Menntastefna Pírata
Öflugt menntakerfi er grunnstoð lýðræðisins
Menntastefna Pírata byggir á framtíðarsýn um jafnræði, einstaklingsmiðað nám og samvinnu. Við viljum skapa börnum tækifæri og stökkpall til lýðræðisþátttöku til að stuðla að heilbrigðu og skapandi lýðræðissamfélagi þar sem hver einstaklingur fær tækifæri til að þroskast í samræmi við eigin áhuga og styrkleika. Með áherslu á þverfaglegt nám, verkefnamiðað námsmat, heildræna nálgun á samfélagið og andlega og líkamlega vellíðan nemenda mun menntakerfið ekki aðeins styrkja einstaklingsbundna þekkingu heldur einnig sjálfstraust og ábyrgð til að takast á við áskoranir framtíðar.
Píratar ætla að
Leggja áherslu á nám á einstaklingsmiðuðum forsendum.
Efla þekkingu, gagnrýna hugsun og upplýsingalæsi.
Stuðla að heildrænni nálgun og þverfaglegu námi.
Tryggja jafnan rétt allra til náms.
Valdefla nemendur og auka þátttöku þeirra í námsferlinu.
Auka aðgengi að námsgögnum og tæknilausnum fyrir alla.
Byggja upp skólakerfi sem styrkir heilsu og vellíðan.
Leggja áherslu á öryggi gegn ofbeldi og áreitni.
Styðja við kennara sem fagfólk.
Efla lýðræðislega þátttöku og ábyrgð.
Stuðla að framtíðarsýn og langtímaáætlunum.
Nám á einstaklingsmiðuðum forsendum
Menntakerfið skal miða að því að styrkja hæfileika, áhuga og styrkleika hvers nemanda. Kennsluhættir skulu vera sveigjanlegir og aðlagaðir að fjölbreyttum námsþörfum, að allir nemendur fái tækifæri til að vaxa og dafna á eigin forsendum, óháð aldri, uppruna eða bakgrunni.
Þekking, gagnrýnin hugsun og upplýsingalæsi
Píratar vilja að skólar leggi ríka áherslu á þjálfun í gagnrýnni hugsun, vísindalegri aðferðafræði og upplýsingalæsi. Nemendur skulu fá stuðning til að meta upplýsingar sjálfstætt, skynja áhrif fjölmiðla og greina gæði heimilda. Markmiðið er að nemendur verði virkir og upplýstir þátttakendur í lýðræðissamfélagi.
Heildræn nálgun og þverfaglegt nám
Kennsla skal byggjast á þverfaglegum grunni þar sem tengsl milli námsgreina eru skoðuð og þróuð í samhengi og þar sem áhersla er á samvinnu. Námið skal einnig byggja á raunverulegum verkefnum sem tengjast samfélagslegum áskorunum, svo sem sjálfbærni, lýðræði og félagslegu réttlæti.
Jafnrétti til náms
Píratar vilja menntakerfi sem er aðgengilegt fyrir alla, óháð efnahag, fötlun, búsetu eða öðrum ytri þáttum. Jafnrétti til náms skal tryggt með stuðningi, hvort sem er í formi fjarnámslausna, fjárhagsaðstoðar eða tækni til að mæta fjölbreyttum námsþörfum. Haldið skal áfram í þá átt að færa okkur úr námslánakerfi yfir í styrkjakerfi og stúdentum skal tryggð viðeigandi framfærsla sem tekur mið af raunverulegum aðstæðum námsfólks.
Valdefling og þátttaka í námsferlinu
Auka skal frelsi nemenda og að þeir beri ábyrgð á eigin námi og fái tækifæri til að hafa áhrif á námsval og verkefni. Nemendur á öllum aldri skulu vera virkir þátttakendur í ákvörðunum sem varða þeirra nám og hafa möguleika á að læra á eigin hraða og kanna þau svið sem vekja áhuga þeirra.
Opinn aðgangur og tæknilausnir fyrir alla
Píratar vilja efla námsgagnagerð og tryggja að námsgögn séu aðgengileg á opnum og rafrænum vettvangi, að nám sé ekki háð fjárhagslegum aðstæðum nemenda. Skólar skulu notast við opinn hugbúnað eins og hægt er og stuðla þannig að því að nemendur og kennarar fái frelsi til að vinna með námsefni sem er hagkvæmt, sveigjanlegt og aðgengilegt.
Skólakerfi sem styrkir heilsu og vellíðan
Menntakerfið skal leggja áherslu á líkamlega, andlega og félagslega heilsu nemenda. Skólarnir skulu tryggja aðgengi kennara og nemenda að ráðgjöf og þjónustu sem eykur vægi þessara þátta innan menntakerfisins, auk þess að stuðlað sé að góðum svefnvenjum og skólatíma.
Öryggi gegn ofbeldi og áreitni
Skólar skulu tryggja að til staðar séu verkferlar til að fást við úrlausn ágreiningsmála og að í öllum skólum séu virkar viðbragðsáætlanir við einelti. Samhliða þessu þarf að styrkja samstarf milli heimilis og skóla.
Stuðningur við kennara sem fagfólk
Kennarar skulu fá sveigjanlegt starfsumhverfi og stuðning til að þróa eigin kennsluhætti. Að þeir hafi möguleika á að vinna saman að þróun og skipulagi náms, þar sem samvinna, starfsþróun og aðgengi að viðeigandi tækni og tólum er tryggt. Verðmætið sem felst í störfum kennara skal viðurkennt þannig að laun og önnur kjör endurspegli samfélagslegt mikilvægi þeirra.
Lýðræðisleg þátttaka og ábyrgð
Menntakerfið skal stuðla að virkri þátttöku nemenda, foreldra og kennara í ákvarðanatöku um skólastarfið. Lýðræði, gagnsæi og jafnrétti skulu vera leiðarljós í stefnumótun og skipulagi menntakerfisins, þar sem allir hafa rödd og bera ábyrgð á því að móta skólaumhverfið.
Framtíðarsýn og langtímaáætlun
Setja skal fram skýra framtíðarsýn fyrir menntakerfið sem samræmist sjálfbærni, nýsköpun og samfélagslegum þörfum. Skólakerfið skal þróa langtímaáætlanir í takt við framfarir í tækni, vísindum og samfélagsþróun, sem endurskoðaðar eru reglulega og áhersla lögð á sveigjanleika. Lögfesta skal leikskóla og umgjörð sköpuð svo hægt sé að bjóða upp á leikskólapláss að loknu fæðingarorlofi.