru eins og kornvöru. Staðan er nú sú að senda þarf korn sem ræktað er hér á landi til vinnslu erlendis. Það er bæði kostnaðarsamt og gífurlega óumhverfisvænt.

Í dag er innlend framleiðsla á korni til manneldis aðeins um 1% af heildarneyslu. Hér á landi eru mikil og góð tækifæri til að rækta korn og grænmeti en það sem skortir til að ná árangri á því sviði er markviss uppbygging nauðsynlegra innviða.

Í skýrslu Landbúnaðarháskólans um fæðuöryggi á Íslandi, kemur fram að öryggið er hvað minnst hérlendis þegar kemur að kornvörum, hvort sem er til manneldis eða fóðrunar búfjár. Fram hafa komið margar hugmyndir um hvað þurfi til að efla kornrækt á Íslandi og í því sambandi hefur verið nefnt að skapa þurfi efnahagslega möguleika á úrvinnsluiðnaði og kornsamlagi að norrænni fyrirmynd, jafnvel með beitingu skattalegra hvata. Þá hefur einnig verið talað um að koma þurfi upp afkomutryggingu fyrir þá sem stunda kornrækt og að styðja kröftuglega við rannsóknar- og kynbótastarf. 

 

Ég lagði fram  þingsályktunartillögu þann 15. september síðastliðinn og sótti eftir því að íslenska ríkið geri aðgerðaráætlun og tryggi nauðsynlegt fjármagn til uppbyggingar á innviðum sem stuðla að aukinni ræktun kornvöru á við hafra, repju, bygg og iðnaðarhamp. Að Alþingi fæli matvælaráðherra að koma á fót þeim nauðsynlegu innviðum sem þarf í samráði við hagaðila í greininni.

Áhugi ræktenda og bænda á slíkri framleiðslu er þegar til staðar en stærstur hluti af íslenskri kornframleiðslu er notaður sem fóður innan bús og hér á landi er ekki til félag sem getur keypt og geymt korn í miklum mæli. Bændur hafa því ekki tryggingu fyrir að geta unnið, geymt og selt korn sitt, og þar af leiðandi er framleiðsla kornbænda aðeins lítill hluti af innlendri eftirspurn.

Haframjólkurvörur hafa notið aukinna vinsælda undanfarin ár, bæði vegna lágs kolefnisspors og aukinnar tíðni á greindum tilfellum mjólkuróþols, en haframjólkurvörur eru bragðgóðar og næringarríkar og líkjast kúamjólkurvörum sem við eigum að venjast. Svíar og Finnar eru leiðandi í framleiðslu á haframjólkurvörum og nota til þess aðallega hafra sem eru ræktaðir í landinu. Ræktun á höfrum á Íslandi er takmörkuð en hægt væri, með nauðsynlegum innviðum, að leggja meiri áherslu á hana og framleiða okkar eigin haframjólkurvörur. Haframjólk er með næst lægsta kolefnissporið á eftir sojamjólk og er því umhverfis- og loftslagsvænn kostur, sem neytendur leggja síaukna áherslu á í vöruvali sínu. Samanburður við kolefnisspor kúamjólkur leiðir í ljós að það þarf tíu sinnum meira landsvæði og þrettán sinnum meira vatn til að framleiða kúamjólk en þarf við haframjólkurframleiðslu. Haframjólk er ekki einungis góð fyrir heilsu fólks heldur einnig fyrir umhverfið og því fjölþættur ávinningur af því að efla innviði til framleiðslunnar hér á landi. 

Íslenskt bygg til manneldis

Íslenskir bændur sem rækta bygg nota það aðallega í fóður en það eru þó frumkvöðlar sem hafa komið sér upp vélum til þurrkunar og rækta bygg til manneldis. Þar má td. nefna Vallanes og Þorvaldeyri. Afurðir frá þeim eru helst notaðar til matreiðslu og bjórgerðar og ljóst er að gífurleg tækifæri felast í því fyrir íslenska matvöruframleiðendur og brugghús að nota íslenskt bygg.

Repja

Á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum hefur um árabil verið ræktuð repja og er sú repja notuð til að framleiða repjuolíu til manneldis svo og bíódísil. Þannig geta bændur þar breytt repjunni í bíódísil og notað hann bæði á vinnuvélarnar og vélarnar sem þurrka kornið. Þar er komin sjálfbær og vistvæn hringrás í framleiðslu. Nú þegar er kominn upp skortur á repjuolíu á heimsmarkaði og tækifæri fyrir okkur að rækta og framleiða okkar eigin repjuolíu sem mikið er notuð við matreiðslu og mögulegt er að nota til að knýja farartæki og vélar.

Á Íslandi er framleitt nægt magn og umfram það af dýraafurðum eins og kjöti, fiski og mjólkurafurðum og löngu orðið tímabært að leggja áherslu á kornvöru og grænmeti. Við búum á afskekktri eyju og þannig berskjölduð fyrir náttúruhamförum, styrjöldum og kreppum sem gætu hamlað innflutningi og ætti efling kornræktar á Íslandi því að vera í forgangi.

Þingsályktunartillöguna má kynna sér á vef Alþingis.

Valgerður Árnadóttir

Varaþingmaður Pírata frá 2021

Forrige
Forrige

Ekki skjóta sendiboðann

Næste
Næste

Borgarbúar skulu fá fyrsta flokks hjólastíga