Efnahagsstefna Pírata
Réttlátt efnahagskerfi í þágu almennings
Píratar tala fyrir nýrri sýn á hagkerfið. Sýn sem vefur samfélag og náttúru saman svo hagkerfið taki tillit til fleiri þátta en þeirra sem eru með verðmiða. Því viljum við byggja sjálfbært velsældarhagkerfi fyrir öll. Samfélag þar sem við öll blómstrum á eigin forsendum í sátt við umhverfi okkar.
Píratar vilja sjálfbærri nálgun í efnahagsmálum. Sú nálgun forgangsraðar almannahagsmunum umfram sérhagsmuni sem mun létta róður fjölskyldna sem glíma við verðbólguhlaðið heimilisbókhald. Draga þarf úr sveiflum hagkerfisins og skapa stöðugra efnahagsástand. Slíkt mun leiða af sér stöðugri gjaldmiðil og sjálfbæra verðmætasköpun, þannig að hægt sé að einblína á nýsköpun á öllum sviðum samfélagsins og út um allt land. Píratar vilja endurskoða kerfi samfélagsins út frá lýðræðislegri og þjónustumiðaðri nálgun á forsendum almennings. Píratar eru í forystu í baráttunni gegn spillingu. Þeir vilja loka skattaglufum, auka traust og skapa sanngjarnt og réttlátt skattkerfi sem færir byrðar af þeim sem minnst hafa yfir á þau sem meira hafa.
Píratar beita nýskapandi hugsun til að leysa málin á nútímalegan hátt. Ætlunin er að efla stafræna umbreytingu hins opinbera til að minnka vesen, sóun og mengun. Brugðist verður við húsnæðisvandanum af festu, að fólk hafi öruggt þak yfir höfuðið með minnkandi verðbólgu sem meginmarkmið. Píratar munu einnig beita forvörnum í heilbrigðis- og velferðarmálum til að skapa lífsgæði og draga úr kostnaði á seinni stigum, auka aðgengi að menntun til að stuðla að meiri verðmætasköpun og leggja grundvöllinn að skapandi lausnum á vandamálum samtímans og framtíðarinnar.
Píratar ætla að innleiða loftslagsbókhald og græn innkaup og hafa umhverfis- og loftslagsmálin að leiðarljósi við allar ákvarðanir. Slíkt er hagkvæmt til lengri tíma og skapar verðmæti fyrir framtíðarkynslóðir.
Píratar ætla að
Vinna bug á verðbólgunni með fjölbreyttum leiðum eins og bregðast af festu við húsnæðisvandanum og stuðla að stöðugra efnahagskerfi.
Láta Ísland vera í fararbroddi í innleiðingu velsældarhagkerfis.
Taka á spillingu, loka skattaglufum og tryggja sanngjarnt, einfalt og réttlátt skattkerfi.
Uppræta fátækt og tryggja lágmarksframfærslu.
Skapa aukin verðmæti og lífsgæði með stuðningi við nýsköpun og þróun.
Endurskoða opinberan rekstur með stafræna umbreytingu að leiðarljósi.
Standa með hagsmunum neytenda og almennings við allar efnahagslegar ákvarðanir.
Efla gagnsæi, ábyrga áætlanagerð, tækifæri til aðhalds og lýðræðislegrar þátttöku.
Vinnum bug á verðbólgunni með
meira framboði af húsnæði og
stöðugra efnahagskerfi
Verðbólgan er að knésetja heimilin í landinu með tilheyrandi takmörkun lífsgæða, afkomukvíða og ofurvöxtum. Píratar ætla að ráðast að rót vandans, vegna húsnæðismarkaðarins, óstöðugs gjaldmiðils og verðtryggingar. Við ætlum að tryggja næga húsnæðisuppbyggingu með öruggri fjármögnun. Píratar ætla að skilyrða þátttöku lífeyrissjóðanna í fjármögnun að jafnaði um þriðjung af uppbyggingarþörf. Á sama tíma slá á þensluna þar sem hún er mest með því að hækka skatta á háar fjármagnstekjur og draga úr þeim skattaafslætti sem ferðaþjónustan býr við. Píratar vilja setja skorður á ófyrirsjáanleg lánakjör eins og breytilega vexti og verðtryggingu og leyfa þjóðinni að kjósa um Evrópusambandsaðild.
