Aðalfundur Pírata

Loading Events

« All Events

  • This event has passed.

Aðalfundur Pírata

September 26 @ 12:00 - September 27 @ 16:00

Kæru Píratar.

Framkvæmdaráð Pírata boðar til aðalfundar Pírata þann 26. og 27. september nk.

Aðalfundur Pírata 2020 verður að ýmsu leiti tímamóta fundur í sögu félagsins; til dæmis er þetta síðasti aðalfundur Pírata sem framkvæmdaráð boðar til, en á þessum fundi mun ný framkvæmdastjórn taka við aðalfundakeflinu í samræmi við allsherjar endurskipulagningu í innra starfi Pírata.

Ein af mörgum sérstöðum Pírata í Íslenskum stjórnmálum er áhersla á nýsköpun í skipulagi og ferlum, og metnaður fyrir því að breyta og bæta þegar aðstæður krefja. Þannig höfum við byggt mikinn sveigjanleika í lög okkar og menningu sem gerir okkur kleift að bregðast við breyttum þörfum félagsins. Fráfarandi framkvæmdaráð bindur miklar vonir við nýtt fyrirkomulag og hvetur sem flest til að bjóða fram krafta sína við að móta næsta kafla í sögu Pírata.

Aðalfundur í fjarfundi

Önnur nýbreytni við fundinn er að hann verður haldinn í fjarfundi. Til stóð að halda fundinn í kjötheimum utan höfuborgarsvæðisins, og nýta tækifærið til að hrista hópinn saman fyrir kosningar. Covid-19 hefur því miður sett strik í þann reikning og til að gæta allrar varkárni í sóttvörnum var afráðið að halda aðalfund 2020 í fjarfundi, en nokkur aðildarfélög Pírata hafa þegar haldið aðalfundi í fjarfundi við góða raun.

Fundurinn fer fram á fundir.piratar.is og verður stýrt frá Tortuga af starfsfólki, framkvæmdaráði og öðrum skipuleggjendum. Aðrir fundargestir munu taka þátt í fjarfundi. Nánara fyrirkomulag, hlekkur á fjarfundinn, fylgigögn, dagskrá og aðrar upplýsingar vegna aðalfundar munu berast félagsmönnum fyrir 11. september næstkomandi, en áætlað er að fundurinn standi frá kl 12-16 laugardag og sunnudag. Fyrirspurnir og tillögur um framkvæmd fundarins eru vel þegnar og óskast sendar á framkvaemdastjori@piratar.is og/eða framkvaemdarad@piratar.is

 

Um skipulagsbreytingar

Frá stofnun Pírata árið 2012 hefur framkvæmdaráð Pírata annast almenna stjórn og rekstur félagsins, að því leiti sem hún er ekki í höndum annarra eininga félagsins. Valddreifing er Pírötum hugleikin og markmiðið með skipulaginu hefur alltaf verið að aðskilja pólitík frá rekstri og tryggja skýr valdmörk. Eftir því sem flokkurinn hefur vaxið og dafnað hefur þó borið á minnkandi skýrleika í skiptingu ábyrgðar og sífellt fleiri og fjölbreyttari verkefni endað á borði 10 manna framkvæmdaráðs. Vorið 2019 var ráðist í endurskipulagningu í opnu ferli og var tillagan; Lagabreyting um stjórnir ráð og nefndir á vegum Pírata, samþykkt í febrúar.

Nýja skipulagið tekur gildi frá aðalfundi 2020 en í því er verkefnum framkvæmdaráðs skipt niður á þrjú minni ráð; Framkvæmdastjórn, Fjármálaráð og Stefnu- og málefnanefnd. Markmiðið með skiptingunni er sem fyrr segir að skýra ábyrgðarsvið og hlutverk ráða og nefnda, að tryggja að ábyrgð og vald haldist í hendur og að dreifa ákvörðunarvaldi með áhrifaríkari hætti.

Framkvæmdastjórn

Framkvæmdastjórn Pírata setur stefnu um rekstur félagsins og annast almenna stjórn og rekstur þess að svo miklu leyti sem hún er ekki í höndum aðildarfélaga. Framkvæmdastjórn ræður framkvæmdastjóra félagsins. Kosið verður í 2 sæti til tveggja ára og 1 sæti til eins árs á aðalfundi 2020.

