Lög Pírata
Lög Pírata
1. Heiti
1.1. Nafn félagsins er Píratar. Aðsetur þess og varnarþing skal vera í Reykjavík.
1.2. Ensk þýðing á heiti félagsins er Pirate Party Iceland. Nota má hana sem hjáheiti.
1.3. Skammstöfun félagsins er PP-IS.
2. Hlutverk
2.1. Félagið er stjórnmálaflokkur.
2.2. Félagið mótar sér stefnu með opnu ferli og vinnur að framgöngu hennar með þeim aðferðum sem því standa til boða.
3. Félagsmenn
3.1. Hver sem er 15 ára á árinu eða eldri getur fengið fulla aðild að félaginu.
3.2. Félagatal skal teljast til viðkvæmra persónuupplýsinga og skal meðhöndlun þess vera í samræmi við landslög. Aðildarfélög skulu eiga rétt á afriti af félagatali sínu gegn undirritun lagalega bindandi yfirlýsingar af hálfu stjórnarmanna þess um að það verði einvörðungu notað vegna starfa innan aðildarfélagsins í samræmi við lög þessi og landslög. Framkvæmdastjórn er þó rétt og skylt að sjá til þess að listi yfir trúnaðarmenn félagsins og aðildarfélaga sé aðgengilegur almenningi.
3.3. Félagar mega vera skráðir með dulnefni í félagatali.
3.4. Inntökubeiðnir í félagið, sem og úrsagnir skulu fara fram skriflega eða með rafrænum hætti.
3.5. Þeir sem vilja ganga í félagið skulu auðkenna sig með aðferð sem ákveðin er af framkvæmdastjórn.
3.6. Skráningar og úrsagnir skulu gilda frá tímasetningu staðfestingar á móttöku.
3.7. Ákveða má félagsgjöld á aðalfundi.
3.8. Eingöngu félagsmenn mega gegna trúnaðarstöðum innan félagsins og aðildarfélaga. Nú hefur félagsmaður sagt sig úr Pírötum og fellur þá umboð hans til að gegna trúnaðarstöðum innan Pírata og aðildarfélaga þess sjálfkrafa úr gildi. Sama gildir ef félagsmaður gegnir á sama tíma, samkvæmt hans samþykki, trúnaðarstöðum hjá öðrum stjórnmálaflokki. Til trúnaðarstaða telst seta í stjórnum, nefndum, ráðum eða aðrar stöður þar sem einstaklingi er treyst, stöðu sinnar vegna, fyrir upplýsingum og/eða ákvarðanatöku sem er ekki í boði fyrir almenna félagsmenn þess sama félags. Framangreind umboð falla ekki sjálfkrafa niður ef félagið er bersýnilega stofnað í þeim tilgangi að gerast aðildarfélag Pírata og tekst það innan fjögurra mánaða frá stofnun þess. Aðildarfélög skulu sjá til þess að framkvæmdastjórn sé upplýst um það hvaða trúnaðarstöður eru hjá því og hverjir gegna þeim.
3.9. Launað starfsfólk félagsins er undanþegið kröfu um félagsaðild. Allt starfsfólk félagsins skal skrifa undir trúnaðaryfirlýsingu.
3.10. Allt starf Pírata skal vera laust við mismunun, einelti, áreitni, þar á meðal kynferðislega áreitni og kynbundna áreitni, og ofbeldi, og er slíkt framferði brotlegt. Félagsmenn samþykkja í þeim tilgangi verklagsreglur sem gilda fyrir félagið og aðildarfélög þess.
4. Aðalfundur
4.1. Aðalfund skal halda á hverju ári, fyrir lok septembermánaðar og telst fundurinn einnig vera almennur félagsfundur.
4.2. Á aðalfundi er mörkuð stefna félagsins og teknar ákvarðanir um starf þess, skipulag og fjárreiður.
4.3. Boða skal til aðalfundar með þriggja vikna fyrirvara og með öruggum hætti.
4.4. Framkvæmdastjórn hefur heimild til að fresta aðalfundi eða aukaaðalfundi um viku frá auglýstri dagsetningu, en aðeins í eitt skipti.
4.5. Á félagsfundi samkvæmt 5. kafla er hægt að leggja fram tillögu um að boða til auka-aðalfundar. Slík tillaga skal koma fram í fundarboði. Sé hún samþykkt á félagsfundinum skal hún sett í kosningu í kosningakerfi Pírata til samþykktar eða synjunar. Sé hún samþykkt með að minnsta kosti ⅔ atkvæða í kosningakerfi Pírata er framkvæmdastjórn skylt að boða auka-aðalfund eins fljótt og mögulegt er. Framkvæmdastjórn hefur einnig sjálfstæða heimild til að boða til auka-aðalfundar.
Á auka-aðalfundi er ekki skylt að taka á dagskrá alla þá liði sem lög þessi segja fyrir um á aðalfundi. Hafi tillaga um boðun auka-aðalfundar innifalið skilyrði um dagskrá fundarins skal ráðið þó fylgja þeim.
