Mál 2/2018 Birting samtalna úr prófkjöri fyrir Alþingiskosningar 2017

Úrskurðarnefnd barst erindi frá Árna St. Sigurðssyni stjórnarmanni Pírata í Reykjavík þann 14 Mars 2018 og fundaði nefndin um málið samdægurs.

 

Erindi PíR:

 

Stjórn PíR barst erindi frá frambjóðanda í prófkjöri Pírata haustið 2017:

Hér með legg ég til (eða fer fram á, sem frambjóðandi, sé þess krafist) að birt verði gögn um atkvæði í prófkjöri til Alþingiskosninga, sem fram fór í október 2017.

Ég legg til að

– Allir atkvæðaseðlar séu birtir, en til vara að

– Birtur sé fjöldi atkvæða sem hver frambjóðandi fékk í hvert sæti.

Bestu kveðjur,

Einar Steingrímsson

 

Stjórn PíR tók ákvörðun á fundi 7.3.2018 að fela mér að fá birtar samtölur sæta frambjóðenda.  Ég setti mig í samband við Rannveigu Ernudóttur til að nálgast gögnin. Hún bað mig um að senda greinargerð um málið út frá persónuverndarvinkli sem ég hengi hér við.

 

Mér skilst að eftirfarandi texti hafi síðan verið bókaður 13.3.2018 í fundargerð Framkvæmdaráðs:

 

“Gera þarf úttekt á persónuverndargögnum tengdum prófkjöri. Upplýsingarnar þar eru ekki persónugreinanlegar utan þess i hvaða sæti frambjóðendur lentu, sem er markmið kerfisins. Rekjanleiki kjörseðla er ekki áhætta. Frambjóðendur þurfa að vita fyrirfram hvaða upplýsinga er safnað, hvað er vitað um hvern og hvað verður birt. Það þarf að tilgreina ábyrgðaraðila vinnslunnar, sem getur verið Framkvæmdaráð sem samþykkir hverja vinnslu á gögnum úr kerfum. Ekkert bendir þó til að ekki megi birta tölfræðigögn úr kosningakerfinu og hvers eðlis birtingin er.

Tölfræði var birt fyrir prófkjörið 2016 en síðan var hún tekin út.  

Kjördæmisráð 2017 tók ákvörðun um að birta ekki gögn úr síðasta prófkjöri.

Bókun: Að Úrskurðanefnd ákvarði um það hvort prófkjörsgögn 2017 skuli áfram vera bundin trúnaði vegna ákvörðunar kjördæmisráðs. Veitt verði fjármagn frá Framkvæmdaráði til þeirrar úrvinnslu.”

 

Í anda greinargerðar minnar óska ég eftir því að Úrskurðarnefnd úrskurði að ábyrgðaraðilum prófkjara sé skylt að birta samtölur sæta frambjóðanda ekki síðar en skynsamlegt sé.  Ég legg það í ykkar hendur hvað er skynsamlegur tímarammi.

 

Lagagreinar sem koma þessu máli við:

 

8.4. Úrskurðarnefnd tekur ákvarðanir aðeins í samræmi við lög félagsins og landslög.

13.1. Þátttaka í kosningum er á ábyrgð aðildarfélaga á kjörsvæði. Ábyrgðaraðila ber að setja skýrar reglur um framboð Pírata.

Hafi aðildarfélögum innan kjördæmis til Alþingiskosninga ekki komist saman um annað skal starfa kjördæmisráð skipað einum fulltrúa fyrir hvert sveitarfélag þar sem Píratar hafa starfsemi.Kjördæmisráð, sé það starfandi, ber alfarið ábyrgð á þátttöku Pírata í kosningum til Alþingis innan kjördæmis síns.

Starfi engin aðildarfélög innan kjördæmis til alþingiskosninga er framkvæmdaráði heimilt að standa fyrir kjöri á lista fyrir það kjördæmi. Skulu allir félagsmenn Pírata hafa kosningarétt í slíku kjöri. Þeir sem raðast í fimm efstu sæti listans bera ábyrgð á þátttöku hans í kosningum.

 

13.2. Framkvæmdaráð annast samræmingu kosningabaráttu á landsvísu í samráði við aðildarfélögin. Framkvæmdaráð er heimilt að útbúa kosningastefnuskrá fyrir Alþingiskosningar út frá samþykktri stefnu.

