Menningar- og listastefna Pírata

Aðgengi að menningu er næring fyrir sálina og lýðræðið

List speglar samfélagið og er virkt afl í mótun þess. List speglar ekki aðeins raunveruleikann heldur er hún virkt afl í mótun hans, og því geta birtingarmyndir á einsleitri ímynd Íslands í listum verið útilokandi fyrir stóran hóp Íslendinga og ýtt undir hamlandi staðalímyndir. Píratar telja mikilvægt að líta á menningu og skapandi greinar sem eina af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar, og sem efnahagslega og samfélagslega fjárfestingu fyrir framtíðina en ekki sem kostnað líðandi stundar.

Jafnræði, fagmennska, gagnsæi og sjálfbærni verða að vera í fyrirrúmi til að tryggja heilbrigt listalíf framtíðarinnar.

Píratar ætla að

  • Leggja áherslu á listmenntun barna og fullorðinna.

  • Hampa barnamenningu eins og auðið er.

  • Tryggja Listaháskóla Íslands nýtt og betra húsnæði.

  • Auka aðgengi að listum og menningu óháð efnahag eða stöðu og búsetu.

  • Auka sýnileika og þátttöku fatlaðs fólks, fólks af erlendum uppruna og fjölbreyttra hópa óháð stétt og stöðu í list og menningu.

  • Styðja vel við menningarstofnanir og skapa þeim rekstrarlegan fyrirsjáanleika.

  • Standa með íslenskri kvikmyndalist, Kvikmyndamiðstöð og endurgreiðslum til kvikmyndagerðar.

  • Vinna gegn miðstéttarvæðingu (e. gentrification), standa með jaðarhópum og styðja við minni tónleikastaði.

  • Styðja listamannalaun og aðgengi að styrkjum og tækifærum fyrir listafólk.

  • Hlúa að varðveislu menningararfsins og styðja við rannsóknir á honum.

  • Leggja áherslu á umhverfisvæna list.

Efling listmenntunar

Listmenntun leikur lykilhlutverk í að rækta gagnrýna hugsun, lestrarskilning, greiningarhæfni og almennt læsi barna og fullorðinna á samfélagið. Mikilvægt er að einstaklingar fái grunnskilning í listrænum aðferðum líkt og hljóðfæraleik, leiktúlkun eða sjálfbærinni hönnun. Aðgangur einstaklinga að listmenntun eins og ritlist og menningarstofnunum eins og leikhúsum er einnig uppistaðan í varðveislu og þróun íslenskrar tungu. Aðgengi einstaklinga að listmenntun á ekki að vera skert vegna samfélagslegrar stöðu eða uppruna.

Tryggja Listaháskóla Íslands nýtt og betra húsnæði og nægt fjármagn

Listaháskóli Íslands á að vera mótandi afl í listalífi landsins en hefur löngum verið fjársveltur og í óviðunandi húsnæði. Píratar vilja beita sér fyrir að staðið sé að flutningi skólans í nýtt og betra húsnæði hratt og örugglega sem og fullnægjandi fjármögnun Listaháskólans.

Aukið aðgengi að listum og menningu

Píratar vilja auka aðgengi að listum, sér í lagi þeirra hópa sem hingað til hafa ekki átt greiðan aðgang að listmenntun og störfum innan listgreina. Það eru mannréttindi að stunda listir og Píratar vilja tryggja almennt aðgengi að listum og listnámi á öllum menntastigum óháð efnahag, búsetu, uppruna, líkamsgetu eða annarra þátta. Aðgengi að menningu er mannréttindi og því þarf að ná miðaverði á listviðburðum niður.

Auka sýnileika listar og menningar

Aukinn sýnileiki og fjölbreyttar birtingarmyndir ólíkra hópa í listsköpun snýst um jafnrétti og réttlæti í lýðræðissamfélagi. Liststofnanir eiga að endurspegla félagslegan og menningarlegan fjölbreytileika samfélagsins og vilja Píratar styðja við þá vegferð.

Styðja vel við menningarstofnanir og skapa þeim rekstrarlegan fyrirsjáanleika

Tryggja þarf góð rekstrarskilyrði og rekstrarlegan fyrirsjáanleika fyrir menningarstofnanir sem ríkið veitir fjármagn til og skipta sköpum fyrir samfélagið. Einnig er mikilvægt að styðja við sjálfstæðu listasenuna til að hlúa að grasrótinni, nýliðun og listrænni fjölbreytni. Píratar standa með list og menningu og tækifærum nemenda, barna og fullorðinna til að fá að njóta.

