3. sæti Píratar í Reykjavík
f. 8. febrúar 1982
Sjálfstætt starfandi lögmaður. BA gráða í heimspeki frá Háskóla Íslands. Meistaragráða í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Tveggja barna faðir og eiginmaður.
Á starfsferli mínum sem sjálfstætt starfandi lögmaður hef ég sinnt fólki sem hefur átt undir högg að sækja af ýmsum ástæðum og átt sér fáa ef einhverja málsvara. Ber þar hæst störf mín í þágu hælisleitenda en sá málaflokkur er pólitískur í eðli sínu. Barátta mín á þeim vettvangi hefur skilað árangri fyrir fjölda einstaklinga og fjölskyldna sem áður horfðu fram á brottvísun úr landi en fengu tækifæri til að setjast hér að og taka þátt og leggja sitt af mörkum til íslensks samfélags.
Sem stjórnmálamaður langar mig almennt að útvíkka baráttu mína þannig að unnið sé að heildstæðum kerfisbreytingum til hagsbóta fyrir þá hópa samfélagsins sem hafa borið skarðan hlut frá borði, hvort sem það er fólk sem hefur misst vinnuna, láglaunafólk, erlent vinnuafl, hælisleitendur, vanrækt börn eða sá stóri hópur sem hvorki hefur efni á húsnæði til leigu né kaupa svo dæmi séu nefnd. Baráttan er enn sú sama en er háð á öðrum og stærri vettvangi stjórnmálanna þar sem tækifæri gefst til að efla hag fleiri einstaklinga á heildstæðum grunni. Þetta á ekki hvað síst við á sveitarstjórnarstigi þar sem ráðandi öflum hverju sinni gefst tækifæri til þess að bæta lífsgæði jaðarsettra hópa.
Að öðru leyti tel ég að Píratar í borgarstjórn síðustu ára hafi unnið ákaflega gott starf, sama hvort litið er til eflingu lýðræðis, dreifingu valds, gagnsæis, stafrænnar umbyltingar, baráttu gegn heimilisleysi eða aukinni áherslu á mannréttindavernd, nýsköpun og umhverfismál. Ég hlakka til að vinna með öðrum frambjóðendum að áframhaldandi góðu starfi í samræmi við grunnstefnu Pírata og aðrar samþykktar stefnur.