Mál 6/2016 Um form og efni samþykktra stefna Pírata

Úrskurður Úrskurðarnefndar Pírata

18. ágúst 2016

í máli nr. 6/2016

Tilteknum stefnum var vísað til Úrskurðarnefndar á þeim grundvelli að kærandi taldi þær ekki uppfylla skilyrði greinar 6.6. í lögum Pírata. Í þeirri grein segir: „Stefna skal alltaf rökstudd og hafa tilvísun í fyrri ákvarðanir félagsins.“

 

Úrskurðarorð

 Úrskurðarnefnd hafnar kröfu kæranda um að fella hinar kærðu stefnur úr gildi og vísa þeim aftur í málefnahópa til frekari úrvinnslu. Stefnurnar halda því gildi sínu.

Úrskurðarnefnd beinir þó þeim vinsamlegu tilmælum til höfundar stefnanna að æskilegt gæti verið að endurskoða stefnurnar með hliðsjón af því að bæta við vísun í efnahagsstefnu Pírata.

 

Málsmeðferð

Úrskurðarnefnd barst kæra þann 23. júní 2016, þess efnis að ákveðnar stefnur sem samþykktar voru í kosningakerfi Pírata stæðust ekki lög flokksins um form og efni stefna.

 

Úrskurðarhæfi kærunnar

Þann 26. júlí tók Úrskurðarnefnd kæruna fyrir á fundi sínum. Niðurstaða nefndarinnar var að hún taldi kæruna ekki vanreifaða og að hún fjallaði um mál er félli undir lögsögu nefndarinnar sbr. grein 8.1. í lögum Pírata. Úrskurðarhæfi kærunnar var samþykkt af öllum nefndarmönnum úrksurðarnefndar. Nefndin taldi því kæruna tæka til málsmeðferðar.

Kæruaðila var þann 28. júlí 2016 tilkynnt um úrskurðarhæfi kærunnar og boðið að senda nefndinni frekari upplýsingar eða gögn. Eins var kæruaðila tilkynnt um nýsamþykktar málsmeðferðarreglur Úrskurðarnefndar og honum boðið að nýta sér úrræði reglnanna í málsmeðferðinni.

Þann 31. júlí 2016, svaraði kærandi og óskaði ekki eftir því að skila inn frekari gögnum en óskaði eftir því að nýta sér nafnleyndarákvæði Málsmeðferðarreglna Úrskurðarnefndar. Nefndin tók beiðni kæruaðila til meðferðar þann 2. ágúst.

Ákvörðun um nafnleynd kæruaðila

Samkvæmt 13. grein málsmeðferðarreglnanna er kæruaðilum heimilt að óska nafnleyndar og metur Úrskurðarnefnd hvort þörf sé á því í hverju tilfelli fyrir sig. Úrskurðarnefnd ber að gæta jafnræðis beggja málsaðila og hafa meðalhóf til hliðsjónar. Að jafnaði er Úrskurðarnefnd ekki heimilt að heimila nafnleynd þegar um er að ræða kærur gegn einstaklingum.

Að mati Úrskurðarnefndar beinist fyrirliggjandi kæra ekki gegn einstökum meðlimi félagsins heldur gegn lögmæti ákveðinna stefna félagsins. Því var Úrskurðarnefnd heimilt að meta hvort veita ætti kæruaðila nafnleynd út frá hinum almennu ákvæðum málsmeðferðarreglnanna þess efnis.

Úrskurðarnefnd lítur svo á að mikilvægt sé að félagsmenn geti leitað til nefndarinnar með álitamál innan félagsins. Málsmeðferðarreglur Úrskurðarnefndar innihalda rúma heimild nefndarinnar til þess að veita kæruaðila nafnleynd. Það er gert til þess að auka aðgengi félagsmanna að nefndinni sem ellegar myndu láta hjá líða að bera mál fyrir nefndina undir nafni.

Þó er vert að hafa í huga, jafnræði málsaðila og meðalhófsregluna. Úrskurðarnefnd lítur svo á að kæran beinist gegn samþykktum stefnum félagsins og ekki þeim aðilum er stóðu að gerð stefnanna. Það væri því félagsmönnum öllum í hag að fá úr því skorið hvort samþykktar stefnur félagsins standist lög þess. Til þess að gæta fyllsta jafnræðis ákvað nefndin ennfremur að leita skyldi til þeirra aðila er sömdu stefnurnar til álitsgerðar um lögmæti stefnanna.

