Mál 7/2016 Um endurtalningu í prófkjöri Pírata á Norðausturlandi

Úrskurður Úrskurðarnefndar Pírata

18. ágúst 2016

í máli nr. 7/2016

 

Úrskurðarnefnd Pírata barst kæra þann 5. júlí 2016.

Spurt var hvort að listi Pírata á Norðausturlandi væri gildur þar sem ekki lá ljóst fyrir hvort að farið hefði verið eftir grein 14.5. í lögum Pírata.

Úrskurðarnefnd hefur heimild til þess að taka þetta mál til málsmeðferðar á grundvelli greinar 8.1. í lögum Pírata sem segir að ágreining um framkvæmd, túlkun og brot á lögum þessum skal vísa til úrskurðarnefndar sem úrskurðar í málinu.

Athugið: Vegna spurninga sem vaknað hafa í kjölfar þessa úrskurðar hefur Úrskurðarnefnd gefið út álit til nánari skýringa. Álitið má nálgast með því að smella hér.

 

Úrskurðarorð

 Úrskurðarnefnd telur að Kjördæmaráð Norðausturlands hafi brotið gegn grein 14.5. í lögum Pírata.

 Úrskurðarnefnd úrskurðar að í prófkjöri Pírata á Norðausturlandi 2016 hefði átt að endurtelja atkvæði frambjóðenda í hvert skipti sem einstaklingur sagði sig af lista. Það þýðir að eftir að úrslit urðu ljós hefði kjördæmaráð Norðausturlands átt að láta framkvæma endurtalningu atkvæða með Schulze aðferðinni, í hvert sinn sem aðili hafnaði sæti á lista.

Úrskurðarnefnd beinir því til Kjördæmaráðs Norðausturlands að endurtelja atkvæði í prófkjöri í samræmi við lög Pírata. Kjördæmaráði Norðausturlands ber því að láta framkvæma endurtalningu atkvæða að brottfelldum þeim einstaklingum sem höfnuðu sæti á lista í réttri tímaröð og fyrir hvern einstakling fyrir sig. Það felur í sér að endurtelja beri atkvæði að brottfelldum þeim fyrsta sem sagði sig frá listanum, ef röðun á lista breytist við það ber að bjóða öllum frambjóðendum prófkjörsins sæti í samhengi við breytta niðurröðun og svo koll af kolli. Úrskurðarnefnd vill ítreka að einnig skuli bjóða þeim sem höfnuðu sæti að taka nýtt sæti, ef endurtalning atkvæða leiðir í ljós breytta sætaskipan.

Úrskurðarnefnd úrskurðar að ef uppröðun listans breytist við uppröðunina falli staðfestingarkosning Pírata í Norðausturkjördæmi úr gildi og framkvæma verði nýja staðfestingarkosningu í samræmi við breyttar niðurstöður.

 

Málsmeðferð

Úrskurðarnefnd barst kæra þann 5. júlí 2016 þess efnis að vafi léki um hvort prófkjör Pírata á Norðausturlandi hafi að fullu verið í samræmi við lög félagsins. Efni kærunnar varðaði talningaraðferð kjörstjórnar Norðausturkjördæmis sbr. grein 14.5. í lögum Pírata. Var spurt hvort kjörstjórn hafi endurtalið fallin atkvæði að loknu prófkjöri þegar nokkrir frambjóðendur ákváðu að þiggja ekki sæti á lista Pírata í Norðausturkjördæmi.

Úrskurðarhæfi kærunnar

Þann 20. júlí 2016 sendi Úrskurðarnefnd formlega fyrirspurn til kjördæmaráðs Norðausturlands þar sem óskað var upplýsinga og gagna um framkvæmd endurröðunar á lista að brottfelldum þeim aðilum er höfnuðu sæti á listanum.

Úrskurðarnefnd barst svar þann 21. júlí þar sem fram kom að: „Endurröðunin var skilgreind í kaflanum “Úrvinnsla prófkjörsniðurstaðna”.

Að lokinni kosningu fara aðildafélög yfir niðurstöður kosninganna með frambjóðendum og taka við staðfestingu frambjóðenda um hvort þeir vilji halda því sæti sem þeir fengu, fella sig af lista eða lækka sig um sæti.