4.6. Framkvæmdastjórn skipuleggur dagskrá aðalfundar.
4.7 Fundargögn aðalfundar skulu afhent félagsmönnum með rafrænum hætti samhliða fundarboði. Verði fundargögn til eftir að boðað er til fundar skal afhenda félagsmönnum uppfærðan fundarboðspakka minnst þremur sólarhringum fyrir aðalfund.
4.8. Ársskýrsla félagsins og ársreikningur fylgja öðrum fundargögnum.
4.9. Allir félagsmenn sem skráðir eru 30 dögum fyrir aðalfund hafa aðgang að honum. Allir félagsmenn skulu hafa möguleika á aðgangi að streymi af fundinum og/eða upptöku af honum. Mættum félagsmönnum skal gert ljóst að upptökur af fundinum verða gerðar opinberar um ókominn tíma.
4.10. Á aðalfundi skal fara fram kosning í framkvæmdastjórn og stefnu- og málefnanefnd, sem og kjör gjaldkera framkvæmdastjórnar, eins og nánar er kveðið á um í 7. kafla.
4.11. Á aðalfundi félagsins skal kjósa endurskoðunarfyrirtæki eða löggiltan endurskoðanda skv. tillögu framkæmdastjórnar. Einnig skal kjósa tvo skoðunarmenn reikninga með STV-forgangskosningu.
4.12. Kjörstjórn tekur við framboðum í öll embætti og tryggir að allir frambjóðendur fái sanngjarna kynningu.
4.13. Frambjóðendur í embætti skulu skila inn hagsmunaskráningu til kjörstjórnar, einni viku fyrir aðalfund.
4.14. Hagsmunaskráningar eru birtar á vefsíðu félagsins.
4.15. Nánari reglur um hagsmunaskráningu skulu útfærðar af framkvæmdastjórn og háðar samþykki samkvæmt kosningu í rafrænu kosningakerfi Pírata, er skal standa í sjö sólarhringa. Sé engum slíkum reglum að dreifa er hagsmunaskráning yfirlýsing viðkomandi þar sem hann lýsir helstu hagsmunum sínum þá stundina.
4.16. Annað hvert ár skal á aðalfundi kjósa þriggja manna kjörstjórn og þrjá til vara sem tekur til starfa að loknum aðalfundi og þar til næsta kjörstjórn tekur við. Fulltrúinn sem hlýtur besta kosningu skal vera formaður nema kjörstjórn ákveði annað. Kjörstjórn ber ábyrgð á framkvæmd prófkjara og kosninga í stjórnir, nefndir og ráð sem kveðið er á um í 7. kafla laga þessara, ásamt öðrum hlutverkum sem henni er falið með lögum. Kjörstjórn setur sér starfsreglur innan mánaðar frá því að hún nær kjöri þar sem fram koma skilyrði um hæfi og verklagsreglur við undirbúning kosninga.
Aðili í kjörstjórn sem hyggst taka þátt í kosningum eða prófkjöri sem kjörstjórn ber ábyrgð á að framkvæma skal upplýsa kjörstjórn um það og víkja sæti þegar kjörstjórn tekur þá kosningu fyrir, og kemur þá varamaður í hans stað. Framkvæmdastjóri Pírata er kjörstjórn innan handar við störf sín. Kjörstjórn er heimilt að tilnefna aðila til þess að aðstoða við framkvæmd prófkjöra eða kosninga að því tilskildu að viðkomandi séu ekki í framboði í þeim kosningum eða prófkjöri sem um ræðir.
5. Fundahald (félagsfundir)
5.1. Fundir félagsins skulu að jafnaði vera opnir öllum.
5.2. Allir hafa málfrelsi á fundum.
5.3. Fundarmenn geta lagt fram tillögur á fundum.
5.4. Kosningar á fundum skulu að jafnaði fara fram með handauppréttingu.
5.5. Sé óskað eftir því má fundarstjóri ákveða að hafa atkvæðagreiðslur skriflegar eða rafrænar.
5.6. Sé óskað eftir því, og 5% fundarmanna en aldrei færri en þrír samþykkja það, skulu kosningar vera leynilegar.
5.7. Í kosningum á fundum eru ákvarðanir teknar með einföldum meirihluta.
5.8. Fundarsköp allra reglulegra ráða og nefnda á vegum Pírata skulu skilgreind og aðgengileg félagsmönnum. Liggi ekki fyrir skilgreind fundarsköp á fundi Pírata skal stuðst við Robert’s Rules of Order.
5.9. Boða skal til almennra félagsfunda með viku fyrirvara með óvefengjanlegum hætti.
6. Lög og stefnumál
6.1. Lög þessi eru öll lög félagsins, en þeim má aðeins breyta með ⅔ meirihluta greiddra atkvæða félagsmanna í kosningakerfi flokksins.
6.2. Samfara þessum lögum skal vera grunnstefnuskjal félagsins. Gilda sömu reglur um breytingar á grunnstefnu og á lögum.
6.3. Tillögur að breytingum á lögum eða grunnstefnu skulu liggja opinberlega fyrir á vettvangi flokksins minnst tveimur vikum áður en kosið skal um þær.
