Mál 8/2016 Vegna ásakana um kosningasmölun í Norðvestur kjördæmi

Úrskurðarorð

Þórður Guðsteinn Pétursson braut ekki gegn reglu 8e í prófkjörsreglum Kjördæmaráðs Pírata á Norðvesturlandi. Reglan, sem bannar kosningasmölun, tók ekki gildi fyrr en eftir að smölunin átti sér stað.

Með úrskurði þessum fellur bráðabirgðaúrskurður vegna máls þessa frá 20. ágúst 2016 úr gildi.

Málsmeðferð

Úrskurðarhæfi kærunnar

Þann 19. ágúst tók Úrskurðarnefnd kæruna fyrir á fundi sínum. Niðurstaða nefndarinnar var að hún taldi kæruna ekki vanreifaða og að hún fjallaði um mál er félli undir lögsögu nefndarinnar sbr. grein 8.1. í lögum Pírata. Þar segir:  „Ágreining um framkvæmd, túlkun og brot á lögum þessum skal vísa til úrskurðarnefndar sem úrskurðar í málinu.“ Úrskurðarhæfi kærunnar var samþykkt af öllum nefndarmönnum Úrskurðarnefndar. Nefndin taldi því kæruna tæka til málsmeðferðar.

Lögsaga

Kæran snýr að broti á reglu 8.e. í prófkjörsreglum kjördæmaráðs Pírata í Norðvestur kjördæmi. Reglan segir orðrétt: „Kosningasmölun er óheimil og er lagt blátt bann við því að frambjóðendur bjóði kjósendum efnisleg gæði í skiptum fyrir atkvæði þeirra.“ Þessar reglur eru settar með stoð í grein 14.6 í lögum Pírata sem heimilar ábyrgðaraðilum prófkjöra að setja frekari reglur um framkvæmd prófkjöra en lögin segja til um. Grein 14.6 hljóðar svo: Ábyrgðaraðila er heimilt að setja frekari reglur um framkvæmd kjörs á framboðslista. Í slíkum reglum er heimilt að kveða á um skilyrði atkvæðisréttar í kosningu á framboðslista. Félagsmaður, sem getur sýnt fram á að hann muni að óbreyttu hafa kosningarrétt við Alþingiskosningar, skal ætíð hafa atkvæðisrétt í kosningum á framboðslista í kjördæmi sínu. Þó má gera kröfu um að félagsmaður hafi verið skráður um ákveðið tímabil áður en kosning fer fram.“

Í Grein 10 í prófkjörsreglunum segir: „Álitamál er kunna að koma upp í prófkjöri Pírata í NV kjördæmi verða tekin fyrir til úrskurðar hjá framkvæmdaráði Pírata.“ Kærendur kærðu meint brot til Framkvæmdaráðs sem óskaði eftir því að Úrskurðarnefnd tæki málið til efnislegrar meðferðar.

Efnisleg meðferð

Úrskurðarnefnd barst kæra þann 19. ágúst 2016. Kærendur voru Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir framkvæmdastjóri Pírata og Jóhann Kristjánsson kosningastjóri Pírata (hér eftir kærendur). Í kærunni óskuðu kærendur eftir því að Úrskurðarnefnd myndi skera úr um hvort að Þórður Guðsteinn Pétursson (hér eftir nefndur kærði), sem varð í 1. sæti í prófkjöri Pírata á Norðvesturlandi, hafi gerst sekur um kosningasmölun í aðdraganda prófkjörsins. Einnig var þess óskað að kannað væri hvort að hann hafi með hegðun sinni brotið gegn e-lið 8. greinar prófkjörsreglna kjördæmisráðs Pírata á Norðvesturlandi (hér eftir prófkjörsreglurnar).