Standa með íslenskri kvikmyndalist, Kvikmyndamiðstöð og endurgreiðslum til kvikmyndagerðar

Píratar vilja blómlega  íslenska kvikmyndagerð. Kvikmyndamiðstöð er mikilvæg lykilstofnun þegar kemur að stuðningi við íslenska kvikmyndalist og endurgreiðslur til kvikmyndagerðar. Hún hefur stutt við uppbyggingu mikilvægra innviða fyrir kvikmyndagerð sem hefur skapað samfélaginu mikil verðmæti.

Standa með jaðarhópum á miðstéttarvæddum svæðum (e. gentrification)

Algeng þróun þéttbýliskjarna er í átt að miðstéttarvæðingu með lýðfræðilegri breytingu hverfa og sjáum við teikn á lofti hvað þetta varðar í miðborg Reykjavíkur. Í slíkri þróun er algengt að auðmagnið ýti menningarlegu auðmagni út. Píratar standa fyrir þeirri viðleitni að standa gegn þeim þrýstingi og gera jaðarhópum og efnaminni aðilum í lista- og menningarstarfsemi kleift að starfa innan svæðisins. Ein leið er að styðja við minni tónleikastaði sem hafa verið á undanhaldi innan miðborgarinnar.

Aukinn aðgangur að list á landsbyggðinni

Efla þarf listmenntun og listsköpun á landsbyggðinni og því þarf að styðja við núverandi stofnanir og bæta aðstöðu þeirra. Veita þarf auknu fjármagni til listrænna verkefna sem virkja samfélög á landsbyggðinni. Bæta þarf aðgengi ungmenna og fullorðinna utan höfuðborgarsvæðisins að framhaldsnámi í hljóðfæraleik svo þau standi ekki hallandi fæti í samkeppni við nema af höfuðborgarsvæðinu. Einnig þarf að aðstoða Listaháskólann við að ná til nemenda á landsbyggðinni til dæmis með ferðastyrkjum fyrir inntökupróf og fjármögnun kynninga á námi skólans.

Aukin þátttaka listafólks af erlendum uppruna

Píratar vilja beita sér fyrir aukinni þátttöku listafólks af erlendum uppruna í listnámi og lista- og menningarstarfi. Þá eru Píratar fylgjandi því að listamenn utan Evrópu, bæði þau sem hafa stundað nám á Íslandi og önnur, geti sótt um listamanna-visa á Íslandi eins og tíðkast í öðrum löndum. Þá þarf að stórauka sýnileika fólks sem hefur annað móðurmál en íslensku í liststofnunum eins og leikhúsunum og fjölmiðlum eins og Ríkisútvarpinu.

Listamannalaun og betri styrkir og kjör fyrir listafólk

Styrkjakerfin sem sjálfstætt listafólk reiðir sig á í dag þarf að endurhugsa frá grunni. Endurskoða þarf styrkjakerfin með hliðsjón af öðrum Norðurlöndum, til dæmis hvernig Noregur hefur útfært sína langtímastyrki. Auk þess vilja Píratar tryggja nýliðunarstyrki til ungs listafólks og standa með listamannalaunum.

Hlúa að varðveislu menningararfsins og koma Vísindasafni á laggirnar

Píratar telja að hlúa þurfi að söfnum og safnastarfi sem varðveita menningararf og miðla sögu þjóðarinnar til að gera þeim kleift að miðla safnkosti sínum með stafrænum hætti til að stuðla að auknu aðgengi almennings. Píratar vilja koma Vísindasafni á laggirnar og auka fé í sjóðum, svo sem í Fornminjasjóði og Safnasjóði, til þess að auka rannsóknir á menningararfinum. Slíkt styrktarfé er einnig grunnskilyrði fyrir menntun nýrra starfkrafta og styðja við innlent hugvit.

Umhverfisvæn list

Umhverfisleg sjálfbærni og hringrásarhagkerfi skulu vera í fyrirrúmi í listframleiðslu. Það skal meðal annars gert með stuðningi við grænar lausnir, stefnumótun og fræðslu. Veita skal styrki til sjálfbærra verkefna í listum og hönnun. Stofnanir skulu setja sér umhverfisstefnu og aðgerðaáætlun. Koma skal á fót umhverfisstyrkjum til verkefna sem hafa sérstaklega í huga nýjar umhverfisvænar leiðir í listum og hönnun.