6.4. Stefnu má ákveða með einföldum meirihluta í gegnum rafræn kosningakerfi félagsins.
6.5. Stefna má aldrei ganga gegn grunnstefnu félagsins.
6.6. Stefna skal alltaf rökstudd og hafa tilvísun í fyrri ákvarðanir félagsins.
6.7. Með samþykki 5% fundarmanna á almennum félagsfundi, en lágmark þriggja, skal vísa tillögu að stefnu til rafrænna kosninga.
6.8. Að jafnaði skulu rafrænar kosningar standa yfir í 6 daga.
6.9. Sé þörf á skjótri ákvarðanatöku má leggja til, með samþykki stefnu- og málefnanefndar, hraðmeðferð á tillögu, en hún stendur þá yfir í sólarhring. Slíka ákvörðun þarf að staðfesta með hefðbundnum kosningum sem fara af stað samtímis. Skulu sérstök boð vera send til félagsmanna um að slík tillaga sé til kosningar. Þó þarf ekki staðfestingarkosningu til að staðfesta yfirlýsingu félagsins í samræmi við lög um upplýsingaráð, enda er þar ekki um lög eða stefnu félagsins að ræða.
6.10. Sérhver félagsmaður má stofna málefnahóp í kringum stefnumál. Tilkynna skal félagsmönnum um stofnun málefnahóps.
6.11. Öllum er heimilt að taka þátt í málefnahóp, fundir þeirra skulu alltaf vera opnir.
6.12. Málefnahópur skal velja sér ábyrgðarmann og fundarritara.
6.13. Málefnahópur skilar reglulega skýrslu til félagsmanna um störf sín, í það minnsta þegar starf hópsins lýkur.
7. Stjórn félagsins
Framkvæmdastjórn
7.1. Framkvæmdastjórn annast almenna stjórn og rekstur félagsins að svo miklu leyti sem hún er ekki í höndum aðildarfélaga.
7.1.1. Í framkvæmdastjórn sitja fimm einstaklingar. Tveir eru almennir stjórnarmenn. Einn er svo formaður, annar er ritari og þriðji gjaldkeri. Á aðalfundi eru fjórir kjörnir í framkvæmdastjórn af röðuðum lista, ásamt tveimur til vara, og gjaldkeri er að jafnaði kjörinn sérstaklega á aðalfundi í einstaklingskjöri. Kjörtímabil allra í framkvæmdastjórn er tvö ár. Listakosning fer fram um tvo aðila og einn til vara annað hvert ár og kosning um gjaldkera fer fram á tveggja ára fresti.
7.1.2.1. Sá meðlimur framkvæmdastjórnar sem hlýtur besta listakosningu ( sbr. gr. 7.1.1) skal stýra störfum hennar sem formaður. Vilji sitjandi formaður sem er ennþá kjörgengur til stjórnar halda formannsstöðu sinni þegar kjör til stjórnar fer fram skal hann þannig taka þátt í listakosningu upp á hver hlýtur formannssætið en heldur stjórnarsæti sínu óháð því hvernig listinn raðast. Ef sá meðlimur sem vinnur listakosningar biðst undan, missir kjörgengi eða staða hans losnar af öðrum ástæðum, þá velur framkvæmdastjórnin sér formann úr sínum röðum fram að næsta aðalfundi eða auka-aðalfundi.
7.1.2.2. Framkvæmdastjórn kýs ritara úr sínum röðum og er sá aðili einnig varaformaður.
7.1.2.3. Biðjist gjaldkeri lausnar, missi hann kjörgengi eða staða hans losnar af öðrum sökum á miðju kjörtímabili kýs framkvæmdastjórn nýjan gjaldkera úr sínum röðum fram að næsta aðalfundi eða auka-aðalfundi. Hið sama gildir ef engin framboð berast til kjör gjaldkera.
7.1.3. Framkvæmdastjórn setur stefnu um rekstur félagsins.
7.1.4. Framkvæmdastjórn telst starfhæf þó meðlimum hennar fækki niður í allt að þrjá, en þó ávallt þannig að skipað sé í stöðu formanns, gjaldkera og ritara út frá þeim reglum um kjörgengi sem kveðið er á um í lögum þessum (sbr. gr. 7.8.1). Ef framkvæmdastjórn er ófær um að manna þessar þrjár stöður telst hún óstarfhæf og skal hún þá boða til auka-aðalfundar við fyrsta mögulega tækifæri þar sem kosið er um lausar stöður í framkvæmdastjórn og um stöðu gjaldkera sé hún laus.
Stefnu- og málefnanefnd
7.2. Stefnu- og málefnanefnd skal vera félagsfólki, kjörnum fulltrúum og nefndum, stjórnum, ráðum og aðildarfélögum Pírata til aðstoðar varðandi stefnumótun og málefnastarf innan flokksins. Þá getur hún haft frumkvæði að viðbrögðum við stóratburðum í samfélaginu, t.d. með skipulagningu viðburða og funda.
7.2.1. Í stefnu- og málefnanefnd sitja fimm einstaklingar sem kosnir eru beinni listakosningu á aðalfundi. Kjörtímabil þeirra er tvö ár. Sá meðlimur nefndarinnar sem hlýtur besta kosningu skal stýra störfum hennar sem formaður, nema viðkomandi biðjist undan eða sæti hans losnar af öðrum sökum, og skal stefnu- og málefnanefnd þá velja sér formann úr sínum röðum.
