Mál 3/2015 Þunn fjármögnun

Málshefjandi, Mörður Ingólfsson, sendi til Úrskurðarnefndar erindi varðandi tillögu um þunna fjármögnun sem tekin var fyrir á almennum félagsfundi 2. desember („félagsfundurinn“). Erindið var þess efnis að tillagan yrði ekki sett til kosninga í rafrænt kosningakerfi Pírata ásamt rökstuðningi þar að lútandi.

Félagsfundurinn var boðaður með tölvupósti sem sendur var af málshefjanda á almennan póstlista pírata þann 23. nóvember 2015, heilum 9 dögum áður en fundurinn fór fram. Í lögum Pírata kemur fram í gr. 5.9. að „Boða skal til almennra félagsfunda með viku fyrirvara með óvefengjanlegum hætti.“ Fundurinn telst því löglega boðaður.

Í lögum Pírata segir:
Varðandi Almenna Félagsfundi:
5.3. Fundarmenn geta lagt fram tillögur á fundum.
5.4. Kosningar á fundum skulu að jafnaði fara fram með handauppréttingu.
Varðandi Lög og Stefnumál:
6.7. Með samþykki 5% fundarmanna á almennum félagsfundi, en lágmark þriggja, skal vísa tillögu að stefnu til rafrænna kosninga.

Á félagsfundinum var stefna Marðar Ingólfssonar varðandi þunna fjármögnun rædd. Aldrei kom fram tillaga (skv gr. 5.3) um að setja hana óbreytta í rafræna kosningu (skv 6.7.). Fundurinn ákvað þess í stað að gera breytingar á stefnunni sem Mörður hafði unnið. Tillaga fundarins að stefnu varðandi þunna fjármögnun var að lokum lögð fram (skv gr. 5.3.) og samþykkt (skv gr. 5.4.) að setja skyldi hana í rafræna kosningakerfið (skv 6.7.)

Nefndin úrskurðar að ekki skuli verða við ósk málshefjand um að tillaga sem samþykkt var á félagsfundi Pírata 2.12.2015 verði ekki sett í kosningakerfið.