Að þessu sögðu var ekki að sjá að nafnleynd kæruaðila ylli ójafnvægi meðal málsaðila. Öll atriði kærunnar lágu ljós fyrir og mótaðila var gert kleift að svara þeim efnislega til jafns við kæruaðila. Nefndin taldi jafnræði málsaðila því gætt sem og að meðalhóf væri tryggt. Úrskurðarnefnd ákvað því að veita kæruaðila kæru nr. 6/2016, nafnleynd á grundvelli 13. greinar málsmeðferðarreglna Úrskurðarnefndar. Kæruaðila var tilkynnt um ákvörðun nefndarinnar þann 2. ágúst 2016 með tölvupósti.

Úrskurðarnefnd sendi þá erindi til Marðar Ingólfssonar, ætluðum höfundi stefnanna, þann 3. ágúst 2016. Merði var gerð grein fyrir efni kærunnar, og vísað á málsmeðferðarreglur Úrskurðarnefndar þar sem meðal annars koma fram að Mörður hefði tvær vikur til þess að svara efni kærunnar og skila inn frekari gögnum eða upplýsingum til Úrskurðarnefndar Pírata.

Svar barst frá Merði þann 15. ágúst 2016, og leit úrskurðarnefnd svo á að með pósti hans væri gagnaöflun nefndarinnar í máli þessu lokið og tók því málið til úrskurðar.

 

Málsatvik

Röksemdir kæranda

Í kæru sinni taldi kærandi upp nokkur atriði er vörðuðu uppsetningu og innihald nokkurra stefna er kærandi taldi ganga gegn grein 6.6. í lögum Pírata.

Kærandi vísaði eftirfarandi stefnum til Úrskurðarnefndar:

  • 9 Lífeyrissjóðir lýðræðisvæddir
  • 6 Landsbankinn í ríkiseigu
  • 5 Samkeppni á lyfjamarkaði
  • 3 Stóriðja borgi tekjuskatt
  • 1 Fjármagnstekjuskattur

Í fyrsta lagi sagði kærandi að stefnurnar væru almennt illa upp settar.

Í annan stað voru hinar kærðu stefnur sagðar skorta tilvísanir í áður samþykktar stefnur og liði úr grunnstefnunni er vörðuðu efni stefnanna. Kærandi nefndi dæmi um að allar stefnurnar ættu það sameiginlegt að tengjast á einhvern hátt efnahagsmálum en innihéldu þó ekki tilvísun í áður samþykkta efnahagsstefnu Pírata.

Í þriðja lagi taldi kærandi að mikilvægt væri að innra samræmis gætti í stefnumálum Pírata og kvað þessar stefnur allar á skjön við slíkt samræmi. Kæranda þótti ekki ásættanlegt að misræmis gætti milli samþykktra stefna og að umræddar stefnur væru jafnvel í mótsögn við hvor aðra.

Loks kvað kærandi ofangreinda ágalla stefnanna ganga gegn hefðum Pírata við uppsetingu á stefnumálum að mati kæranda.

Kærandi krafðist þess að Úrskurðarnefnd úrskurðaði á þá leið að stefnurnar skyldi fella úr gildi, þeim vísað aftur í málefnahópa þar sem hægt væri að gera nauðsynlegar úrbætur á þeim, og til þess að vitna megi rétt í fyrri ákvarðanir flokksins. Með kröfu sinni vísaði kærandi til liðar 1.3. úr grunnstefnu Pírata þess efnis að fyrri ákvarðanir Pírata þurfi alltaf að geta sætt endurskoðun.

Rök mótaðila

Mótaðili kvað mál kæranda vanreifað og skorta nákvæmari upplýsingar um á hvaða hátt umræddar stefnur uppfylli ekki skilyrði greinar 6.6. í lögum Pírata.

Að mati mótaðila færði kærandi engin rök fyrir því að stefnurnar væru illa upp

settar og nefndi engin dæmi því til stuðnings. Enn fremur benti mótaðili á að engar uppsetningarkröfur séu gerðar til stefnutillagna í lögum Pírata.

Mótaðili kvað ekki hægt að fallast á að brotið væri gegn grein 6.6. í lögum Pírata á þeim grunni að skortur væri á tilvísunum í þegar samþykktar stefnur og grunnstefnu Pírata í hinum kærðu stefnum. Mótaðili vakti athygli á því að í lögum Pírata sé enga kröfu að finna um að stefnumál vitni í öll samþykkt stefnumál eða alla hluta grunnstefnunnar sem varða kunna einstakar stefnur. Einu kröfur sem segja mætti að lögin geri til efnisinnihalds stefnutillögu er að rökstuðningur fylgi og að vísað sé til fyrri ákvarðana flokksins. Mótaðili kvað þær kröfur uppfylltar í öllum stefnutillögunum fimm, þar sé vísað í grunnstefnuna og stefnu Pírata um ríkissjóð og skattheimtu og greinargerð fylgi stefnutillögunum öllum til rökstuðnings.