7.2.2. Stefnu- og málefnanefnd skipuleggur Pírataþing, sem haldin skulu tvisvar á ári.
7.2.3. Í aðdraganda kosninga starfar stefnu- og málefnanefnd með frambjóðendum við undirbúning kosninga.
7.2.4. Í aðdraganda alþingiskosninga skal stefnu- og málefnanefnd útbúa kosningastefnuskrá sem byggir á samþykktri stefnu flokksins að höfðu samráði við frambjóðendur. Kosningastefnuskrá skal samþykkt með atkvæðagreiðslu í rafrænu kosningakerfi flokksins.
7.2.5. Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga aðstoðar stefnu- og málefnanefnd aðildarfélög sem taka þátt í kosningum eftir þörfum.
7.2.6. Stefnu- málefnanefnd telst starfhæf þó meðlimum hennar fækki niður í allt að þrjá. Ef stefnu- og málefnanefnd er ófær um að manna þrjár stöður telst hún óstarfhæf og skal framkvæmdastjórn þá boða til auka-aðalfundar við fyrsta mögulega tækifæri þar sem kosið er um lausar stöður í stefnu- og málefnanefnd.
Gjaldkeri
7.3. Gjaldkeri ber ábyrgð á gerð fjárhagsáætlunar Pírata fyrir hönd framkvæmdastjórnar félagsins og í samstarfi við hana.
7.3.1. Gjaldkeri situr í framkvæmdastjórn en er kjörinn beinni kosningu á aðalfundi, sbr. gr. 7.1.1 og gr. 7.1.2.
7.3.2. Gjaldkeri skal leggja verklagsreglur til samþykktar í framkvæmdastjórn um fjármálaumsjón félagsins og stofnana þess. Í reglunum sé að lágmarki kveðið á um:
að tvöföld undirritun sé á reikningum,
að haldið sé vel um kvittanir og önnur bókhaldsgögn,
að bókhaldi sé skilað til framkvæmdastjórnar a.m.k. ársfjórðungslega,
að lögum félagsins um opið bókhald sé framfylgt og;
fjárveitingar til svæðisbundinna aðildarfélaga samkvæmt skilgreindri reikniaðferð í 11. kafla laganna.
7.3.3. Gjaldkeri hefur umsjón með eftirfylgni við verklagsreglur um fjármálaumsjón félagsins.
Samráðsvettvangur
7.4. Samráðsfundir skulu haldnir á þriggja mánaða fresti. Eftirfarandi skulu eiga að lágmarki eitt sæti á samráðsfundi:
Framkvæmdastjórn
Stefnu- og málefnanefnd
Kjördæmabundin aðildarfélög
Önnur aðildarfélög sem tilkynna um þátttöku
Þingflokkur
Fulltrúar úr hverri sveitarstjórn þar sem Píratar eiga fulltrúa
7.4.1. Framkvæmdastjóri sér til þess að samráðsfundir skuli haldnir og skal sitja þá.
7.4.2. Samráðsfundir skulu setja sér reglur um fundarsköp og ritun fundargerða.
Önnur ákvæði
7.5. Framkvæmdastjórn skal ráða framkvæmdastjóra til að annast daglegan rekstur Pírata. Framkvæmdastjóri ræður annað starfsfólk Pírata. Um störf framkvæmdastjóra og annars starfsfólks fer nánar samkvæmt 9. kafla.
7.6. Framkvæmdastjórn skal viðhafa reglubundið samráð við framkvæmdastjóra um fjármál og rekstur félagsins.
7.7. Framkvæmdastjórn og stefnu- og málefnanefnd er heimilt að skipa nefndir, starfshópa og málefnahópa um afmörkuð verkefni. Skal viðkomandi stjórn eða nefnd setja þeim hópum og nefndum sem hún skipar reglur um hlutverk, ábyrgðarsvið og starfstímabil.
7.7.1. Nefndir, starfshópar eða málefnahópar skulu hafa ábyrgðaraðila og skila reglubundinni skýrslu ef um varanlega nefnd, starfshóp eða málefnahóp er að ræða, en við lok starfsins ef um tímabundna nefnd, starfshóp eða málefnahóp er að ræða.
7.7.2. Gera skal grein fyrir störfum slíkra nefnda, starfshópa og/eða málefnahópa í ársskýrslu félagsins sbr. grein 4.8.
Kjör í stjórnir og nefndir og einstaklingskjör
7.8. Kosningar í framkvæmdastjórn og stefnu- og málefnanefnd skulu skila raðaðri niðurstöðu, þar sem röðun á lista ákvarðar hverjir hljóta sæti og hverjir hljóta varasæti. Einstaklingskjör fer fram með sama hætti, þar sem fyrsta sæti á röðuðum lista ákvarðar hver hlýtur viðkomandi stöðu. Að öðru leyti fer um kjörið samkvæmt 4. kafla um aðalfund.