Fjármálaráð

Hlutverk fjármálaráðs er að tryggja gegnsæi, valddreifingu og vönduð bókhaldsvinnubrögð í fjármálum. Ráðið ber ábyrgð á að gera fjárhagsáætlun, setja og fylgja eftir verklagsreglum um fjármálaumsjón félagsins og sjá um fjárveitingar til aðildarfélaga. Kosið verður í 2 sæti til tveggja ára og 1 sæti til eins árs á aðalfundi 2020.

Stefnu- og málefnanefnd

Stefnu- og málefnanefnd er aðilum innan Pírata til aðstoðar varðandi stefnumótun og málefnastarf innan flokksins. Meðal verkefna nefndarinnar er að skipuleggja Pírataþing, en það eru fundir með stærra sniði þar sem vinna skal að stefnumótun og málefnum í breiðu samráði félagsmanna. Í aðdraganda alþingiskosninga sér nefndin um að útbúa kosningastefnuskrá byggða á samþykktum stefnum Pírata. Kosið verður í 3 sæti til tveggja ára og 2 sæti til eins árs á aðalfundi 2020.

Frekari upplýsingar um hlutverk og ábyrgðir hinna nýju ráða má lesa á github.com/piratar/log.piratar.is > https://github.com/piratar/log.piratar.is/blob/master/L%C3%B6g%20og%20rekstrarstefnur%20P%C3%ADrata/L%C3%B6g%20P%C3%ADrata%20%C3%81%20%C3%8Dslandi.md

 

Kjör í embætti á aðalfundi 2020

Kosning í þessi nýju embætti, sem og úrskurðarnefnd, kjörstjórn og skoðunarmanna reikninga, fer fram í kosningakerfi Pírata á meðan aðalfundi stendur. Þeim til viðbótar er óskað eftir tilnefningum til trúnaðarráðs og skemmtinefndar en framkvæmdastjórn mun skipa í þau hlutverk í kjölfar aðalfundar.

Opnað verður fyrir framboð í dag, fimmtudaginn 27. ágúst kl 16:00, en nánari leiðbeiningar um kosningarnar og upplýsingar um umræddar trúnaðarstöður munu berast í sér pósti síðar í dag.

 

Kosningar framundan

Alþingiskosningar munu fara fram laugardaginn 25. september 2021, nákvæmlega einu ári frá aðalfundinum. Það má því segja að fundurinn marki upphaf kosningabaráttu Pírata. Þátttaka í kosningum er á ábyrgð aðildarfélaga á kjörsvæði og hófst undirbúningur þeirra í vor með samráðsfundum allra kjördæmafélaga með framkvæmdastjóra. Vinna við prófkjörsreglur, stefnumótunarferli og kynningarferli er hafin í öllum kjördæmum og sums staðar komin vel á veg. Áhersla samráðsins hefur verið á opin samskipti um þær ólíku áherslur og áskoranir sem félögin standa frammi fyrir, gagnkvæma virðingu og samvinnu til sigurs.

Á aðalfundi verður stutt kynning á stöðu undirbúnings í hverju kjördæmi fyrir sig, en skipulagning kosningabaráttu bíður nýs stefnu-og málefnaráðs, sem hefur það hlutverk að aðstoða kjördæmisráðin við samræmingu kosningabaráttunnar. Áætlað er að endanlegt skipulag kosningabaráttunnar verði kynnt félagsfólki fyrir lok nóvember.

Undanfarin ár hefur stefna Pírata fundið sterkari og jafnari hljómgrunn meðal landsmanna en það má m.a. sjá á skoðanakönnum og kosningum. Greinilegt er að grunnstefna okkar er komin til að vera. Ástæðuna fyrir því má rekja m.a. til þrotlausrar vinnu kjörinna fulltrúa og grasrótar við að kynna og tala fyrir hugmyndum Pírata, en ekki síður til þess að hreyfingin samanstendur af fólki sem hefur trú á og stendur vörð um þau gildi sem endurspeglast í grunnstefnu Pírata.

Útlitið er bjart fyrir Pírata í komandi kosningabaráttu; Með grunngildin okkar að leiðarljósi, og samvinnu, metnað og vinnusemi í farteskinu getum við gert eitthvað magnað 😉
Nánara fyrirkomulag, hlekkur á fjarfundinn, fylgigögn, dagskrá og aðrar upplýsingar vegna aðalfundar munu berast félagsmönnum fyrir 11. september.

Yarr!

  • Framkvæmdaráð Pírata

 

Details

Start:
September 26 @ 12:00
End:
September 27 @ 16:00