Mótaðili kvað kæranda ekki hafa fært sannfærandi rök fyrir því að hinar kærðu stefnur væru í mótsögn við hvor aðra.  Mótaðili sagði kæranda engin dæmi nefna um slíkar mótsagnir né hafi kærandi vísað í lög Pírata sem banni slíkar mótsagnir. Benti mótaðili á að í flokki þar sem stefna er ávallt í þróun og grasrót leiðréttir kúrsinn með stöðugri stefnuvinnu, hljóti nýrri stefna að ganga framar eldri stefnu og ógilda fyrri ákvarðanir félagsins, þar sem efni stefnumálanna verða ekki samrýmd.

Loks vildi mótaðili koma þeirri skoðun sinni á framfæri til Úrskurðarnefndar að nefndin “ætti að fara ákaflega varlega í það að ógilda samþykkta stefnu eða lýðræðislegar niðurstöður flokksins almennt, sérstaklega á forsendum formreglna, því það er augljóst að ef grasrótin hefur samþykkt stefnu í því formi sem hún er framsett, þá þýði það að grasrótin telur formið ásættanlegt.”

 

Niðurstaða

Grein 6.6. í lögum Pírata segir:

 “Stefna skal alltaf rökstudd og hafa tilvísun í fyrri ákvarðanir félagsins.”

Úrskurðarnefnd lítur svo á að grein 6.6. setji ekki almenn skilyrði um að stefnur skuli vera settar fram á ákveðin hátt né veitir hún leiðbeiningar um hvað talist gæti vel upp sett stefna. Því eru rök kæranda um að hinar kærðu stefnur séu almennt illa upp settar ekki tæk til þess að draga gildi stefnanna í efa. Því verður ekki hægt að fallast á þau rök kæranda fyrir því að ógilda beri stefnurnar. Tekur Úrskurðarnefnd því rök mótaðila til greina hvað þetta varðar.

Úrskurðarnefnd fellst ennfremur á þau rök mótaðila þess efnis að lög Pírata feli ekki í sér þá kvöð að nýjar stefnur skuli vísa í allar stefnur og fyrri ákvarðanir félagsins sem á einhvern hátt gætu tengst efni stefnunnar með tæmandi hætti.

Rök kæruaðila þess efnis að stefnurnar gangi gegn hefðum Pírata við uppsetningu á stefnumálum verður ekki fallist á þar sem kæruaðili sýndi ekki fram á að slík hefð hafi myndast innan félagsins.

Úrskurðarnefnd tekur undir með kæranda að mikilvægt sé að innra samræmis gæti í stefnumálum Pírata. Efnahagsstefna Pírata lá fyrir áður en hinar kærðu stefnur voru færðar inn í kosningarkerfi Pírata. Því má einnig taka undir að æskilegt hefði verið að hinar kærðu stefnur vísuðu með einhverjum hætti í efnahagsstefnu Pírata þar sem umræddar stefnur fjalla vissulega allar um efnahagsmál.

Úrskurðarnefnd lítur svo á að þótt æskilegt hefði verið að vísa í efnahagsstefnu Pírata við gerð stefnanna eru lög Pírata ekki nógu skýr og galli stefnanna ekki nógu alvarlegur, til þess að fella úr gildi samþykkta stefnu.

Kæra þessi leiðir í ljós ákveðna vankanta á lögum Pírata er varða stefnumál. Grein 6.6. felur í sér mjög takmarkaðar kröfur gagnvart skýrleika og uppsetningu stefnumála Pírata. Æskilegt væri að lögum Pírata um form og uppsetningu yrði breytt til þess að tryggja betur innra samræmi og gæði þeirra stefnumála sem samþykkt eru innan félagsins.

 

Úrskurðarorð

 Úrskurðarnefnd hafnar kröfu kæranda um að fella hinar kærðu stefnur úr gildi og vísa þeim aftur í málefnahópa til frekari úrvinnslu. Stefnurnar halda því gildi sínu.

Úrskurðarnefnd beinir þó þeim vinsamlegu tilmælum til höfundar stefnanna að æskilegt gæti verið að endurskoða stefnurnar með hliðsjón af því að bæta við tilvísun í efnahagsstefnu Pírata.

 

Úrskurður 6/2016 á PDF skjali.