7.8.1. Aðilar þurfa að vera félagar í Pírötum til að vera kjörgengir til framkvæmdastjórnar, nefnda og til stöðu gjaldkera. Óheimilt er að sitja lengur en fjögur kjörtímabil samfleytt í sömu stjórn eða nefnd, eða gegna stöðu gjaldkera. Kjörnir fulltrúar mega sitja í framkvæmdastjórn en þau geta ekki tekið stöðu formanns. Varamenn teljast hér ekki kjörnir fulltrúar og geta því tekið sér stöðu formanns og sinnt henni, jafnvel meðan þau taka sæti tímabundið á Alþingi eða í sveitarstjórn. Kjörnum fulltrúum er að öðru leyti heimilt að taka sæti í nefndum innan félagsins, nema annað sé sérstaklega tekið fram í lögum þessum.
7.8.2. Engar takmarkanir gilda um samhliða setu einstaklinga í framkvæmdastjórn eða nefndum, sé viðkomandi kjörgengur til viðkomandi stöðu á annað borð.
Almenn ákvæði um stjórnir, nefndir og ráð
7.9. Halda skal fundargerðir fyrir fundi stjórna, nefnda og ráða og skulu þær birtar innan mánaðar frá fundi.
7.10. Fundir stjórna og ráða skulu að jafnaði vera opnir öllum. Þó er heimilt að loka fundi eða hluta úr fundi þegar ræða á trúnaðarmál. Meirihluta ráðsfólks/stjórnarmeðlima sem sitja fundinn þarf til þess að ákveða að loka fundum.
7.11. Heimild til að rita firma félagsins hafa gjaldkeri og framkvæmdastjóri.
8. Úrskurðarnefnd
8.1. Ágreining um framkvæmd, túlkun og brot á lögum þessum skal vísa til úrskurðarnefndar sem úrskurðar í málinu.
8.2. Úrskurðarnefnd er skipuð þremur félagsmönnum og skulu þeir kosnir á aðalfundi ár hvert auk tveggja varamanna. Fulltrúar í úrskurðarnefnd skulu ekki gegna öðrum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn á meðan þeir sitja í úrskurðarnefnd.
8.3. Úrskurðarnefnd úrskurðar sjálf um hæfi sitt og einstakra nefndarmanna í hverju máli fyrir sig. Varamaður tekur sæti í nefndinni þegar um vanhæfi aðalmanns í tilteknu máli er að ræða.
8.4. Úrskurðarnefnd tekur ákvarðanir aðeins í samræmi við lög félagsins og landslög.
8.5. Komi upp grunur um saknæmt athæfi skal úrskurðarnefnd vísa málinu til lögreglu.
8.6. Komi upp ágreiningur um brottrekstur skal úrskurðarnefnd úrskurða um málið.
8.7. Úrskurður úrskurðarnefndar er bindandi.
8.a. Trúnaðarráð
8.a.1. Framkvæmdastjórn tekur við tilnefningum og skipar þrjá einstaklinga í trúnaðarráð. Skipun ráðsins skal staðfest á gildum félagsfundi.
8.a.2. Trúnaðarráð hefur með höndum sáttamiðlun og aðstoð þegar upp kemur ágreiningur eða annar vandi í samskiptum og starfi félagsmanna.
8.a.3. Trúnaðarráð er óháð í störfum sínum.
8.a.4. Aðildarfélög Pírata, stjórnir, nefndir og ráð innan Pírata og einstaka félagsmenn geta vísað málum til trúnaðarráðsins en það getur einnig látið til sín taka að eigin frumkvæði.
8.a.5. Trúnaðarráð tekur engar bindandi ákvarðanir en getur vísað málum til úrskurðarnefndar eða eftir atvikum til lýðræðislegrar afgreiðslu á viðeigandi vettvangi félagsins.
8.a.6. Við val á fulltrúum í trúnaðarráð skal meta sérstaklega hæfni í mannlegum samskiptum, sjálfstæðum vinnubrögðum og almennt traust meðal flokksmanna. Æskilegt er að þeir hafi áður gegnt trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Fulltrúar í trúnaðarráði skulu ekki gegna öðrum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn á meðan þeir sitja í trúnaðarráði.
8.a.7. Skipunartími fulltrúa í trúnaðarráði skal vera eitt ár.
8.a.8. Trúnaðarráðsfulltrúar eru bundnir skilyrðislausum trúnaði í störfum sínum að undanskildum staðfestingu eða rökstuddum grun um tilvonandi háska einstaklinga og/eða verið skyldugir að veita upplýsingar samkvæmt landslögum.
9. Starfsmenn
9.1. Framkvæmdastjóra er eingöngu heimilt að ráða starfsfólk að undangenginni auglýsingu um stöðuna, þar sem fram kemur starfslýsing og þær kröfur sem gerðar eru til starfsfólksins.
9.2. Framkvæmdastjóra er heimilt, í samráði við framkvæmdastjórn, að ráða til sín starfsfólk í tengslum við kosningabaráttu eða önnur tímabundin verkefni án auglýsingar.
9.3. Félagsdeildum er heimilt að ráða til sín starfsfólk í tengslum við kosningabaráttu eða önnur tímabundin verkefni.
9.4. Laun framkvæmdastjóra og annars starfsfólks skal ekki vera hærra en þingfararkaup.
9.5. Upplýsingar um starfsfólk skulu koma fram á vefsíðu félagsins.
10. Umboðsmenn Pírata
10.1. Píratar geta á almennum félagsfundum og Aðalfundi skipað umboðsmenn, einn eða fleiri, til að sinna ákveðnum, vel skilgreindum og tímabundnum verkefnum í umboði flokksins.