Hringt var í alla frambjóðendur og þeir spurðir hvort þeir vildu taka því sæti sem þeir lentu í, færa sig neðar eða taka ekki sæti. Ef frambjóðandi færði sig neðar á lista færðust allir frambjóðendur sem viðkomandi færði sig niður fyrir upp um eitt sæti hver. Ef frambjóðandi tók ekki sæti á lista þá færðust allir frambjóðendur upp um eitt sæti á lista.“

 Með hliðsjón af svari kjördæmaráðs taldi Úrskurðarnefnd liggja fyrir að lögmætur ágreiningur væri fyrir hendi um hvort framkvæmd endurröðunar á lista í prófkjöri Pírata í Norðaustur kjördæmi standist lög Pírata, nánar tiltekið grein 14.5 úr lögum félagsins.

Þann 2. ágúst tók Úrskurðarnefnd kæruna fyrir á fundi sínum. Niðurstaða nefndarinnar var að hún taldi kæruna ekki vanreifaða og að hún fjallaði um mál er félli undir lögsögu nefndarinnar sbr. grein 8.1. í lögum Pírata. Úrskurðarhæfi kærunnar var samþykkt af öllum nefndarmönnum úrksurðarnefndar. Nefndin taldi því kæruna tæka til málsmeðferðar.

 

Formleg athugun hefst

Úrskurðarnefnd tók málið formlega til athugunar þann 2. ágúst og lét kæranda vita með tölvupósti samdægurs. Í sama tölvupósti var kæranda gefinn tveggja vikna frestur til þess að skila inn frekari gögnum. Eins var kæruaðila tilkynnt um nýsamþykktar málsmeðferðarreglur Úrskurðarnefndar og honum boðið að nýta sér úrræði reglnanna í málsmeðferðinni.

Þann 8. ágúst sendi kærandi Úrskurðarnefnd tölvupóst þar sem hann tilkynnti nefndinni að hann myndi ekki senda inn frekari gögn eða upplýsingar. Ennfremur óskaði kærandi eftir því að njóta nafnleyndar við meðferð málsins á grundvelli 13. greinar málsmeðferðarreglna Úrskurðarnefndar.

 

Ákvörðun um nafnleynd kæruaðila

 

Samkvæmt 13. grein málsmeðferðarreglna Úrskurðarnefndar Pírata er kæruaðilum heimilt að óska nafnleyndar og metur Úrskurðarnefnd hvort þörf sé á því í hverju tilfelli fyrir sig. Úrskurðarnefnd ber að gæta jafnræðis beggja málsaðila og hafa meðalhóf til hliðsjónar. Að jafnaði er Úrskurðarnefnd ekki heimilt að heimila nafnleynd þegar um er að ræða kærur gegn einstaklingum.

Fyrirliggjandi kæra beinist ekki gegn einstökum meðlimi félagsins heldur gegn framkvæmd á endurtalningu á lista í prófkjöri aðildarfélags Pírata að brottfeldum frambjóðendum er höfnuðu sæti á lista. Því er Úrskurðarnefnd heimilt að meta hvort veita eigi kæruaðila nafnleynd út frá hinum almennu ákvæðum málsmeðferðarreglnanna þess efnis.

Úrskurðarnefnd lítur svo á að mikilvægt sé að félagsmenn geti leitað til nefndarinnar með álitamál innan félagsins. Málsmeðferðarreglur Úrskurðarnefndar innihalda rúma heimild nefndarinnar til þess að veita kæruaðila nafnleynd. Það er gert til þess að auka aðgengi félagsmanna að nefndinni sem ellegar myndu láta hjá líða að bera mál fyrir nefndina undir nafni.

Þó er vert að hafa í huga, jafnræði málsaðila og meðalhófsregluna. Í þessu tilfelli er um að ræða kæru er varðar talningu og þar með niðurstöðu á prófkjöri Pírata í einu aðildarfélagi þess. Úrskurðarnefnd lítur svo á að kæran beinist gegn talningaraðferðinni sjálfri en ekki gegn einstaka aðilum. Nefndin mun þó leita til kjördæmaráðs Norðausturkjördæmis til álitsgerðar um lögmæti talningarinnar til þess að gæta jafnræðis.

