Framtíðarstefna Pírata fyrir unga fólkið
Eflum ungt fólk fyrir framtíðina
Píratar ætla að skila samfélaginu betra í hendur kynslóða framtíðarinnar en við tókum við því. Til að ná því fram er ungt fólk lykilþátttakendur í að skapa réttlátari, sjálfbærari og fjölbreyttari heim. Píratar vilja að ungt fólk hafi aðgang að þeim verkfærum, tækifærum og búi að því sjálfstrausti sem þarf til að vaxa og dafna sem sjálfstæðir, upplýstir og virkir þátttakendur í samfélaginu. Því leggjum við áherslu á að tryggja réttindi ungs fólks til að hafa áhrif, þróa hæfileika sína og taka þátt í samfélagslegum ákvörðunum sem móta framtíðina.
Píratar ætla að
Auka aðgengi að menntun og starfsþjálfun.
Innleiða gagnrýna hugsun og efla þátttöku ungs fólks í lýðræðislegum ákvörðunum.
Lækka kosningaaldur.
Hlusta á og valdefla yngri kynslóðir.
Bregðast við ákalli ungs fólks um samfélagslegar umbætur.
Leggja áherslu á jafnrétti og fjölbreytileika.
Styðja við andlega og líkamlega heilsu ungs fólks.
Bæta kjör ungs fólk.
Tryggja lausnir við viðráðanlegu húsnæði.
Huga að ungum foreldrum.
Tryggja að barnasáttmálinn verði virtur.
Aðgengi að menntun og starfsþjálfun
Menntun er lykillinn að því að opna tækifæri fyrir ungt fólk. Píratar munu tryggja jafnan aðgang að menntun fyrir alla unga einstaklinga, óháð félagslegum og efnahagslegum bakgrunni. Skólakerfið skal bjóða fjölbreytt námstækifæri og starfsþjálfun þar sem ungt fólk getur öðlast þá hæfni sem nauðsynleg er í breytilegu samfélagi. Píratar ætla að auka aðgengi að menntun í nærsamfélaginu og leggja áherslu á nýsköpunarlandið Ísland um allt land. Sveigjanlegt og aðgengilegt nám sem undirbýr ungt fólk fyrir framtíðarstörf í sjálfbæru samfélagi er ekki einungis góð hugmynd, það er nauðsynlegur grundvöllur Íslands til framtíðar.
Gagnrýnin hugsun og þátttaka í lýðræðislegum ákvörðunum
Píratar leggja áherslu á að auka tækifæri ungs fólks til að taka þátt í lýðræðislegum ferlum á öllum sviðum, svo sem í skólastarfi, stjórnmálum og atvinnulífi. Gagnrýna hugsun og upplýsingalæsi þarf að efla, með menntun sem gerir ungu fólki kleift að greina upplýsingar, taka sjálfstæðar ákvarðanir og beita áhrifum sínum til jákvæðra breytinga.
Lækkun kosningaaldurs
Píratar ætla að lækka kosningaaldur og færa öllum þeim sem verða 16 ára á árinu kosningarétt í öllum kosningum. Ungt fólk á að fá rödd í samfélaginu og tækifæri til að hafa áhrif á ákvarðanir sem snerta líf þess og framtíð.
Hlustum á og valdeflum yngri kynslóðir
Það þarf virkan samráðsvettvang fyrir ungmennaráð þar sem ungu fólki gefst færi á að nýta skýrar boðleiðir til að koma skoðunum sínum á framfæri við valdhafa. Píratar munu koma þeim vettvang á laggirnar, sem og þingfundum ungmenna, en þar fara ráðamenn þjóðarinnar í hlutverk áheyrenda. Einnig þarf að tryggja að í framhaldinu taki við ferli sem vinni úr niðurstöðum fundanna. Samráð og samtal verða að leiða til alvöru viðbragða frá valdhöfum því stjórnvöld bera ábyrgð á því að vinna úr hugmyndum samráðsins.