10.2. Verkefni umboðsmanna, skyldur þeirra til skýrslugjafar og tímamörk verkefnisins skal skilgreint í erindisbréfi sem lagt er fram á Aðalfundi flokksins eða almennum félagsfundi. Tímamörk verkefnis skal samsvara gildistíma erindisbréfs.
10.3. Tímabinding skipunar skal vera eins þröng og kostur er og aldrei lengra en eitt ár. Hægt er að endurnýja erindisbréf þegar mest einn mánuður er eftir af gildistíma fyrra erindisbréfs. Endurnýjun fer fram eins og um nýtt erindisbréf væri að ræða.
10.4. Framkvæmdastjóri skal setja erindisbréf í rafrænt atkvæðagreiðslukerfi Pírata innan sólarhrings frá samþykkt félagsfundar eða Aðalfundar.
10.5. Erindisbréf öðlast gildi þegar það hefur verið staðfest á þrennan hátt. Fyrst með einföldum meirihluta í atkvæðagreiðslu meðal allra Pírata í rafrænu atkvæðagreiðslukerfi flokksins og svo af einföldum meirihluta aðalmanna í framkvæmdastjórn og einföldum meirihluta þingflokks Pírata þegar slíkum flokki er til að dreifa.
10.6. Framkvæmdastjórn og þingflokkur skulu greiða atkvæði um afdrif erindisbréfs innan 7 daga frá samþykkt erindisbréfs í rafrænni atkvæðagreiðslu. Láti framkvæmdastjórn eða þingflokkur undir höfuð leggjast að greiða atkvæði um erindisbréf innan 7 daga frá samþykkt í rafrænni atkvæðagreiðslu skal það tákna samþykkt erindisbréfsins af þeirra hálfu.
10.7. Erindisbréf skal vera til umræðu í atkvæðagreiðslukerfi Pírata í sjö daga og atkvæðagreiðsla skal standa aðra sjö daga.
10.8. Fjöldi umboðsmanna verkefnis skal vera oddatala og skal hver umboðsmaður velja sér sinn varamann.
10.9. Umboðsmenn þurfa ekki að vera Píratar en geta verið sérfræðingar á því sviði sem verkefnið krefst eða eftir atvikum aðrir þeir sem sinnt geta verkinu.
10.10. Séu umboðsmenn verkefnis fleiri en einn skal þeirra fyrsta verk vera að skipta með sér verkum og kjósa sér fyrsta umboðsmann og einnig annan umboðsmann ef umboðsmenn eru fleiri en einn, úr sínum hópi.
10.11. Fyrsti umboðsmaður skal jafnan stýra fundum hópsins og sinna almennri verkstjórn hópsins en annar umboðsmaður skal rita fundi og taka við verkstjórn í forföllum fyrsta umboðsmanns.
10.12. Almennur félagsfundur eða Aðalfundur geta krafið umboðsmenn um skýrslu um stöðu verkefnis og skal henni skilað innan þriggja vikna frá því að hennar er krafist.
10.13. Hægt er að afturkalla erindisbréf umboðsmanna fyrir þau tímamörk sem bréfið kveður á um með sama hætti og þau eru búin til, sbr. 1. gr. og öðlast afturköllun gildi með sama hætti og erindisbréf, sbr. 5. gr.
11. Aðildarfélög
11.1. Heimilt er að líta svo á að lögaðilar séu aðildarfélög Pírata að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Félag sem óskar eftir að teljast aðildarfélag Pírata sendir umsókn um slíkt til framkvæmdastjórnar, ásamt lögum sínum. Framkvæmdastjórn úrskurðar hvort tilvonandi aðildarfélag uppfylli þau skilyrði sem hér eru lögð fram. Sé svo skal aðildarfélagið tafarlaust hljóta aðild, en að öðrum kosti skal því tilkynnt um þá ágalla sem á umsókninni eru.
11.2. Aðildarfélögum er óheimilt að ganga gegn lögum eða grunnstefnu Pírata. Úrskurðarnefnd er heimilt að fella niður aðild félags sem brýtur gegn lögum eða grunnstefnu.
11.3. Framkvæmdastjórn heldur sameiginlega félagaskrá fyrir öll aðildarfélög Pírata. Allir félagar aðildarfélags teljast jafnframt félagar í Pírötum. Nú segir félagsmaður sig úr félaginu eða aðildarfélagi og hann gegnir trúnaðarstöðu hjá því og skal framkvæmdastjórn þá tilkynna aðildarfélaginu um úrsögnina.
11.4. Aðildarfélagi ber að skila fundargerð aðalfundar, ársskýrslu og bókhaldsgögnum sínum til framkvæmdastjórnar. Hafi slík gögn borist fyrir lok júnímánaðar telst aðildarfélag vera virkt.
11.5. Aðildarfélagi ber að skilgreina í lögum sínum hvenær það teljist starfhæft. Uppfylli aðildarfélag ekki eigin skilyrði um starfhæfni skal því slitið. Einnig skal aðalfundi Pírata heimilt að boða aðalfund í eða slíta óvirku aðildarfélagi. Eignir aðildarfélaga skulu renna til Pírata við félagsslit.