Kærendur óskuðu eftir því að málið fengi flýtimeðferð í samræmi við ákvæði 10. kafla málsmeðferðarreglna Úrskurðarnefndar. Í ljósi þess að málið varðar mikilvæga hagsmuni fyrir bæði Pírata í heild og jafnframt fyrir hinn kærða aðila, var ákveðið að verða við þeirri ósk.

Tveir af aðalmönnum úrskurðarnefndar Pírata, Olga Cilia og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, hafa lýst sig vanhæfar til að koma að máli nr. 8/2016. Varamaður í Úrskurðarnefnd, Gunnar Ingiberg Guðmundsson var þátttakandi í prófkjörinu á Norðvesturlandi. Aðalmenn Úrskurðarnefndar úrskurðuðu hann því vanhæfan í málinu á grundvelli b-liðar greinar 5.1 í málsmeðferðarreglum Úrskurðarnefndar Pírata. Herbert Snorrason, sem var einnig varamaður í nefndinni sagði sig úr nefndinni með tölvupósti þann 17. ágúst 2016.

Þar sem meirihluti aðalmanna nefndarinnar teljast vanhæfir í málinu, og varamaður einnig, ákváðu aðalmenn Úrskurðarnefndar samhljóða að beita grein 3.6 í málsmeðferðarreglum nefndarinnar og skipa óháða aðila í nefndina, til meðferðar tiltekins máls. Skv. grein 3.7 í málsmeðferðarreglunum skal tryggja að hinir óháðu aðilar hafi góða þekkingu á íslenskum lögum sem og lögum Pírata. Á grundvelli þessarar greinar ákváðu aðalmenn Úrskurðarnefndar, Helgi Bergmann, Olga Margrét Cilia og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir að skipa þá Birgi Steinarsson og Hafþór Sævarsson sem óháða aðila í Úrskurðarnefnd í máli nr. 8/2016.

Kærða var með tölvupósti þann 20. ágúst 2016 send kæran og var honum boðið að koma að rökstuðningi og gögnum í málinu. Kærði svaraði með tölvupósti þann 21. ágúst. Í því skyni að rannsaka málið betur óskaði Úrskurðarnefnd þann 21. ágúst í tölvupósti eftir því að Framkvæmdaráð myndi senda nefndinni gögn um skráningu meðlima í öll aðildarfélög Pírata undanfarna 6 mánuði. Framkvæmdaráð varð við því og sendi gögnin með tölvupósti þann 22. ágúst.

Úrskurðarnefnd sendi einnig beiðni á kjördæmisráð Norðvesturkjördæmis þann 21. ágúst þar sem óskað var eftir gögnum um tilurð prófkjörsreglna Norðvesturkjördæmis. Einnig var óskað eftir gögnum um með hvaða hætti og hvenær reglurnar voru kynntar frambjóðendum í prófkjörinu. Svar barst frá ritara kjördæmaráðsins í tveimur tölvupóstum þann 22. ágúst þar sem gögnin var að finna. Staðfesting á því hvenær tölvupóstur var sendur á frambjóðendur þar sem reglurnar var að finna kom svo í tölvupósti frá Ágústi Beaumont þann 22. ágúst.

Úrskurðarnefnd hitti Bjarna Rúnar Einarsson kerfisstjóra Pírata þann 21. ágúst. Bjarni lét nefndinni í té þau gögn sem hann hafði notað til að framkvæma tölfræðigreiningu sína. Þess ber að geta að gögnin sem voru notuð og sem nefndin fékk í hendur voru ekki persónugreinanleg og auk þess lá fyrir að þau yrðu gerð opinber innan skamms í nafni gagnsæis, af hálfu Pírata.

Úrskurðarnefnd ákvað að leita álits sérfróðs aðila á tölfræðigreiningu Bjarna Rúnars Einarssonar kerfistjóra. Því sendi Úrskurðarnefnd með pósti þann 22. ágúst beiðni til Ólafs Birgis Davíðssonar tölfræðings við Háskólann í Reykjavík um að hann myndi fara yfir og gefa mat sitt á tölfræðigreiningunni og á gögnum þeim sem lágu að baki greiningunni. Svör bárust frá Ólafi Birgi í nokkrum tölvupóstum dagana 23-24. ágúst.

