Mál 4/2017 – Úrskurður vegna endurupptöku á máli 3/2017

Mál 4/2017

Upplýsingar um málsmeðferð:

Úrskurðarnefnd tók fyrir mál Þórólfs Beck þar sem hann vildi fá úr því skorið hvort kosningar í PíR 3. September 2017 standist lög félagssins, og þá aðallega 2 atriði:

1) Hvort það standist miðað við lagagreinar 4.8 og 6.1 í lögum PíR, að 3 frambjóðendur sem kosnir voru, eru varaþingmenn.

2) Hvort grein 6.4 hafi verið brotin, með því atkvæði félagsmanna sem verið höfðu skemur í PíR en þá 30 daga sem lögin krefjast.

Lagagreinar sem hafa með málið að gera:

4.6. Missi stjórnarmeðlimur kjörgengi í stjórn félagsins á meðan kjörtímabilinu stendur skal hann víkja tímabundið úr henni þar til hann öðlast aftur kjörgengi og skal varamaður koma í hans stað. Varamaðurinn skal öðlast þau réttindi sem aðalmaður fékk við sitt kjör.

4.8. Kjörgengur til stjórnar félagsins er hver sá aðili sem skráður er í félagið og gegnir ekki kjörnum embættum til sveitarstjórnar eða Alþingis.

6.1. Félagið telst starfhæft svo lengi sem ekki meira en 18 mánuðir hafa liðið frá því að síðasti aðalfundur þess var haldinn og að auki séu engir kjörnir fulltrúar starfandi í embættum af hálfu félagsins.

6.4. Atkvæðarétt innan rafræns kosningakerfis Pírata hafa þeir félagar í Pírötum í Reykjavík sem jafnframt hafa verið félagar í Pírötum í að minnsta kosti 30 daga samfellt.

Móttaka erindis var staðfest 14. Sept og hittist nefndin fyrst um málið 20. Sept. Þar var ákveðið að taka málið fyrir og samþykkt að fara í frekari gagnaöflun. Gissur sendi Þórólfi beiðni um frekari rökstuðning á lið 2:

Sæll Þórólfur

Ég sendi þér hér fyrir hönd úrskurðanefndar beiðni um frekari upplýsingar er varðar erindi þitt. Nefndinni vantar að vita hvað þú telur þig hafa fyrir þér að meðlimir hafi brotið á 6.4?

Vinsamlegast rökstyddu með dæmum svo hægt sé að afla frekari gagna.

Fyrir hönd úrskurðarnefndar

Gissur Gunnarsson

Svar Þórólfs barst samdægurs:

Til mín barst athugasemd frá áræðanlegum aðila sem til þekkir, og ég hef enga ástæðu til að efast um, að skilyrði um 30 daga skráningu í flokkinn hafi ekki verið virk í kosningakerfinu í stjórnarkjörinu.

Það hlýtur að mega fá úr því skorið með einföldum hætti hvort svo hafi verið.

Kv,

Þórólfur

 

Úrskurður í máli 3/2017

Þann 25. nóvember 2017 kvað nefndin upp úrskurð varðandi ofangreind atriði. Varðandi 1. lið kærunnar hafnaði nefndin því að aðhafast nokkuð vegna þess, þar sem kærandi gerði það ekki sennilegt að þau skilyrði sem um ræddu hefðu verið óvirk á tíma kosningarinnar auk þess sem sjálfstæð skoðun nefndarinnar renndi ekki stoðum undir þá kenningu. Taldi nefndin málinu því lokið varðandi þann lið kærunnar.

Varðandi síðari kæruliðinn taldi nefndin það stangast á við grein 4.8 í lögum PíR að 3 frambjóðendur sem kosnir voru í umræddri kosningu, væru einnig varaþingmenn. Taldi nefndin að varaþingmenn féllu undir “kjörna fulltrúa” í skilningi greinarinnar. Í úrskurðarorði nefndarinnar sagði að annaðhvort þurfi varaþingmennirnir sem hlutu kjör að víkja fyrir varamönnum eða kjósa þurfi aftur.

 

Endurupptaka:

Þann 26. nóvember barst ósk um endurupptöku málsins frá Sindra Viborg sem taldi efni til þess að úrskurðurinn yrði tekinn upp aftur í samræmi við 17. gr. reglna um málsmeðferðarreglur Úrskurðarnefndar Pírata. Fylgir hún hér með í heild sinni.

Endurupptökubeiðnin:

Þann 25. nóvember 2017 kvað úrskurðarnefnd Pírata upp úrskurð nr. 3/2017 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að “…það standist ekki lög PíR að aðilar sem á tíma kjörs í stjórn PíR voru varaþingmenn fengju að taka sæti.” Í úrskurðarorði segir svo: “Samkvæmt lögum PÍR eru kjörnir fulltrúar ekki kjörgengir í stjórn félagsins og því úrskurðar nefndin að kjör varaþingmanna i stjórnina sé ekki samkvæmt lögum félagsins og annaðhvort þurfi þeir aðilar að víkja fyrir varamönnum eða kjósa þurfi aftur.”

 

Telur undirritaður að þessi úrskurður nefndarinnar sé ófullnægjandi og uppfylli ekki þau grunnskilyrði að réttaráhrif úrskurðarins séu skýr og unnt sé að fylgja honum eftir í samræmi við grein nr. 16.2 í málsmeðferðarreglum um úrskurðarnefnd.