11.6. Starfssvæði svæðisbundins aðildarfélags skal vera minnst eitt sveitarfélag. Einungis skal eitt svæðisbundið aðildarfélag starfa í hverju sveitarfélagi. Þó skal heimilt að stofna aðildarfélag sem nær yfir heilt kjördæmi með aðkomu allra virkra aðildarfélaga innan þess kjördæmis. Úrskurðarnefnd sker úr um ágreining um starfssvæði.
11.7. Aðildarfélagi er heimilt að skipta starfsemi sinni frekar. Aðildarfélagi ber að gera framkvæmdastjórn grein fyrir slíkri skiptingu að því leyti sem hún hefur áhrif á félagaskráningu.
12. Ungir Píratar
12.1 Ungir Píratar eru sjálfstætt aðildarfélag, rekið sem deild innan Pírata með eigin lög og bankareikning, en ekki eigin kennitölu.
13. Fjármál
13.1. Bókhaldsár félagsins er almanaksárið.
13.2. Félagið skal lúta lögum um starfsemi stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra.
13.3. Bókhald félagsins skal vera opið almenningi á vefsíðu félagsins. Það skal uppfært jafn óðum, með fyrirvara um villur og samþykki aðalfundar.
13.4. Samþykktir ársreikningar skulu liggja fyrir á vefsíðu félagsins.
13.5 Kjörtímabil endurskoðenda er 1 ár.
13.6. Innkaup, aðgerðir og verkefni skulu framkvæmd með það í huga að þau skilji eftir eins lítil umhverfis og náttúruspjöll og kostur er, skal það haft í huga við samþykkt reikninga.
13.7. Félaginu er eingöngu heimilt að taka lán fyrir rekstri og öðrum útgjöldum félagsins ef áætlaðar tekjur eru fyrirsjáanlegar og öruggar. Engin lán sem binda félagið mega fara fram án samþykkis framkvæmdastjórnar.
13.8. Félaginu er ekki heimilt að lána öðrum lögaðilum fé.
13.9. Fé sem situr eftir í sjóðum eftir bókhaldsárið skal renna í sjóð næsta árs.
14. Þátttaka í kosningum
14. Prófkjör og röðun á lista fyrir Alþingiskosningar
14.1. Kjörstjórn Pírata hefur umsjón með prófkjörum félagsins fyrir þingkosningar. Kjörstjórn ákveður tímasetningu prófkjara og skal auglýsa fyrirhuguð prófkjör með minnst mánaðar fyrirvara í gegnum félagatalið. Bregða má frá þessari reglu ef boðað er til kosninga með minna en 3 mánaða fyrirvara en þá verður að auglýsa prófkjör með minnst viku fyrirvara. Sé borin upp og samþykkt tillaga á Alþingi um þingrof sem er kynnt með minna en mánaðar fyrirvara skal haga prófkjörum og röðun á lista eftir ákvæðum 16. greinar um skyndilegt þingrof.
14.2. Kjörstjórn Pírata semur nánari reglur um prófkjör Pírata í samvinnu við stefnu- og málefnanefnd, sem leggja þarf fyrir kosningakerfi Pírata til samþykktar eða synjunar innan mánaðar frá því að dagsetning prófkjara hefur verið ákveðin.
14.3. Allir félagsmenn, sem kjörgengir eru til þeirra kosninga sem um ræðir, geta gefið kost á sér á framboðslista og tekið þátt í kosningu um þá. Þó má setja kosningarétti það skilyrði í prófkjörsreglum að félagsmaður hafi verið skráður félagi í flokknum í allt að 15 daga áður en kosning fer fram.
14.4. Kjörstjórn Pírata ber ábyrgð á því að allir frambjóðendur hafi tækifæri til þess að kynna sig fyrir félagsmönnum í aðdraganda prófkjörs.
14.5. Úrslit prófkjara eru bindandi fyrir helming þingsæta hvers kjördæmis fyrir sig, námundað upp á við. Raða skal í efstu sæti framboðslista í hverju kjördæmi samkvæmt úrslitum forgangskosningar með Schultze-aðferð.
14.6. Kjörstjórn Pírata raðar í sæti neðar á lista með fjölbreytni og jafnrétti að leiðarljósi ásamt því að taka mið af úrslitum prófkjörsins. Kjörstjórn er heimilt að bæta öðrum sem ekki voru í prófkjöri á listann með samþykki þeirra sjálfra og í samráði við þau sem hlutu bindandi kjör á listann.
14.7. Frambjóðanda er heimilt að taka sæti neðar á lista en kjör hans segir til um og færast þá aðrir frambjóðendur upp. Hafni frambjóðandi sæti eða geti af öðrum sökum ekki tekið því skal afmá nafn hans af listanum og færa þá sem á eftir koma upp um eitt sætI
14.8. Starfsfólki Pírata og starfsfólki þingflokks Pírata er ekki heimilt að taka bindandi sæti á framboðslista félagsins.
