Lýðræðis- og mannréttindastefna

Píratafáni reistur, en þó ekki okkar.

Hin Píratalega aðferð

Gagnsæi, öflugt réttarríki, upplýst ákvarðanataka og verndun mannréttinda eru grunnforsendur fyrir heilbrigðu lýðræðisríki. Píratar vilja ekki að almenningur þurfi að treysta þeim sem valdið hafa í blindni heldur gera þeim kleift að fylgjast með, taka þátt og veita virkt aðhald. Öflugt réttarríki er mikilvæg forsenda fyrir stöðugu efnahagslífi og blómlegu atvinnulífi. Ef spilling og mismunun fá að þrífast í stjórnkerfinu fælir það fjárfesta og frumkvöðla frá þátttöku í samfélaginu. Virk verndun mannréttinda er grundvallarforsenda lýðræðisríkis þar sem borgarar búa við frelsi og öryggi.

Manneskja steitir hnefa á loft með sólina að baki.

Áherslur Pírata á lýðræði, gagnsæi, mannréttindi og réttarríki

Stjórnmálafólk Pírata leggur ríka áherslu á samráð. Hlusta þarf á þau sem þekkja málin best og afla sérfræðiþekkingar og gagna áður en ákvarðanir eru teknar. Píratar vilja efla aðkomu almennings að ákvarðanatöku og leggja áherslu á fólkið – hugmyndir þess, velferð og valdeflingu. Á þessum grunni leggja Píratar áherslu á gott aðgengi að gögnum og upplýsingum, öflugt samráð og virka lýðræðisferla. Píratar vilja nýja stjórnarskrá sem byggir á tillögum Stjórnlagaráðs, í fullu samráði við almenning og sérfræðinga. 

Neon-skilti sem kallar á breytingar rétt eins og Píratar

Píratar ætla að

  • Samþykkja nýja, uppfærða stjórnarskrá.

  • Tryggja aukið gagnsæi og upplýsta ákvarðanatöku.

  • Styðja við lýðræðisleg vinnubrögð innan stjórnsýslunnar.

  • Halda borgaraþing.

  • Efla réttarríkið með Lögréttu og aðgengilegra dómskerfi.

  • Styðja betur við frjálsa fjölmiðla og blaðamenn.

Lagabækur liggja á skrifborði

Ný stjórnarskrá

Píratar vilja nýja stjórnarskrá Íslands á næsta kjörtímabili. Sú stjórnarskrá skal byggja á grundvelli tillagna Stjórnlagaráðs og þeim ábendingum sem fram hafa komið síðan þá. Allar viðbætur eða breytingar á fyrirliggjandi frumvarpi yrðu gerðar í víðtæku samráði við almenning og sérfræðinga, til dæmis með borgaraþingi eða öðrum þjóðfundi.

Gleraugu sem eru skyggð af regnvatni.

Tryggjum gagnsæi og upplýsta ákvarðanatöku

Píratar vilja aðhald með valdi, bæði opinberu valdi og peningavaldi. Gagnsæi í opinberri stjórnsýslu tryggir að stjórnvöld starfi í þágu almennings og sýni ábyrgð gagnvart honum. Krafa um gagnsæi á almenn fyrirtæki, hluthafaskrár og ársreikninga skapar heilbrigðan og réttlátan markað, þar sem hagsmunir bæði fjárfesta og samfélagsins í heild eru tryggðir. 

Eflum frjálsa fjölmiðlun

Píratar vita að frjálsir og óháðir fjölmiðlar gegna lykilhlutverki í lýðræðissamfélagi. Hlutverk fjölmiðla er að veita stjórnvöldum, stórfyrirtækjum og hagsmunaaðilum aðhald og upplýsa almenning um samfélagið og áskoranir þess. Píratar ætla að auka styrki til óháðra fjölmiðla og koma á fót sérstökum rannsóknarsjóðum fyrir fjölmiðlafólk til þess að stunda rannsóknarblaðamennsku. Efla þarf réttarvernd fjölmiðlafólks til að hindra að það búi við fjárhagslega ógn eða jafnvel hótanir og kúgun vegna starfa sinna í þágu almennings. Stefnt skal að því að koma Íslandi í fremstu röð ríkja í mælingum á fjölmiðlafrelsi.

Manneskja labbar frá okkur með leðurskjalatösku.

Aukum lýðræðisleg vinnubrögð stjórnsýslunnar

Píratar vita að öflugt samráð við stefnumörkun og þróun laga og regluverks eykur gæði þeirra. Því þarf að innleiða reglubundið samráð stofnana við notendur. Þjónusta hins opinbera þarf að vera á forsendum almennings og sýna næmni gagnvart þörfum íbúa. Píratar vilja að málin sem hefðbundin stjórnmál geti ekki leyst verði sett í farveg borgaraþinga. Þannig drögum við málin upp úr pólitískum skotgröfum. Borgaraþing er sérstök stjórnmálaleg aðferð notuð til að leysa úr viðkvæmum eða flóknum málum sem varða grundvallarmál samfélagsins. Borgaraþing Reykjavíkur hafa þegar verið innleidd undir stjórn Pírata. Fyrstu málin sem gætu farið á slíkt þing á vettvangi landsmálanna væru til dæmis ný stjórnarskrá, aðildarviðræður við Evrópusambandið og aðgerðir í loftslagsmálum.

Stytta af ungfrú réttlæti - sem vigtar blindandi.

Eflum réttarríkið

Öflugt réttarríki tryggir að öll séum við jöfn fyrir lögum og sitjum við sama borð gagnvart dómstólum og framkvæmdarvaldinu. Réttarríkið á að vernda réttindi borgaranna gagnvart yfirgangi valdhafa og tryggja aðgengi að dómstólum og öðrum réttarúrræðum þegar brotið er á réttindum fólks. 

Öflugt réttarríki tryggir blómlega fjárfestingu og heilbrigða samkeppni á meðan veikt réttarríki eykur spillingu og sjálftöku. Píratar munu efla stofnanir sem hafa eftirlit með hagsmunum almennings, svo sem Samkeppniseftirlitið og Umboðsmann Alþingis, og koma á fót sérstakri stofnun sem rannsakar spillingu til að taka hana föstum tökum. 

Píratar ætla að  aðskilja eftirlit með störfum lögreglu frá framkvæmdarvaldinu og efla fræðslu gagnvart almenningi um réttindi sín í réttarríki. Auka þarf aðgengi almennings að réttarkerfinu, til dæmis með gjaldfrjálsum smákröfudómstól og rýmri skilyrðum til gjafsóknar.

Píratar vilja setja á fót Lögréttu sem tryggir gæði lagasetningar og til að samræma lög að stjórnarskrá Íslands. Hlutverk Lögréttu verður að veita ráðgefandi álit á því hvort lagafrumvörp standist stjórnarskrá og samræmist þjóðréttarlegum skuldbindingum ríkisins.