Gjaldmiðillinn og verðtryggingin eru helstu drifkraftur óstöðugleika í íslenska hagkerfinu. Íslendingar greiða fyrir lélega hagstjórn með gengisflökti og verðbólgu. Með upptöku stöðugri gjaldmiðils verður hagstjórnin agaðri. Það getum við gert með því að binda krónuna við annan eða aðra gjaldmiðla eða einfaldlega með því að taka upp annan gjaldmiðil eins og evruna. Verðtryggingin veldur því að verðbólga orsakar til dæmis hækkun á verðtryggðri leigu sem mælist sem verðbólga sem veldur aftur hækkun á verðtryggðri leigu. Við verðum að koma í veg fyrir þann vítahring. Bæði krónan og verðtryggingin eru sjálfvirk hagstjórnartæki sem varpa ábyrgð af hagstjórn af ríkisstjórn, Seðlabanka og fjármálafyrirtækjum yfir á almenning, sem borgar fyrir hagstjórnarmistök þessara aðila.
Innleiðum velsældarhagkerfið
Efnahagsmálum þarf að haga út frá sjónarmiðum velsældar- og hringrásarhagkerfisins. Þannig stuðlum við að velsæld og lífsgæðum, en tryggjum um leið grunnþarfir almennings og förum vel með auðlindir. Alþjóðlegar reglur og staðlar hafa bæst við á síðustu árum sem munu hafa áhrif hérlendis strax á næsta ári og þá þarf atvinnulífið og hið opinbera að vera tilbúið.
Tæklum spillinguna og tryggjum sanngjarnt og réttlátt skattkerfi
Píratar leggja áherslu á að opinbert eftirlit virki fyrir almenning gegn starfsemi sem svindlar á fólki. Efla þarf lögreglu, skattrannsóknir og samkeppniseftirlit, slíkt verndar heiðarlega starfsemi og almenning. Dæmin um vinnumansal, kennitöluflakk, þunna eiginfjármögnun og ýmiss konar misnotkun eru of mörg. Við ætlum að loka skattaglufum og endurskoða skattkerfið með almannahagsmuni, réttlæti og sanngirni að leiðarljósi.
Píratar vilja létta skattbyrði af þeim sem minnst hafa, af barnafjölskyldum og skuldsettum. Endurskoða þarf fjármagnstekjuskatt, að ekki sé hægt að nota hann til að komast hjá því að greiða hátekjuskatt. Píratar vilja að hann sé þrepaskiptur með tilliti til tegundar fjármagnstekna. Setja skal á fót auðlindagjald fyrir hagnýtingu á sameiginlegum auðlindum, vinna gegn skattasniðgöngu stórfyrirtækja með því að taka betur á þunnri eiginfjármögnun og taka á lóðréttri samþættingu í sjávarútvegi með því að aðskilja veiðar og vinnslu.
Upprætum fátækt
Skattkerfið má ekki hafa íþyngjandi áhrif á þau sem eiga nú þegar erfitt með að ná endum saman. Píratar ætla að tryggja lágmarksframfærslu. Létta skattbyrði af þeim sem minnst hafa, hækka persónuafslátt og greiða fólki út þann persónuafslátt sem það nýtir ekki. Ísland er ríkt land sem getur upprætt fátækt því mega lágmarkslaun aldrei vera undir lágmarksframfærslu á hverjum tíma. Til lengri tíma vilja Píratar skoða kosti þess að koma á fót skilyrðislausri grunnframfærslu á Íslandi.
Nútímavæðum þjónustuna með stafrænni umbreytingu
Píratar ætla að tryggja ábyrgan ríkisrekstur með því að skoða hvernig hægt er að leysa verkefni hins opinbera á nýskapandi hátt með stafrænni umbreytingu og skapa þar með betri þjónustu. Nútímavæðing þjónustu bætir lífsgæði en minnkar jafnframt mengun, vesen og sóun. Píratar hugsa kerfin út frá þörfum notenda, að málin séu leyst á sem skilvirkasta, skynsamlegasta og hagkvæmasta hátt. Þannig nýtum við okkur tækifærin sem felast í tækni, nýsköpun og umbótahugsun þegar kemur að opinberri stjórnsýslu, menningu, listum, íþróttum, umhverfismálum, menntun, heilbrigðisþjónustu, velferðarþjónustu, öldrunarþjónustu og alls staðar þar sem hægt er að leysa málin á uppbyggilegri hátt.