15. Þátttaka Pírata í Alþingiskosningum
15.1.Framkvæmdastjóri Pírata ræður kosningastjóra fyrir Alþingiskosningar í samráði við framkvæmdastjórn. Kosningastjóri ber ábyrgð á framkvæmd kosningabaráttu Pírata á landsvísu í samstarfi við oddvita kjördæmanna og í samráði við aðra frambjóðendur og aðildarfélög eða kjördæmafélög eftir því sem við á. Kosningastjóri og oddvitar kjördæmanna mynda kosningastjórn sem getur skorið úr um ágreiningsefni með atkvæðagreiðslu þar sem einfaldur meirihluti atkvæða ræður.
15.2. Aðildarfélög eða kjördæmisfélög Pírata, eftir því sem við á, sjá um framkvæmd kosningabaráttu innan síns kjördæmis í samstarfi við frambjóðendur og kosningastjóra Pírata á landsvísu. Þeim er heimilt að ráða kosningastjóra fyrir sitt kjördæmi í samráði við framkvæmdastjóra Pírata og kosningastjóra Pírata á landsvísu.
15.3. Kosningastefnuskrá Pírata skal unnin að frumkvæði stefnu- og málefnanefndar í opnu ferli innan hreyfingarinnar. Leggja skal kosningastefnuskrá Pírata fyrir kosningakerfið eins tímanlega og frekast er unnt fyrir kosningar.
15.4. Framkvæmd kosningabaráttu Pírata skal fara fram í sem bestu samræmi við grunnstefnu flokksins og samþykkta kosningastefnuskrá hans.
16. Skyndilegt þingrof
16.1. Komi upp sú staða að borin sé upp og samþykkt tillaga um þingrof samkvæmt 24. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands með minna en mánaðar fyrirvara skal haga prófkjörum og röðun á lista samkvæmt greinum 16.2 - 16.6.
16.2. Komi til skyndilegs þingrofs og engin kjörstjórn sé starfandi skal framkvæmdastjórn skipa þrjá einstaklinga í kjörstjórn, og allt að 3 til vara.
16.3 Kjörstjórn Pírata semur og kynnir prófkjörsreglur fyrir prófkjör. Leitast skal til að víkja sem minnst frá fyrri samþykktri framkvæmd samkvæmt 14 og 15 grein þessara laga
16.4. Kjörstjórn Pírata skal á grundvelli prófkjörsreglna auglýsa og halda prófkjör svo fljótt sem því verður við komið og heimilt er að hafa fresti stutta en leitast skal við að þeir séu ekki skemmri en sólarhringur.
16.5. Kjörstjórn Pírata skal stuðla að því að allir frambjóðendur hafi tækifæri til þess að kynna sig fyrir félagsfólki.
16.6. Að öðru leyti skal haga prófkjörum og röðun á lista eftir ákvæðum 14. greinar.
17. Störf þingflokks og annarra kjörinna fulltrúa
17.1. Þingmenn Pírata skulu starfa í þágu alls félagsins. Þingmönnum ber ekki aðeins að taka tillit til stefnu heildarfélagsins, heldur einnig til stefnu aðildarfélaga sem málin varða. Sveitarstjórnarfulltrúar skulu starfa í þágu þess svæðisbundna aðildarfélags sem starfar í sveitarfélagi þeirra. Svæðisbundin aðildarfélög skilgreina með hvaða hætti sveitarstjórnarfulltrúar eiga að taka mið af stefnumálum félagsins. Stefna heildarfélagsins skal aðeins geta talist leggja skyldur á sveitarstjórnarfulltrúa ef engin stefna aðildarfélags fjallar um málefnið.
17.2. Haldi þingflokkur eða sveitarstjórnarflokkur lokaðan fund hefur hann tilkynningarskyldu til félagsmanna um efni fundarins og ástæður fyrir lokun.
17.3. Fulltrúar í þingflokkum og sveitarstjórnarflokkum skiptast á að gegna þeim embættum sem skylt er að þau taki sér, eigi lengur en til árs í senn.
17.4. Tilheyri þingflokkur minni hluta á Alþingi og geti ekki fengið aðstoðarmann til starfa á þinginu nema með því að hafa formann, skal einn þingmaður gegna embætti formanns félagsins, eitt þing í senn. Skal hann slembivalinn eftir þingkosningar, en gangi það í keðju þar eftir. Hann hafi ekki aukin pólitísk völd og afþakki formannsálag á þingfararkaup. Þingflokksformaður getur ekki einnig verið formaður félagsins.
17.5. Aðstoðarmenn þingflokka eða sveitarstjórnarflokka skulu að jafnaði starfa fyrir flokkinn sem heild.
18. Félagsslit
18.1. Félagsslit geta aðeins farið fram sé tillaga um slíkt á auglýstri dagskrá löglegs aðalfundar og samþykkt með ¾ hluta fundarmanna.
18.2. Við félagsslit skal ráðstafa eða skipta eignum félagsins í samræmi við tilgang þess og grunnstefnu.
Lög þessi eru byggð á samþykktum lögum Pírata í kosningakerfi Pírata. Ef um misræmi milli útgáfa af lögum er að ræða þá ræður textinn úr samþykktum lögum í kosningakerfinu: innra skipulag á x.piratar.is þó með fyrirvara um að númeraröð lagagreina hefur riðlast vegna viðbóta við lögin