Píratar standa grænu vaktina á þingi
Í loftslagsmálum og náttúruvernd mætast einhverjar stærstu áskoranir samtímans. Mikilvægi þeirra málaflokka endurspeglast hins vegar ekki í því hversu mikið rými þeir fá í stjórnmálaumræðunni. Þarna rennur okkur Pírötum blóðið til skyldunnar. Við áttum okkur á mikilvægi þess að halda grænu málunum stöðugt á lofti. Þess vegna tala Píratar ávallt máli umhverfisins og loftslagsins á Alþingi og í sveitarstjórnum.
Það er engin tilviljun að Píratar hafi skorað hæst í Sólinni, einkunnagjöf Ungra umhverfissinna fyrir síðustu alþingiskosningar. Við tökum vísindunum alvarlega og mótum stefnu okkar og aðgerðir á grunni þeirra. Áherslur í grunnstefnu Pírata gera flokknum eðlislægt að takast á við loftslagsvána af metnaði og raunsæi – hvort sem það er með því að kalla eftir auknu gagnsæi, draga valdhafa til ábyrgðar eða valdefla almenning og félagasamtök til aðgerða.
Frá síðustu kosningum höfum við látið verkin tala og nú þegar rúmur helmingur er liðinn af kjörtímabilinu er ekki úr vegi að fara yfir árangurinn hingað til.
Grænni þróun fórnað fyrir valdastóla
Eftir síðustu kosningar varð flestum ljóst að Vinstri græn gáfu grænar áherslur sínar endanlega eftir með því að færa Sjálfstæðisflokknum lykilinn að umhverfisráðuneytinu. Til að bæta gráu ofan á svart var hlutverkaskiptingu ráðuneyta breytt á sama tíma, þannig að orkumál fluttust til umhverfisráðuneytisins. Á tímum þegar umhverfismálin eiga undir högg að sækja um allan heim völdu stjórnarflokkarnir að veikja stöðu þeirra með því að láta hana keppa við virkjanaþorsta Sjálfstæðismanna. Niðurstaðan var fyrirsjáanleg: Umhverfismál hafa týnst hjá ríkisstjórninni.
Krafa aðgerðasinna í loftslagsmálum hefur lengi verið einföld og skýr: „Aðgerðir strax!“ Því ákalli hefur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur enn ekki svarað. Einfaldasta dæmið er biðin endalausa eftir nýrri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Aðgerðaáætlun slær tóninn fyrir allt sem gerist í samfélaginu til að ná sameiginlegum markmiðum okkar í loftslagsmálum. Grundvallarplagg sem metnaðarfull ríkisstjórn myndi vinna á fyrstu vikum kjörtímabils og láta stýra öllum sínum verkum í framhaldinu. Því er öðru nær hjá núverandi ríkisstjórn.
Áætlunin sem unnið er eftir í dag er frá árinu 2020, en frá því að hún var samin hefur ýmislegt breyst – eitt stykki kosningar og nýr stjórnarsáttmáli þar sem ríkisstjórnin sagðist ætla að auka metnað úr 40% samdrátt í losun upp í sjálfstætt markmið um 55% samdrátt. Þingmenn Pírata hafa ítrekað reynt að fá ríkisstjórnina til að sýna á spilin hvað þessi meinti aukni metnaður þýðir, en allt kemur fyrir ekki. Ekkert í fjárlagavinnunni bendir til aukningar, á yfirstandandi ári er þvert á móti beinlínis lækkun upp á 1,7 milljarða til loftslagsmála.
Forysta og metnaður eru forsenda árangurs
Umhverfisráðherra hefur vísað frá sér pólitískri forystu á því að stýra loftslagsstefnu Íslands, því verkefni var útvistað til ólíkra geira atvinnulífsins sem áttu að setja sér sín markmið. Og allt gerist á hraða snigilsins, því eins og ráðherrann benti á í svari við skriflegri fyrirspurn um daginn, þá er honum ekki skylt að uppfæra áætlunina nema á fjögurra ára fresti og hann virðist ætla að fullnýta alla þá möguleika sem hann getur til að gera eins lítið og hann kemst upp með, eins seint og hægt er.
„Umhverfisráðherra hefur vísað frá sér pólitískri forystu á því að stýra loftslagsstefnu Íslands“
Á sama tíma og beðið er eftir því að stjórnvöld taki við sér stefnir í að samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda verði aðeins 29% fyrir árið 2030 miðað við útreikninga Umhverfisstofnunar – sem er víðs fjarri þeim 55% samdrætti sem talað er um í stjórnarsáttmála. Það er ekki boðlegt að framtíðinni sé teflt svona í voða með því að hleypa afturhaldsöflum að valdastólum. Til að tryggja varanlegri metnað lögðu Píratar fram frumvarp í vetur sem lögfestir markmiðin og skuldbindur stjórnvöld til aðgerða í loftslagsmálum. Þannig má stíga nær því að tryggja árangursríkar aðgerðir í loftslagsmálum, óháð því hvort metnaður ríkisstjórnar sveiflist til eftir pólitískri samsetningu hennar hverju sinni.