Málsatvik

Undirbúningur aðildarfélaga Pírata á Norðvesturlandi fyrir prófkjör hófst snemma á árinu 2016. Ákveðið var af aðildarfélögunum að mynda kjördæmaráð fyrir kjördæmið í heild og myndi það annast undirbúning prófkjörs í samræmi við lög Pírata. Á vormánuðum varð ljóst að vegna yfirlýsinga stjórnvalda um að kosningum yrði flýtt myndi kjördæmisráðið þurfa að flýta áætlunum sínum. Kjördæmaráð samdi og í kjölfarið birti prófkjörsreglur fyrir prófkjörið, og voru þær samþykktar á fundi kjördæmaráðs 10. júlí 2016. Í 2. grein prófkjörsreglnanna sagði að kosningarétt í prófkjörinu hefðu allir félagsmenn Pírata sem hefðu lögheimili í Norðvesturkjördæmi sem skráðir hefðu verið í skráningarkerfi Pírata 30 dögum áður en prófkjörskosning hæfist. Var jafnframt ákveðið sama dag að prófkjörið myndi fara fram dagana 8.-14. ágúst 2016.

Prófkjör Pírata á Norðvesturlandi fór fram á x.piratar.is dagana 8-14. ágúst 2016 í samræmi við ákvörðun kjördæmaráðsins. Í kjölfar þess að niðurstaða prófkjörsins kom í ljós, þar sem kærði varð í 1. sæti, fór fram umræða í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum þar sem því var haldið fram að kærði hafi stundað smölun í aðdraganda prófkjörsins. Kærendur sendu inn kæru til Úrskurðarnefndar á grundvelli þessara ásakana 19. ágúst 2016.

Rök kærenda

Á grundvelli ásakana á hendur kærða um kosningasmölun leituðu kærendur eftir áliti kerfisstjóra Pírata, Bjarna Rúnars Einarssonar, og framkvæmdi hann tölfræðigreiningu á niðurstöðum prófkjörs í Norðvestur og bar þær saman við niðurstöður annarra prófkjara á landinu.

Í áliti kerfisstjóra kom neðangreint fram:

,,Tölfræðigreining á kjörseðlum prófkjörsins í Norðvesturkjördæmi gefa mjög sterklega til kynna að hópur kjósenda hafi markvisst tekið sig saman um að hygla Þórði umfram aðra, en hann hlaut fyrsta sæti í kosningunni.

Það sem ég tel renna stoðum undir þessa kenningu er eftirfarandi:

  1. Af 95 greiddum atkvæðum, voru 18 (tæp 19% greiddra atkvæða) sem innihéldu bara nafn Þórðar. Þetta er frekar óvenjulegt, en hæsta hlutfall eins-manns atkvæðaseðla úr öðrum prófkjörum í sumar var 7%. Þrátt fyrir þessa skekkju innihélt meðalkjörseðill í NV sjö einstaklinga og yfir fimmtungur kjósenda röðuðu öllum frambjóðendum. Þessi stöku atkvæði Þórðs eru því enn einkennilegri í samanburðinum.
  1. Þegar dreifing atkvæða Þórðs er skoðuð, er hann með mörg atkvæði (32) í fyrsta sæti, en tiltölulega fá í neitt annað – mest 5 atkvæði í 2. og 8. sæti. Ef gögn sigurvegara úr öðrum prófkjörum eru skoðuð að þeir sem hlutu góða kosningu þar fengu ekki bara mörg atkvæði í fyrsta sæti, heldur einnig í 2. og 3. sæti og fara tölurnar minnkandi smám saman eftir því sem neðar dregur.
  1. Ef aðrir frambjóðendur í NV eru skoðaðir í sama ljósi, sést að atkvæðin dreifast mun jafnar hjá þeim. Kjósendur Þórðs eru því að haga sér ólíkt öðrum kjósendum í NV kjördæmi, ekki bara ólíkt kjósendum í öðrum kjördæmum.

