Ályktun af aðalfundi Pírata árið 2023

Aðalfundur Pírata árið 2023 var á laugardaginn, var haldinn á KEX hostel og var vel mætt. Á fundinum lagði stefnu- og málefndanefnd fram tillögu að ályktun sem var lítilleg breytt og hún samþykkt með meirihluta á fundinum.

Aðalfundur Pírata lýsir yfir eindregnum stuðningi við hinsegin samfélagið á Íslandi. Samfélag þar sem öllum er frjálst að vera þau sjálf er forsenda lýðræðis, sem er Pírötum hjartans mál. 

Verulegt bakslag hefur orðið í virðingu fyrir sjálfsögðum mannréttindum hinsegin fólks og telja Píratar nauðsynlegt að ráðast í tafarlausar aðgerðir til þess að sporna gegn þessari þróun. Píratar hvetja forsætisráðherra eindregið til þess að setja aftur á dagskrá þingsins tillögu sína um aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu sem því miður er ekki að finna á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir komandi þingvetur. Öryggi og frelsi hinsegin fólks má ekki fórna í pólitískum hrossakaupum.  

Orð geta verið öflugt vopn gegn jaðarsettu fólki, og því er brýnt að öll taki höndum saman til þess að koma í veg fyrir að orð séu notuð til þess að grafa undan öryggi fólks og mannréttindum. Þetta er ekki einungis á ábyrgð stjórnvalda, heldur einnig fjölmiðla sem kunna að veita þessari vonsku vettvang. Píratar hvetja fjölmiðla til þess að tryggja að hvorki rangfærslum né hræðsluáróðri um hinsegin fólk sé dreift á þeirra miðlum.  

Mikilvægi hinseginfræðslu til þess að sporna gegn fordómum og hatri ber að undirstrika sérstaklega. Öll börn óháð kynvitund, kynhneigð eða kyntjáningu eiga rétt á því að læra um sig sjálf. Uppræting fordóma er lykilatriði í því að mynda friðsamari heild þar sem allir einstaklingar geta blómstrað og verið þau sjálf án nokkurs ótta. Því fyrr sem við getum komið í veg fyrir fordóma, því betra.

Forrige
Forrige

Píratar í Kópavogi álykta um lýðræðisvitund og málefni innflytjenda

Næste
Næste

Hvað með um­sækj­endur, Bjarni Ben?