Mál 3/2016 Varðandi ályktun kjördæmaráðs Pírata í Norðvesturkjördæmi

Hlutverk Úrskurðanefndar í lögum Pírata er að úrskurða um ágreining um framkvæmd, túlkun og brot á lögum Pírata (gr. 8.1) í samræmi við lög félagsins og landslög (gr. 8.4).

Beðið var um álit Úrskurðanefndar á ályktun kjördæmaráðs Pírata í Norðvesturkjördæmi. Það er ekki hlutverk nefndarinnar að gefa álit. Málinu er því vísað frá og málshefjanda gert grein fyrir því.

Upprunalegt erindi
Erindi til úrskurðarnefndar. Vegna ályktunar kjördæmisráðs Pírata í Norðvesturkjördæmi:
“Kjördæmisráð Pírata í Norðvesturkjördæmi telur eðlilegt að við kosningar á framboðslista flokksins í kjördæminu verði kosningarréttur bundinn við þá skráða Pírata sem muni hafa kosningarrétt í kjördæminu þegar til Alþingiskosninga kemur. Þó sé eðlilegt að taka tillit til þeirra sem ekki uppfylla aldursmörk.“ (https://www.facebook.com/PiratarNVkjordaemi/posts/908748829244437)
Beðið er um álit úrskurðarnefndar á þessari ályktun með tilliti til grunnstefnu og laga Pírata með tilvísun í grein 10.2:
„Aðildarfélögum er óheimilt að ganga gegn lögum eða grunnstefnu Pírata.“
Ályktunin varðar grein 6.1 í grunnstefnu:
„Píratar telja að allir hafi rétt til að koma að ákvarðanatöku um málefni sem varða þá.“
Grein 13.1 í lögum Pírata:
„Þingmenn Pírata eru ábyrgir gagnvart félaginu í heild. Sveitarstjórnarfulltrúar eru ábyrgir gagnvart því svæðisbundna aðildarfélagi sem starfar í sveitarfélagi þeirra.“
Og greinargerð sem fylgir þeirri lagabreytingu (https://x.piratar.is/issue/90/ ):
„Gert er ráð fyrir að alþingismenn Pírata muni starfa fyrir flokkinn í heild – það er, fyrir öll aðildarfélög hans. Aðildarfélögum er eftirlátið að skilgreina hlutverk sveitarstjórnarfulltrúa“
Vegna þessara greina grunnstefnu og laga Pírata er álitaefni hvort val á frambjóðendum Pírata til alþingiskosninga sé málefni sem varðar hvern félagsmann, vegna þeirrar ábyrgðar sem þingmenn bera gagnvart félaginu í heild og þeirra starfa sem þeir sinna á þingi, og þá hvort það sé gegn lögum og grunnstefnu að meina félagsmanni ákvörðunarrétt (kosningarétt) á grundvelli búsetu.
Almennar athugasemdir við erindið:
Ein grein sem hefur verið bent á þessari ályktun til stuðnings er grein 6.3:
„Píratar telja að draga þurfi úr miðstýringu valds á öllum sviðum og efla þurfi beint lýðræði í þeim formum sem bjóðast.“
Þar er álitaefnið hvort það myndi teljast miðstýring ef allir félagsmenn Pírata tæku þátt í vali á frambjóðendum Pírata til alþingiskosninga eða hvort kjördæmaráð er að taka sér miðstýringarvald með því að taka kosningarétt frá almennum félagsmönnum. Ákvörðun allra félagsmanna væri án efa meirihlutaræði, en greinin kveður á um „miðstýringu“.
Ákveðin afleiðing þessarar ályktunar, til hliðsjónar, má geta þess að mörg aðildafélög leyfa félagsmönnum að skrá sig í aðildafélag með tilliti til fastrar búsetu ef það er annað en lögheimili eða jafnvel leyfa hverjum sem er, óháð búsetu, að skrá sig í aðildafélag. Þeir félagsmenn aðildafélaganna gætu því ekki tekið þátt í prófkjöri í því kjördæmi sem þeir eru þó skráðir sem aðildafélagar. Einnig er álitamál hversu framkvæmanlegt það er að taka tillit til, og skrá rétt kosningarétt í kjördæmi, félaga sem eru með lögheimili erlendis. Ályktunin takmarkar mögulega aðkomu að málefnum sem varða þessa tvo hópa.
Þó markmiðið með setningu aðildafélagslaganna geti hafa verið einmitt það að aðildafélög gætu takmarkað kosningarétt í prófkjöri til alþingis þá get ég ekki fundið neinn stað í grunnstefnu né lögum sem styður það markmið. Ég geri mér fulla grein fyrir því að þetta er _mjög_ viðkvæmt mál og því tel ég mjög mikilvægt að farið sé eftir lögunum og þau mögulega útfærð betur í kjölfarið til þess að ná settum markmiðum.
Ef eitthvað er óskýrt, vinsamlegast hafið samband.
mbk,
Björn Leví