Af þessu má sjá að fylgi Þórðar er annars eðlis en fylgi annarra frambjóðenda.

Gögn af þessu tagi gefa okkur auðvitað enga innsýn inn í hversvegna kjósendur Þórðar höguðu sér ólíkt öðrum, en það fer heldur ekki á milli mála að eitthvað óvenjulegt var á seyði.

Þar sem Þórður var fram að þessu hvorki fræg né umdeild persóna í kjördæminu (að mér vitandi), finnst mér sennilegasta skýringin á þessu öllu saman, að hópur kjósenda hafi gert með sér samsæri um að kjósa Þórð í fyrsta sæti.” Bjarni Rúnar Einarsson

Rök kærða

Kærði svaraði kærunni með tölvupósti þann 21. ágúst. Svar hans fer hér á eftir:

„Ég hef ákveðið að bregðast eins skjótt og auðið er við kæru þessari, þar sem mér þykir ekki fullljóst af bréfi þessu, að hverju nákvæmlega hún snýr.

Snúi kæran að því að hvort ég hafi í þátttöku minni í prófkjöri í Norðvesturkjördæmi, gerst brotlegur við grein 8e í prófkjörsreglum Norðvesturkjördæmis geri ég við það eftirfarandi athugasemdir:

– Er varðar boð á efnislegum gæðum í skiptum fyrir atkvæði kjósenda vísa ég slíku alfarið á bug.

– Hvað varðar kosningasmölun, þá sé ég mér ekki fært um að bregðast við ásökunum þess efnis, á meðan hugtakið er ekki skilgreint frekar. Ég óska því eftir frekari á útlistun á því hvað telst til kosningasmölunar. Enn fremur tel ég að hugtakið þurfi að hafa verið skilgreint í almennum lögum eða bókstaf Pírata fyrir prófkjör. Ég tel óboðlegt að dæma eftir hugtökum sem skilgreind hafa verið eftir að prófkjör hefur farið fram.

Snúi kæran að grein 8e, óska ég því eftir nákvæmari útlistun á því hvað kosningasmölun er, svo ég geti svarað sannleikanum samkvæmt um það hvort ég hefi gerst sekur um slíkt eður ei.

Einnig set ég spurningamerki við hvort hér sé verið að virða kosningarleynd og þar með jafnvel friðhelgi einkalífs með því að rýna í það hvernig kjósendur haga sínum atkvæðum.

Enn fremur lýsi ég undrun minni á áliti kerfisstjóra þess efnis að sennilegast hafi hópur kjósenda gert með sér samsæri um að kjósa mig í fyrsta sæti. Persónulega lýsi ég því a.m.k. yfir að ég hef ekki hlutast neitt til um meint samsæri og þætti mér með ævintýralegum ólíkindum ef slíkt myndi sannast á hóp kjósenda prófkjörsins.“

Gögn málsins

Skráning í aðildarfélög

Prófkjörið í Norðvesturkjördæmi fór fram dagana 8-14. Ágúst 2016. Af gögnum um skráningu í aðildarfélög á Norðvesturlandi má sjá að mikil aukning var meðal meðlima fyrstu tvær vikurnar í júlí 2016, en þær vikur skráðu sig annars vegar 20 manns og hins vegar 28 manns í félagið. Sú skráning er margfalt meiri en skráning allra annarra vikna árið 2016. Þegar þetta er borið saman við önnur aðildarfélög Pírata á sama tímabili má sjá að mikil aukning varð meðal skráðra meðlima í flestöllum aðildarfélögunum um þessar mundir. Til að mynda skráðu rúmlega 250 manns sig í Pírata í Reykjavík fyrstu tvær vikurnar í júlí. Skráningargögnin má finna hér.

