Atvinnu- og nýsköpunarstefna Pírata
Sjálfbær verðmætasköpun og lausnir framtíðarinnar
Sjálfvirknivæðing, gervigreind og aðrar tækninýjungar breyta bæði samfélaginu og atvinnulífinu hratt. Ein stærsta áskorun næstu ára felst í því að rækta nútímalegt samfélag þar sem ávinningi tækniframfara er dreift með sanngjörnum hætti. Til að tryggja sjálfbært samfélag sem getur tekist á við þessar áskoranir, leggjum við höfuðáherslu á að gera Ísland að nýsköpunarlandi þar sem tækifærin eru til staðar fyrir fólk um allt land. Með öflugri, sjálfbærri og grænni uppbyggingu innviða í öllum sveitarfélögum landsins viljum við skapa framtíð sem byggir á fjölbreytni og samfélagslegri nýsköpun. Það er nauðsynlegt að koma í veg fyrir langtímaatvinnuleysi með því að bjóða upp á nýjar leiðir, efla nýsköpun og fjölga undirstöðum íslensks iðnaðar.
Píratar ætla að
Efla nýsköpun um land allt
Byggja upp græna og örugga innviði
Gera Ísland að miðstöð þekkingar og grænnar nýsköpunar
Gera sjálfbæra ferðamála- og iðnaðarstefnu
Gera Ísland tilbúið til þess að takast á við gervigreind
Frelsa handfæraveiðarnar og styðja við atvinnutækfæri víða um land
Stuðlum að sjálfbærari ferðaþjónustu svo samfélagið í heild njóti góðs af ferðaþjónustunni
Uppfærum landbúnaðarkerfið með beinum stuðningi til virkra bænda
Efling nýsköpunar um allt land
Meiri áhersla á nýsköpun er lykillinn að því að takast á við síbreytilegan heim. Byggja þarf upp aðstöðu til nýsköpunar um allt land í náinni samvinnu við sveitarfélög og frumkvöðla. Einnig þarf að einfalda stofnun, skipulag og fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja til að hvetja til frumkvæðis og nýsköpunar. Styrkir til nýsköpunar eiga að vera öflugir og einfaldir til umsóknar, með sérstakri áherslu á græna sprota, opin gögn, sjálfbærar og samfélagslegar lausnir. Píratar munu innleiða nýsköpun í menntakerfinu og opinberum rekstri til að ná hagræði með nýrri tækni og þekkingu.
Uppbygging grænna og öruggra innviða
Til að styðja við sjálfbæra þróun viljum við ljúka ljósleiðaravæðingu allra byggðakjarna landsins og tryggja örugg fjarskipti um land allt. Tryggja skal dreifingu þriggja fasa raforku óháð veðurfari og nota umhverfisvæna orku í sjálfbæran iðnað. Píratar vita að skilvirkar og umhverfisvænar samgöngur með fullfjármagnaðri samgönguáætlun virka og munu aukna áhrif hvers landshluta á forgangsröðun. Stuðla skal að umhverfisvænni uppfærslu í frárennslis-, endurvinnslu- og sorpmálum í samvinnu við sveitarfélögin. Píratar styðja við bindingu og föngun gróðurhúsalofttegunda og munu framkvæma stórátak í orkuskiptum.
Ísland sem miðstöð þekkingar og grænnar nýsköpunar
Píratar stefna að því að stofna alþjóðlegt þekkingar- og nýsköpunarsetur á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Við munum auka samvinnu við háskóla innan lands og utan, með áherslu á kennslu, rannsóknir, tilraunasvæði, opin gögn og nýsköpun, og setja upp alþjóðleg lausnamót, nýsköpunarhraðla og fjárfestingarsjóði í samvinnu við íslenskt og alþjóðlegt atvinnulíf. Ísland verður þekkingarmiðstöð framtíðarsamfélagsins, sem laðar að sér sérfræðinga og frumkvöðla.
Sjálfbær ferðamála- og iðnaðarstefna
Til að tryggja réttlátt samfélag í takt við tækniframfarir vilja Píratar framfylgja heildstæðri iðnaðarstefnu fyrir Ísland sem setur sjálfbæra þróun í forgang. Það þarf að lýðræðisvæða fyrirtæki með fulltrúum starfsmanna í stjórnum, eftir fyrirmyndum annarra Norðurlanda. Tryggja skal réttlát umskipti og sanngjarna skiptingu auðs og gæða í grænni umbyltingu hagkerfisins. Píratar leggja áherslu á að ferðaþjónustu verði stýrt á sjálfbæran hátt til að verndar náttúrunni og tryggja langvarandi ávinning fyrir samfélagið. Styrkja skal nýsköpun í ferðaþjónustu, með áherslu á menningu, náttúru og samfélagslega ábyrgð.
Ísland – tilbúið í gervigreind
Aðlaga námskrár á öllum skólastigum til að innihalda kennslu í gervigreind, gagnavísindum og forritun. Endurmenntun og símenntun þarf einnig að mæta framtíðinni og bjóða fólki upp á fræðslu um síbreytilegt samfélag. Rannsaka þarf hvaða störf eru í mestri hættu vegna sjálfvirknivæðingar og hvernig megi bregðast við því. Er það liður í að tryggja að umskipti yfir í sjálfvirkara hagkerfi verði sanngjörn og að enginn hópur verði útundan. Setja þarf reglur og viðmið um notkun gervigreindar til að vernda persónuvernd, gagnsæi og ábyrgð. Píratar telja mikilvægt að rannsaka möguleg áhrif gervigreindar á samfélagið og lýðræðið í þeim tilgangi að undirbúa okkur undir þau tækifæri og áskoranir sem fylgja þróun gervigreindar. Mikilvægt er að fara í mótvægisaðgerðir til að vinna gegn skaðlegum áhrifum tækniþróunar á samfélagið og komandi kynslóðir.