Loks er vert að minnast á að prófkjör Pírata á landsvísu eru félagsmönnum öllum mjög mikilvæg enda velja félagsmenn þar einstaklinga til þess að gerast mögulegir fulltrúar þeirra á þingi eða í sveitastjórnum landsins. Ljóst er að lögleg framkvæmd prófkjara er félagsmönnum öllum mikið hagsmunamál.

Að þessu sögðu er ekki að sjá að nafnleynd kæruaðila valdi ójafnvægi meðal málsaðila. Mótaðili getur svarað þeim efnislega til jafns við kæruaðila. Því telur nefndin tryggt að jafnræðis málsaðila sé gætt sem og að meðalhóf sé tryggt.

Úrskurðarnefnd ákvað því að veita kæruaðila kæru nr. 7/2016, nafnleynd á grundvelli 13. greinar málsmeðferðarreglna Úrskurðarnefndar. Kæruaðila var tilkynnt um ákvörðun nefndarinnar þann 2. ágúst 2016 með tölvupósti.

 

Gagnaöflun mótaðila

 

Úrskurðarnefnd sendi tölvupóst til kjördæmaráðs Norðausturlands þann 9. ágúst 2016 þar sem ráðinu var tilkynnt efni kærunnar og að málið hafði verið tekið til formlegrar málsmeðferðar. Ráðinu var gefið tækifæri á að senda inn viðhlítandi gögn og svör við kærunni innan tveggja vikna frá dagsetningu tilkynningarinnar.

Þann 16. ágúst barst svar frá kjördæmaráði Norðausturlands. Í kjölfarið sendi Úrskurðarnefnd tölvupóst á kæranda og mótaðila þar sem tilkynnt var að gagnaöflun væri lokið og nefndin tæki nú málið til úrskurðar

 

Málsatvik

 Röksemdir kæranda

 

Kærandi benti á að á lista Norðausturkjördæmis hefðu þrír einstaklinga afþakkað sætin sín, en ekki hefði verið gefið upp hvort að listinn hefði verið endurtalinn í samræmi við grein 14.5. í lögum Pírata. Kærandi spurði því hvort að listi Norðausturkjördæmis væri gildur/löglegur.

 

Grein 14.5. er svo hljóðandi:

„Raða skal á framboðslista samkvæmt úrslitum forgangskosningar með Schulze-aðferð. Þó skal frambjóðendum heimilt að víkja sæti og taka lægra sæti á lista en kjör hans segir til um, og færast þá aðrir frambjóðendur ofar á lista. Starfsmanni er ekki heimilt að taka fyrsta eða annað sæti. Hafni frambjóðandi sæti eða geti af öðrum sökum ekki tekið því skal raða á lista með endurtalningu atkvæða að brottfelldum frambjóðanda. Nægi fjöldi frambjóðenda að þessum breytingum loknum ekki lögbundnu lágmarki fyrir fullskipaðan framboðslista er ábyrgðaraðila listans heimilt að bæta nöfnum þeirra sem það samþykkja í sæti á eftir þeim sem kjörnir hafa verið á framboðslistann.“

 

 Rök mótaðila

 

Sem fyrr segir sendi Úrskurðarnefnd fyrirspurn um framkvæmd endurröðunar á lista að brottfelldum þeim frambjóðendum er höfnuðu sæti á listanum. Í svari kjördæmaráðs kom fram að ekki hafi farið fram endurtalning þegar frambjóðendur höfnuðu sæti á lista prófkjörsins.

Úrskurðarnefnd sendi aðra fyrirspurn og spurði meðal annars hvort farið hefði verið eftir grein 14.5. [fyrir mistök var ritað 12.5. í samskiptum Úrskurðarnefndar og kjördæmaráðs, en það kemur ekki að sök þar sem augljóst var að báðir aðilar vissu við hvaða grein var átt] við endurröðun á listann.