Einblínt á of fáar lausnir
Þegar litið er í verkfærakistu ríkisstjórnarinnar gegn loftslagsbreytingum er þar fátt að finna. Helst hefur hún fundið sig í því að styðja fólk til kaupa á rafbílum, svo efnameira fólk geti tekið þátt í orkuskiptum. Til þess hafa stjórnvöld stutt fólk ríkulega, fyrst með niðurfellingu á virðisaukaskatti og frá áramótum með beinum styrkjum. Þegar litið er á fjárframlög til loftslagsmála hefur þetta verið langstærsta aðgerð ríkisstjórnarinnar, í síðustu fjárlögum var hún áætluð tæpir 13 milljarðar króna.
Samhliða því að breyta ívilnanakerfi fyrir rafbíla var stuðningur til þess hluta orkuskiptanna lækkaður um nærri 5 milljarða. Auk þess var sett kílómetragjald á notkun rafbíla, þannig að verulega dró úr fjárhagslega hvatanum fyrir fólk að taka stökkið. Það var tímabært að endurskoða stuðning við rafbíla, enda hefur hann langmest runnið til efnameiri hluta samfélagsins. Þingmenn Pírata lögðu til að nota þessa fjármuni áfram í þágu loftslagsmála, í nýjar aðgerðir sem myndu ná betur til fleiri þjóðfélagshópa og auka árangur, en í staðinn ákvað stjórnarmeirihlutinn einfaldlega að draga seglin saman sem því nemur.
„Það lýsir hins vegar hugmynda- og framtaksleysi ríkisstjórnarinnar vel að með breytingum á stuðningi við rafbíla missti hún af dauðafæri til að vinna betur í þágu almennings“
Almenningur vill leggjast á árarnar
Góðar viðtökur á ívilnunum til rafbíla sýna skýrt að almenningur er til í að taka við sér. Það lýsir hins vegar hugmynda- og framtaksleysi ríkisstjórnarinnar vel að með breytingum á stuðningi við rafbíla missti hún af dauðafæri til að vinna betur í þágu almennings. Fjármunina hefði mátt nýta til að ná til breiðari hóps með nýjum aðgerðum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, aðgerðum sem virkja þennan mikla vilja almennings til breytinga og hefðu ekki bara skilað samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda heldur líka réttlátara og betra samfélagi.
Ástæðan er tvíþætt. Annars vegar virðist stjórnarflokkunum vera eðlislægt að grípa frekar til aðgerða sem þjóna hinum efnameiri. Hins vegar er þeim ómögulegt að gera raunverulegar kerfisbreytingar – þau ráða við að skipta um mótorinn í bílum, en ekki að breyta samgöngukerfinu í grundvallaratriðum. Hreinorkubílar eru hluti af lausninni, en ef við lítum á hvaða aðgerðir skila mestum árangri miðað við kostnað hins opinbera þá er best að fá fólk út úr bílum og yfir í strætó, á reiðhjól eða til að ganga. Það eru ekki einungis góðar loftslagsaðgerðir heldur nýtast þær fólki óháð efnahag, fólki af ólíkum aldri og þær leyfa yfirvöldum að hanna öruggara og skemmtilegra umhverfi í þéttbýli.
Einfaldar lausnir virka
Þannig tókst vel til þegar ákveðið var að fella niður virðisaukaskatt af hjólum og rafhjólum árið 2019. Aðgerðin skilaði svo miklum árangri að mætti helst tala um reiðhjólabyltingu en til dæmis var aukning á innflutningi rafhjóla 45% árin 2019–2022. Þrátt fyrir að þessi loftslagsaðgerð væri augljóslega að skila miklum árangri lagði ríkisstjórnin til að stöðva þennan stuðning í tengslum við síðustu fjárlög. Hér þurftu þingmenn Pírata að taka slaginn inni á þingi fyrir jól og tókst að láta framlengja stuðninginn um eitt ár. Nú þarf að stíga skref áfram, auka þennan stuðning þannig að enn fleiri nýti sér hjól sem samgöngutæki.
Það eru oft litlu og einföldu aðgerðirnar sem skila mestum árangri. Núverandi hagkerfi er stillt þannig upp að það vinnur gegn náttúrunni. Því höfum við lagt til ýmsa hvata sem færa okkur nær hringrásarhagkerfi, nær eðlilegri tengingu samfélags og náttúru. Sem dæmi má nefna nýlegt frumvarp okkar um hringrásarstyrki til einstaklinga svo verði hagstæðara að láta gera við frekar en að kaupa ný raftæki, föt, skó og annað sem annars færi á haugana.
Ljóst er að það stendur hvorki á almenningi né Pírötum að leggja baráttunni við loftslagsvá og vernd náttúrunnar lið, sú barátta strandar því miður á viljaleysi ríkisstjórnarinnar. Sem betur fer styttist brátt í kosningar og vonandi verða þær sem fyrst, náttúrunnar vegna.