Tölfræðigreining á kjörgögnum

„Á myndina [Mynd 1: Efstu sæti] er ég búinn að teikna atkvæðadreifingarnar (í prósentum) fyrir efsta sætið í hverju kjördæmi fyrir sig til að geta borið saman hegðun efstu sætanna. Það er að segja, ég er að bera samam atkvæðadreifingarnar fyrir “jonthorgal”, “EinarBrynjolfsso”, “doddip2” og “smari”.

Fyrsta þyrpingin af stöplum á myndinni eru hlutföll atvæða fyrir þennan kandídat í fyrsta sæta af atkvæðunum sem hann/hún fékk. Þyrping tvö eru hlutföll atvæða sem kandídatar fengu sem raða þeim í sæti 2 og svo framvegis.

Við fyrstu sýn þá er enginn sérstakur munur á hegðun þessara kandídata þegar hlutfall atkvæða sem þeir fengu fyrir fyrsta sætið er skoðað. Hegðunin er mest ólík á höfuðborgarsvæðinu sem skýrist líklega af því að það eru miklu fleiri frambjóðendur sem er hægt a velja úr. Þegar NA,NV og S eru borin saman þá skerast öryggisbilin milli þeirra allra og ekki hægt að segja að fjöldinn sem doddip2 fékk séu fleiri en mætti búast við í kosningum sem þessum.

Helsti munurinn milli doddap2 og hinna kemur kannski í ljós þegar maður skoðar fjölda atkvæða sem hann fær fyrir lægri sæti. Til dæmis: Að meðaltali þá eru sirka 20 prósent atkvæða sem frambjóðendur fá þannig að þeir eru settir í 2. sæti. Af atvæðunum sem doddip2 fékk þá eru tæð 8% þeirra sem raða honum í 2. sæti, sem er mikið lægra en gildir fyrir hina. Hinsvegar þá er þetta ekki marktækt lægra (tölfræðilega) en t.d. það sem gerist í suðurkjördæmi.

Öryggisbilin fyrir höfuðborgarsvæðið eru lang minnst því þar höfum við mest af gögnum.

Í fljótu bragði og byggt á þessari mynd þá finnst mér ekki hægt að segja að hans atkvæðadreiging sé mikið frábrugðin atkvæðadrefingu hinna “listaleiðtoganna”.

Einn munur sem ég tek eftir í gögnunum er í hlutföllum kjósenda sem kjósa eitthvað meira en bara fyrsta sætið. Hlufall kjósenda (með vikmörkum) í höfuðborginni sem kjósa fyrsta sæti og kjósa líka einhvern í annað sæti er 90%-94%, hlutfall þeirra sem gera þetta í NA er 96-100%, hlutfall þeirra sem gera þetta í NV er 70-86% og hæutfall þeirra sem gera þetta í SU er 90-99%.
Þetta þýðir í raun og veru að í NV kjördæmi er marktækt meira um að fólka hafi bara skilað inn kjörseðli með efsta sætinu og engu öðru. Það er samt ekki hægt að draga neinar frekar ályktanir um þetta og ekki er hægt að tengja þetta við doddap2 miðað við gögnin sem ég fékk að skoða. Eina leiðin til að komast að orsakasamhengi í þessu er að skoða individual kjörseðla og reyna að átta sig á hegðun þeirra sem kusu doddap2 í fyrsta sæti. “ Ólafur B. Davíðsson tölfræðingur.

Mynd 1: Efstu sæti

Mynd 1: Efstu sæti

Facebook síða Þórðar

Í færslu á Facebook síðu sinni í kjölfar prófkjörsins sagði kærði, Þórður Guðsteinn Pétursson að hann hefði fengið fólk til að skrá sig í flokkinn í aðdraganda prófkjörsins. Orðrétt segir Þórður í færslunni: „…já ég fékk systkini mín (eru 5 í n.v.) og nokkra vini til að skrá sig í flokkinn, kringum 20-30 manns og ég mun halda því stöðugt áfram“. Færsluna [Mynd 2: FB færsla] má sjá á skjáskoti hér að neðan.