Meginhlutverk úrskurðarnefndar er að úrskurða um ágreining á lögum Pírata og aðildarfélaga Pírata. Úrskurður sem inniheldur tvær mögulegar málalyktir sem enginn greinarmunur er gerður á, nær ekki fram því markmiði að leysa úr úrslausnarefninu. Ómögulegt er fyrir þá aðila sem eiga að framfylgja umræddum úrskurði að vita hvort varaþingmennirnir ættu að víkja fyrir varamönnum, eða kjósa þurfi aftur, í alla stjórnina eða bara í þau sæti sem losna vegna umrædds úrskurðar. Er þetta óásættanlegt fyrir þá sem að málinu koma, bæði fyrir umrædda varaþingmenn sem og þá sem kjörnir voru og ekki er efast um kjörgengi hjá, þar sem þeir aðilar vita nú ekki hvort kosið verður aftur um sæti þeirra eða ekki.

Ef fallist er á endurupptökubeiðni:

Undirritaður vonar einnig að nefndin muni endurskoða efnislega niðurstöðu sína, sem hún hefur nú tækifæri til ef hún tekur málið upp að nýju. Varaþingmenn eru ekki kjörnir fulltrúar þar sem þeir eru ekki fulltrúar flokksins á neinum vettvangi. Varaþingmenn sem taka ekki sæti á alþingi eru því í raun bara fyrri hluti orðsins “varaþingmenn” – þeir eru “vara”. Óumdeilt er að um leið og varaþingmaður tekur sæti á alþingi, er hann í stöðu kjörins fulltrúa, en þangað til er aðeins um að ræða varamann sem er í engu ósvipaður öðrum þeim sem ekki hlutu kjör, situr ólaunaður og ekki í nokkurri kjörinni stöðu umfram aðra.

Þá verður nefndin að endurskoða skilning sinn á þingskaparlögunum, ekkert kemur fram í 2. mgr. 1. gr. laga um þingsköp Alþingis nr. 55/1991 um að varaþingmaður sé kjörinn fulltrúi, aðeins að hann fái kjörbréf sem er merkingarlaust þar til hann sest á alþingi í fjarveru kjörins fulltrúa.

Ósk um flýtimeðferð:

Undirritaður óskar eftir því, með vísan til þeirrar óvissu sem hefur skapast, að málið fái flýtimeðferð hjá nefndinni í samræmi við 10. gr. reglna um málsmeðferð úrskurðarnefndar Pírata.

Virðingarfyllst

Sindri Viborg

 

Fallist er á meginefni endurupptökubeiðninnar, um endurupptöku málsins í samræmi við 17. gr. málsmeðferðareglna Úrskurðarnefndar Pírata. Fellst nefndin á að fyrri úrskurður hennar hafi haft þann ágalla að úrskurðarorð hafi ekki verið nægilega skýrt svo eftir því mætti fara. Þá er einnig fallist á beiðni um flýtimeðferð málsins í ljósi mikilvægis þess og þeirrar óvissu sem skapast getur varðandi stjórnarmeðlimi PíR.

Rök kæranda:

Í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar kom kærandi einnig fram málsástæðum sínum. Sneru málsástæður kæranda að því að varaþingmenn væru ekki kjörnir fulltrúar fyrr en þeir tækju sæti á þingi, enda væru þeir aðeins til vara þangað til. Þá kemur fram að ekkert komi fram í 2. mgr. 1. gr. laga um þingsköp Alþingis nr. 55/1991 sem segir að varaþingmaður sé kjörinn fulltrúi.

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Úrskurðarnefndin telur að hún hafi nú þegar tekið til greina ofangreind sjónarmið við úrlausn upprunalegu kærunnar. Varaþingmenn koma almennt fram sem slíkir, hljóta kjörbréf í samræmi við 2. mgr. 1. gr. laga nr. 55/1991 og verður enginn varaþingmaður nema vera kjörinn sem slíkur. Af þessu leiðir að bæði er um að ræða “fulltrúa” Pírata í þeim skilningi að varaþingmaðurinn tekur slíkt sæti fyrir hönd Pírata en einnig er hann kjörinn, fyrst í prófkjöri Pírata en síðan með atkvæðum landsmanna. Telur Úrskurðarnefnd því ekki hægt að horfa framhjá skýru orðalagi greinarinnar og að teknu tilliti til markmiðs ákvæðisins, þá verði ekki önnur niðurstaða fengin í þessu máli en að varaþingmenn hafi ekki kjörgengi í stjórn PíR.

Úrskurðarorð:

Nefndin úrskurðar eftirfarandi varðandi lið 1 í kæru hins endurupptekna máls:

Samkvæmt lögum PíR eru kjörnir fulltrúar ekki kjörgengir í stjórn félagsins og er því kjör varaþingmanna í stjórnina ekki samkvæmt lögum félagsins. Missa þeir því rétt sinn til setu í stjórn PíR svo lengi sem þeir eru varaþingmenn og skulu varamenn taka sæti þeirra í samræmi við gr. 4.6 í lögum PíR.

Nefndin úrskurðar eftirfarandi varðandi 2 lið í kæru hins endurupptekna máls:

Ekki fannst neitt sem bendir til þess að grein 6.4 hafi verið brotin í kosningum til stjórnar PíR þann 3. september 2017. Er því hafnað að taka til nokkurra aðgerða af þeim sökum.

 

Reykjavík 27. Nóvember 2017

Gissur Gunnarsson
Lárus Vilhjálmsson
Júlíus Blómkvist