Geðheilbrigðisstefna Pírata
Geðheilbrigði og forvarnir í forgang
Félagslegir þættir og lífsaðstæður hafa veruleg áhrif á geðheilbrigði. Orsakir andlegra áskorana eru oft vegna utanaðkomandi þátta og það þarf batamiðaða samfélagslega nálgun, virkari forvarnir, aðgerðir gegn fordómum og jaðarsetningu, bæði innan og utan kerfis, og tryggja að grunnþarfir íbúa í landinu séu uppfylltar. Andlegar áskoranir geta verið eðlilegar afleiðingar af óeðlilegum aðstæðum. Í stað þess að sjúkdómsvæða andleg veikindi með áherslu á lyfjanotkun telja Píratar mikilvægt að leggja áherslu á batamiðaða nálgun. Hún snýst um að valdefla einstaklinginn, sníða meðferðina að honum og leyfa honum að ráða för. Geðheilbrigðismál eru ein af grunnstoðum samfélagsins og eru mælikvarði á heilbrigði samfélagsins alls. Því er mikilvægt að tryggja að þjónustan sé öllum aðgengileg óháð búsetu og fjárhag.
Píratar ætla að
Setja geðheilbrigðismál í forgang og tryggja fjármögnun.
Leggja áherslu á forvarnir, valdeflingu, samvinnu og skaðaminnkun.
Taka upp batamiðaða nálgun og þjónustu.
Niðurgreiða sálfræðiþjónustu.
Tryggja samfellt aðgengi að þjónustu og styðja aðstandendur.
Leggja áherslu á sérhæfða bráðaþjónustu og búsetuúrræði við hæfi.
Geðheilbrigði sett í forgang með fjármagnaðri áætlun
Stórauka þarf fjárframlög til geðheilbrigðismála. Píratar ætla að sjá til þess að fjármagnið nýtist sem best, með áherslu á forvarnir, fyrirbyggjandi aðgerðir og snemmtæka íhlutun. Horfa þarf heildrænt á stefnur og aðgerðir stjórnvalda til lengri tíma þvert á málaflokka, með tilliti til áhrifa á geðheilsu almennings.
Batamiðuð nálgun og þjónusta
Batamiðuð nálgun byggir á mikilvægi utanaðkomandi þátta á geðheilsu einstaklinga, hvernig andleg heilsa mótast af streitu og áföllum. Það er ólíkt þeirri ríkjandi nálgun í íslenska geðheilbrigðiskerfinu að sjúkdómsvæða andleg veikindi með áherslu á lyfjanotkun. Hugmyndafræði batastefnunnar byggir á sjálfsákvörðunartöku og sjálfsstjórn, að fólk hafi stjórn á eigin lífi og með stuðningi, finni þær leiðir sem henta þeim í leið sinni til bata.
Áhersla á forvarnir, valdeflingu, samvinnu, skaðaminnkun
Félagslegir þættir og lífsaðstæður hafa veruleg áhrif á geðheilbrigði. Píratar leggja áherslu á samfélagsbreytingar sem draga úr streitu, stuðla að því að foreldrar hafi tíma til að móta djúp tengsl við börnin sín og að fólk hafi tækifæri til sjálfsskoðunar og sjálfsræktar. Draga þarf úr þvingunum vegna geðrænna vandkvæða og koma upp meðferðarúrræðum sem byggja á valdeflingu og samþykki. Notendur skulu hafðir með í stefnumótun í málaflokknum og við útfærslu þjónustunnar. Píratar munu tryggja möguleika notenda til að leita réttar síns vegna ákvarðana um þvinganir.
Niðurgreiða sálfræðiþjónustu, sérstök fræðsla og þjónusta fyrir nemendur
Sálfræðiþjónusta og viðurkenndar samtalsmeðferðir eiga að vera aðgengilegar og gjaldfrjálsar. Píratar munu bjóða notendum upp á eins góða og gagnreynda þjónustu og völ er á. Við ætlum að tryggja aðgengi nemenda á öllum skólastigum að sálfræðiþjónustu. Hæfniviðmið um þekkingu á geðheilbrigði, forvörnum og einkennum algengra geðkvilla verða útfærð í aðalnámskrá.
Tryggja samfellt aðgengi að þjónustu og styðja aðstandendur
Huga þarf sérstaklega að hópum sem falla á milli kerfa og/eða vantar sérhæfða þjónustu. Píratar munu sérstaklega tryggja áframhaldandi stuðning við börn þegar þau ná átján ára aldri, að ekki verði rof á þjónustu. Aðstandendum verður einnig tryggð viðeigandi þjónusta og fræðsla.
Sérhæfð bráðaþjónusta og búsetuúrræði við hæfi
Bráðaþjónusta við fólk sem glímir við geðrænar áskoranir er sérhæft úrlausnarefni og því eðlilegt að aðskilja frá annarri bráðaþjónustu. Sú þjónusta verður að vera aðgengileg allan sólarhringinn, allt árið um kring. Heilbrigðismenntaðir viðbragðsaðilar skulu bregðast við neyðarútköllum þar sem ætla má að geðræn veikindi og/eða fíknivandi eru til staðar. Píratar ætla að tryggja öllum sem eru með geðfötlunargreiningu búsetu við hæfi sem og notendastýrða eftirfylgni þegar formlegri meðferð lýkur.