Bregðumst við ákalli um samfélagslegar umbætur
Á undanförnum árum hefur ungt fólk sýnt fádæma frumkvæði með mikilli þátttöku í samfélagsumræðunni, sem endurspeglast m.a. í loftslagsverkföllum, baráttunni fyrir nýrri stjórnarskrá, kröfum um umbætur í menntakerfinu og framfærslu meðan á námi stendur. Við eigum að taka kröfur þeirra alvarlega og fagna frumkvæðinu með samstarfi og aðgerðum.
Jafnrétti og fjölbreytileiki
Píratar krefjast jafnréttis og virðingar fyrir fjölbreytileika á öllum sviðum samfélagsins. Ungt fólk á rétt á að lifa í samfélagi þar sem það getur verið það sjálft, óháð kyni, kynhneigð, trúarbrögðum, uppruna eða fötlun. Píratar ætla að tryggja að ungt fólk hafi jafna möguleika til að þróa hæfileika sína og taka þátt í samfélaginu. Við leggjum áherslu á samfélag sem hvetur til víðsýni, virðingar og samstöðu.
Stuðningur við andlega og líkamlega heilsu
Andleg og líkamleg heilsa er grunnurinn að velferð ungs fólks. Píratar munu auka aðgengi að heilbrigðis- og sálfræðiþjónustu í menntakerfinu, ásamt stuðningi við sveigjanlegt og heilbrigt skóla- og vinnuumhverfi. Stuðlað skal að aukinni þekkingu á heilsuvernd og forvörnum sem styrkja sjálfstraust og heilbrigða sjálfsmynd ungs fólks.
Bætt kjör fyrir yngra fólk
Efnahagslegt öryggi er mikilvægur þáttur í því að ungt fólk geti skipulagt framtíð sína og fylgt draumum sínum. Við viljum tryggja að ungt fólk fái stuðning við að hefja nám, atvinnu eða frumkvöðlastarfsemi. Stuðlað skal að efnahagslegum stöðugleika með aðgengi að hagnýtum námskeiðum, ráðgjöf og fjárhagsaðstoð við unga frumkvöðla og nýsköpunarverkefni.
Píratar ætla að hækka útgreiðanlegan persónuafslátt, innleiða námsstyrki í auknum mæli og auka áherslu á nýsköpun. Tryggja skal nemendum atvinnuleysisbætur þegar framboð á sumarvinnu fyrir námsfólk þrýtur. Stúdentar greiða í atvinnuleysistryggingasjóð og því eðlilegt að þeir geti sótt í hann þegar á reynir. Enginn á að missa réttindi við það eitt að mennta sig. Lægri skuldir stúdenta að loknu námi leiðir af sér bætta andlega líðan og fleiri tækifæri í kjölfarið. Við viljum að ungt fólk geti tekið fyrstu skrefin inn í framtíðina án skuldbindinga.
Viðráðanlegt húsnæði
Húsnæðiskostnaður er ein stærsta hindrunin í vegi þeirra sem vilja koma undir sig fótunum. Skilvirk leið til þess að bæta úr því er að auka framboð af íbúðum fyrir ungt fólk, jafnt námsfólk sem og aðra. Það vilja Píratar gera t.d. í samstarfi við óhagnaðardrifin leigufélög, eins og Félagsstofnun stúdenta og Bjarg.
Ungir foreldrar
Það getur verið stórt og krefjandi skref að verða ungt foreldri. Aukin útgjöld og aukið álag koma sérstaklega niður á ungum foreldrum, sem að jafnaði eru tekjulitlir og í óðaönn að leggja grunn að framtíð sinni. Námsstyrkjakerfi, raunverulegt fæðingarorlof fyrir námsfjölskyldur, hærri fæðingarstyrkir, hærri barnabætur og sveigjanlegra fæðingarorlofskerfi eru meðal þess sem Píratar ætla að ráðast í, til að létta ungum foreldrum uppeldið.
Barnasáttmálinn verði virtur
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna á að vera leiðarljós í öllu starfi sem varðar börn. Réttmætast væri að grunnskólar innleiddu sáttmálann í starfi sínu. Píratar telja að hafa eigi samráð við börn í öllum málum er þau varða, og að leyfa eigi í auknum mæli frumkvæði þeirra í ákvarðanatöku.