Eftirfarandi var svar Kjördæmaráðs Norðausturlands:

„Við teljum að það hafi verið farið eftir grein 12.5. [14.5.] vegna þess að enginn hafnaði sæti í prófkjörinu. Þrír aðilar viku hins vegar úr sæti á prófkjörslista.“

Niðurstaða

Kærandi dregur í efa að farið hafi verið eftir grein 14.5. við röðun á lista. Helstu rök mótaðila við þessu eru að vegna þess að enginn hafnaði sæti bar þeim ekki að endurtelja á listann samkvæmt Schulze aðferðinni.

Ljóst er að Kjördæmaráð hafi túlkað grein 14.5. á þá leið að þegar frambjóðandi hafnaði sæti, væri hann þar með að víkja sæti. Sbr. svör kjördæmaráðs: „Hringt var í alla frambjóðendur og þeir spurðir hvort þeir vildu taka því sæti sem þeir lentu í, færa sig neðar eða taka ekki sæti. Ef frambjóðandi færði sig neðar á lista færðust allir frambjóðendur sem viðkomandi færði sig niður fyrir upp um eitt sæti hver. Ef frambjóðandi tók ekki sæti á lista þá færðust allir frambjóðendur upp um eitt sæti á lista“.

Úrskurðarnefnd fellst ekki á þessa túlkun kjördæmaráðs. Úrskurðarnefnd telur að hér sé verið að rugla saman tilvikum þegar frambjóðandi víki sæti og þegar frambjóðandi hafni sæti.

Lög Pírata eru skýr hvað þetta varðar. Í grein 14.5. segir: „Þó skal frambjóðanda heimilt að víkja sæti og taka lægri sæti á lista en kjör hans segir til um, og færast þá aðrir frambjóðendur ofar á lista“. Felur þetta í sér að ef aðili ákveður að lækka sig um sæti, skuli viðeigandi aðilar hækka um sæti til samræmis. Í slíku tilviki gerist ekki þörf að endurtelja atkvæðin.

Í grein 14.5. segir einnig: „Hafni frambjóðandi sæti eða geti af öðrum sökum ekki tekið því skal raða á lista með endurtalningu atkvæða að brottfelldum frambjóðanda.“ Úrskurðarnefnd telur að í þessum orðum felist að ef aðili fjarlægi sig með öllu af listanum þá eigi að endurtelja atkvæði með Schulze aðferðinni að þeim frambjóðenda frátöldum.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurðarnefnd telur að Kjördæmaráð Norðausturlands hafi brotið gegn grein 14.5. í lögum Pírata.

Úrskurðarnefnd úrskurðar að í prófkjöri Pírata á Norðausturlandi 2016 hefði átt að endurtelja atkvæði frambjóðenda í hvert skipti sem einstaklingur sagði sig af lista. Það þýðir að eftir að úrslit urðu ljós hefði kjördæmaráð Norðausturlands átt að láta framkvæma endurtalningu atkvæða með Schulze aðferðinni, í hvert sinn sem aðili hafnaði sæti á lista.

Úrskurðarnefnd beinir því til Kjördæmaráðs Norðausturlands að endurtelja atkvæði í prófkjöri í samræmi við lög Pírata. Kjördæmaráði Norðausturlands ber því að láta framkvæma endurtalningu atkvæða að brottfelldum þeim einstaklingum sem höfnuðu sæti á lista í réttri tímaröð og fyrir hvern einstakling fyrir sig. Það felur í sér að endurtelja beri atkvæði að brottfelldum þeim fyrsta sem sagði sig frá listanum, ef röðun á lista breytist við það ber að bjóða öllum frambjóðendum prófkjörsins sæti í samhengi við breytta niðurröðun og svo koll af kolli. Úrskurðarnefnd vill ítreka að einnig skuli bjóða þeim sem höfnuðu sæti að taka nýtt sæti, ef endurtalning atkvæða leiðir í ljós breytta sætaskipan.

 Úrskurðarnefnd úrskurðar að ef uppröðun listans breytist við uppröðunina að þá falli staðfestingarkosning Pírata í Norðausturkjördæmi úr gildi og framkvæma verði nýja staðfestingarkosningu í samræmi við breyttar niðurstöður.

 

Hér má nálgast úrskurðinn á PDF – formi