FB_faersla

Mynd 2: FB færsla.

Viðtal við Þórð á Rúv.is

Þórður Guðsteinn ræddi við Fréttastofu Ríkisútvarpsins í viðtali sem var birt þann 16. ágúst. Finna má viðtalið á síðunni (http://www.ruv.is/frett/kapteinn-pirata-vill-ad-listi-verdi-felldur). Þar segir: „Hann [Þórður Guðsteinn, innsk. Úrskurðarnefndar] hafi beðið nánustu fjölskyldu að skrá sig í flokkinn og kjósa sig“. Einnig segir Þórður í viðtalinu: „Eldhúsborðið við jólin er um 30 manns. Það fékk enginn neitt veraldlegt fyrir að kjósa mig“

Niðurstaða

Þórður hefur viðurkennt að hafa fengið 20-30 manns til að skrá sig í flokkinn til þess að kjósa sig í prófkjörinu. Eðli prófkjara er þannig að frambjóðendur hvetja kjósendur til að kjósa sig umfram aðra. Þegar frambjóðandi hvetur skráða Pírata til að kjósa sig standa allir frambjóðendur jafnir að því að reyna að sækja atkvæði þeirra. Frambjóðendur geta þá fært rök fyrir kostum sínum á málefnalegum grundvelli og kynnt sína stefnu. Frambjóðandi sem sækir atkvæði sín út fyrir raðir félagsmanna þarf ekki að gera það á málefnalegum grundvelli heldur getur gert það eingöngu út á persónu sína. Slíkt fylgi getur veitt honum ómálefnalegt forskot á aðra frambjóðendur.

Í Norðvestur kjördæmi eru starfandi 3 aðildarfélög Pírata sem samtals telja 277 félagsmenn sem er fámennasta kjördæmi Pírata. Hafi 20-30 manns, af 95 kjósendum, kosið einn frambjóðanda af ómálefnalegum ástæðum getur það vegið þungt í prófkjöri þar sem svo fáir hafa kosningarétt.

Samkvæmt almennum skilningi orðsins, er það mat meirihluta nefndarinnar, að hér hafi verið um kosningasmölun að ræða. Tilgangur siðareglna í prófkjörsreglum Pírata í NV-kjördæmi var að sporna gegn slíkri smölun. Þessar reglur voru samþykktar á fundi kjördæmaráð þann 10. júlí 2016. Í þeim sömu reglum kom fram að aðeins þeir sem skráðir höfðu verið í Pírata 30 dögum fyrir upphaf prófkjörs hafi til þess kosningarétt. Prófkjörið hófst þann 8. ágúst og því gátu einungis þeir sem voru skráðir í Pírata þann 9. júlí eða fyrr tekið þátt.

Því er ljóst að kosningasmölunin hafi átt sér stað áður en reglurnar sem banna slíkt voru settar. Því er það niðurstaða nefndarinnar að hér hafi ekki verið um brotlegt athæfi að ræða skv reglu 8e.

Úrskurðarorð

Þórður Guðsteinn Pétursson braut ekki gegn reglu 8e í prófkjörsreglum Kjördæmaráðs Pírata á Norðvesturlandi. Reglan, sem bannar kosningasmölun, tók ekki gildi fyrr en eftir að smölunin átti sér stað.

Með úrskurði þessum fellur bráðabirgðaúrskurður vegna máls þessa frá 20. ágúst 2016 úr gildi.

Úrskurðarnefnd Pírata,

Birgir Steinarsson
Hafþór Sævarsson
Helgi Bergmann

Hér má nálgast úrskurðinn á PDF – formi