Heilbrigðisstefna Pírata
Aðgengi að andlegu og líkamlegu heilbrigði fyrir öll
Félagsmál og heilbrigðismál eru tvær hliðar á sama peningi. Til að ná utan um þær áskoranir sem bíða okkar sem samfélag þurfa þessir tveir málaflokkar að vinna í takt. Þess vegna leggja Píratar áherslu á að vinna að streitulausara samfélagi, að fólk geti lifað af laununum sínum og hafi meiri frítíma fyrir samveru með fjölskyldu og vinum og til að sinna hugðarefnum. Forvarnir og efling lýðheilsu mynda grunninn að góðu heilbrigði þjóðarinnar og skulu fara fram m.a. í menntastofnunum og félagslegu þjónustukerfi sem og á öllum stigum heilbrigðisþjónustunnar. Heilbrigðisþjónusta skal vera aðgengileg í heimabyggð fólks. Heilbrigðiskerfið er öryggisnet þjóðarinnar og gegnir mikilvægu hlutverki þegar kemur að forvörnum og fræðslu.
Píratar ætla að
Tryggja aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu og efnahag
Stefna að gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu
Stuðla að gagnsæi í uppbyggingu og þróun heilbrigðiskerfisins
Leggja áherslu á snemmtæka íhlutun, forvarnir og tæknilausnir
Setja heilbrigðismál í forgang í fjárlögum og tryggja fjármögnun
Einfalda umsóknarferlin og draga úr skerðingum á örorku- og endurhæfingalífeyri
Koma á fót embætti umboðsmanns sjúklinga
Stefnt er að því að heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls
Kostnaður almennings fyrir þjónustu skal vera sá sami óháð því hvort þjónustuveitandi er opinber eða einkaaðili. Píratar stefna að því að gera læknisþjónustu gjaldfrjálsa, enda eru komugjöld stór hindrun þeirra efnaminni. Við bætum skilvirkni með því að hjálpa fólki að fá þjónustu á réttum stað og losnum þannig við komugjöld.
Aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu og efnahag
Hámarka skal heilbrigðisþjónustu í hag landsmanna, þannig að allir hafi beinan og óheftan aðgang að persónulegri heilbrigðis- og félagsþjónustu. Fræðsla og upplýsingar um þjónustu skulu vera óháð búsetu og fjárhag notenda.
Gagnsæi í uppbyggingu og þróun heilbrigðiskerfisins
Uppbygging og þróun heilbrigðiskerfisins þarf að vera gagnsæ, til dæmi með opinberri tölfræði um öll svið þjónustunnar. Vísindalegar aðferðir skulu liggja að baki ákvörðunum í heilbrigðiskerfinu, hvort sem þar sé fjallað um stefnumótun kerfisins eða ákvarðanir varðandi einstaka sjúklinga.
Áhersla á snemmtæka íhlutun, forvarnir, nútímavæðingu þjónustu og tæknilausnir
Fjármögnun heilbrigðismála skal tryggð í samræmi við áætlanir yfirvalda. Snemmtæk íhlutun í gegnum samfélagsverkefni og samstarf við skóla og vinnustaði tryggir að við grípum fólk snemma og stuðlum að velsæld frá upphafi. Píratar munu innleiða tæknilausnir í heilbrigðisþjónustu til þess að auka gæði og hagkvæmni og bæta aðgengi fólks á landsbyggðinni að læknisþjónustu. Heilbrigðisþjónustu skal hugsa út frá þörfum notenda og sífellt leita að úrbótatækifærum í skipulagi starfsins.
Einfalda umsóknarferlin og draga úr skerðingum á örorku- og endurhæfingalífeyri
Tekjuskerðing skerðir möguleika lífeyrisþega til að stunda viðráðanlega vinnu. Tekjuskerðingar stuðla að félagslegri einangrun og geta dregið úr virkni. Draga þarf úr búsetuskilyrðum, tekjuskerðingum og tímamörkum lífeyrisbóta að fremsta megni. Í núverandi kerfi eru einnig lagðar miklar skyldur og kvaðir á bótaþega um upplýsingar og skýrslugerðir. Píratar munu gera slíka upplýsingagjöf einfaldari, skilvirkari og notendavænni. Komið verður upp umboðskerfi fyrir fagaðila svo þeir geti fengið umboð með öruggum hætti til að sækja um þjónustu fyrir hönd skjólstæðinga og aðstandanda.
Umboðsmaður sjúklinga
Píratar ætla að stofna sérstakt embætti umboðsmanns sjúklinga. Hann munn standa vörð um hagsmuni og réttindi sjúklinga, vera opinber talsmaður þeirra, sinna eftirliti með heilbrigðisþjónustu með tilliti til réttinda sjúklinga og sinna leiðbeinandi fræðsluhlutverki.