Stöndum vörð um hagsmuni neytenda
Við alla ákvarðanatöku um atvinnu- og fjármál verða hagsmunir neytenda í fyrirrúmi. Hið opinbera á ætíð að stuðla að virkri samkeppni þar sem hætta er á fákeppni. Endurskoða þarf tollakerfið með hagsmuni neytenda í fyrirrúmi. Ákvarðanir um fjár- og efnahagsmál og hvernig skuli leysa þjónustu hins opinbera skulu byggja á gögnum um hvað sé hagkvæmast og best fyrir almenning hverju sinni, í stað þess að takmarkast af hægri-vinstri kreddum. Gæði, hagkvæmni og jafnt aðgengi allra að þjónustu er mikilvægara en hugmyndafræðilegt rekstrarform.
Eflum og styðjum við nýsköpun og grunnrannsóknir
Píratar munu stuðla að aukinni verðmætasköpun og styrkja tekjuöflun ríkissjóðs með fjölbreyttum atvinnustoðum. Þær munu byggja á hugviti ferkar en auðlindum. Áhersla er lögð á nýsköpun á breiðari grunni og fjölbreytt nýsköpun þannig tryggð. Má þar meðal annars nefna samfélagslega nýsköpun innan m.a. landbúnaðar, sjávarútvegs, ferðamennsku, velferðar, menntunar, heilbrigðis, umhverfis og græns iðnaðar, auk allra sviða skapandi greina og við uppbyggingu framtíðarinnviða. Sérstök áhersla verði lögð á að styrkja sjálfbærni og samfélagslegar lausnir. Þau sem nýta auðlindir skulu greiða fyrir það. Sú tekjuöflun á að nýtast í nýsköpun og rannsóknir. Aukin framleiðni, bæði á sviði hins opinbera og í atvinnulífinu, næst með áherslu á nýsköpun og rannsóknir.
Eflum gagnsæi, ábyrga áætlanagerð og lýðræði
Gagnsæi í fjármálum hins opinbera sem og í eignarhaldi fyrirtækja þarf að auka. Píratar munu gera meiri kröfur til kostnaðaráætlana í opinberum framkvæmdum og opna fjárlagagerð fyrir þátttökulýðræði. Einnig þarf að lýðræðisvæða fyrirtæki að fyrirmynd nágrannalandanna með því að gera starfsfólki hægara um vik að hafa aukin áhrif á stjórnun fyrirtækja.
Tryggjum sjálfbærni – umhverfismál eru efnahagsmál
Óspillt náttúra og sjálfbær nýting auðlinda eru framtíðarsparnaður okkar. Við gröfum undan stöðugleika með því að ganga á auðlindir okkar á ósjálfbæran hátt og verðum því að fara vel með náttúruna. Það er engin framtíð í mengun eða umhverfisslysum. Velsældarhagkerfi byggir á sjálfbærni sem stuðlar að efnahagslegum stöðugleika til framtíðar. Píratar munu því ávallt hafa hringrásarhagkerfið og loftslagsmálin að leiðarljósi við alla ákvarðanatöku, innleiða loftslagsbókhald og græn innkaup í öllum opinberum rekstri.
Fjármögnum grunninnviði samfélagsins, beitum forvörnum í heilbrigðis- og velferðarmálum og eflum menntakerfið
Forvarnir í heilbrigðis- og velferðarmálum skapa lífsgæði og draga úr kostnaði á seinni stigum. Píratar munu fjármagna gott heilbrigðiskerfi, með sérstakri áherslu á geðheilbrigðismál. Tækifæri til þess að tæknivæða og straumlínulaga heilbrigðisþjónustuna eru fjölmörg, og það kunna Píratar vel. Við munum auka aðgengi að menntun strax, sem stuðlar að meiri verðmætasköpun og skapandi lausnum á vandamálum samtímans og framtíðarinnar. Píratar munu uppfæra menntakerfið í samvinnu við fagfólk, allt frá leikskóla til háskóla og símenntunar, í takt við samfélags- og tækniþróun, byggt á okkar lýðræðishugsjón. Það tryggir tækifæri fyrir okkur öll til framtíðar.
Stuðlum að sátt á vinnumarkaði með sanngjörnum launum fyrir starfsstéttir grunninnviða
Sátt þarf að nást á vinnumarkaði, sérstaklega varðandi kaup og kjör starfsstétta þeirra samfélagslegu grunninnviða sem viðhalda góðu samfélagi. Við verðum að forðast misskiptingu auðs því hún grefur undan samfélagssáttmálanum.