 

13.6  Ábyrgðaraðila er heimilt að setja frekari reglur um framkvæmd kjörs á framboðslista. Í slíkum reglum er heimilt að kveða á um skilyrði atkvæðisréttar í kosningu á framboðslista.

Félagsmaður, sem getur sýnt fram á að hann muni að óbreyttu hafa kosningarrétt við Alþingiskosningar, skal ætíð hafa atkvæðisrétt í kosningum á framboðslista í kjördæmi sínu. Þó má gera kröfu um að félagsmaður hafi verið skráður um ákveðið tímabil áður en kosning fer fram.

 

Málsmeðferð:

 

Nefndin tók sér rúman tíma til að leita álits á því hvort hægt væri að persónugreina hrágögn og studdist einnig við úrskurð persónuverndar frá 14. Desember 2017 sem lesa má í heild sinni hér.

 

Úrskurðarorð persónunefndar voru eftirfarandi: “Vinnsla persónuupplýsinga um [A] í kosningakerfi Pírata samrýmdist lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, að því undanskildu að fræðsla um vinnsluna fullnægði ekki kröfum 20. gr. Laganna.”

 

Lögmæti ákvörðunar PíR um að endurskoða ákvörðun Kjördæmaráðs Reykjavíkur um birtingu tölfræðigagna verður að taka mið af bæði landslögum og lögum Pírata, s.s. hvort öll skilyrði séu uppfyllt um:

 

Fræðslu– Fræðsla verður að eiga sér stað áður en persónuupplýsingar eru notaðar, hvernig voru frambjóðendur (og jafnvel í sumum tilfellum kjósendur) prófkjaranna fræddir um eftirfarandi atriði?

Upplýst samþykki– Tengist fræðslunni og samþykki vinnslu getur ekki talist upplýst nema fram komi upplýsingar um alla mögulega notkun á gögnunum. Hér þarf að liggja fyrir upplýst samþykki frambjóðenda a.m.k. þar sem persónuupplýsingar frambjóðenda koma fram á heimasíðu eða hvar sem annarstaðar sem birta á gögnin sjálf.

Varðveislu gagna– Hversu lengi eru gögnin geymd? Í hvaða tilgangi- þetta þarf að liggja fyrir.

Andmælaréttur– Er hægt að andmæla notkun upplýsinga eða breytingu á notkun eða birtingu þeirra?

Upplýsingaskylda– Ef það á að nota persónuupplýsingar á annan hátt en upphaflega var gert ráð fyrir þá þarf að láta alla vita af því. Einnig á fólk rétt á að fá upplýsingar um sjálft sig.

 

Einnig er það þannig að framkvæmdaráð Pírata ber ábyrgð á allri vinnslu persónuupplýsinga innan hreyfingarinnar. Ráðið hefur yfirumsjón með bæði kosningakerfi Pírata sem og félagatali. Sem ábyrgðaraðila ber framkvæmdaráði skylda til að tryggja eftirfarandi þætti við meðferð slíkra upplýsinga. Skv.7. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000.

 

Úrskurðarnefnd Pírata telur það ekki í hennar verkahring að skylda aðildarfélög til aðgerðar sem framkvæmdarráð ber að lokum ábyrgð á enda hefur nefndin ekki heimild fyrir því í lögum Pírata þar sem ekkert er í lögum Pírata um framkvæmd slíks gjörnings. Úrskurðarnefnd Pírata úrskurðar bara um deilumál er varða lög Pírata og gildandi landslög samkvæmt grein 8.4 um úrskurðarnefnd.

Kjördæmaráð er skipað af aðildarfélögum og teljast þau ábyrgðaraðili kjördæmaráða þó svo að framkvæmdarráð sé á endanum ábyrgt fyrir teknum ákvörðunum innan Pírata samkvæmt lögum um kosningar 13.1, 13.2 og aðilum er gefið vald til að setja frekari reglur samkvæmt 13.6. Verða þessir tveir aðilar að koma sér saman um framkvæmd sem hentar hverju sinni.

Telur nefndin að framkvæmdaráð og stjórn PíR ættu að leita álits persónuverndar beint um hvort þeim væri heimilt að birta þessi gögn.

 

Úrskurðarorð

Úrskurðarnefnd Pírata telur það ekki í sínum verkahring að skylda aðildarfélög til birtingu samtalna. Sé það vilji einstakra aðildarfélaga að gera svo skal það gert í samvinnu við framkvæmdarráð og persónuvernd einstaklinga gætt að fyllstu.

 

Reykjavík 28. Maí 2018

Gissur Gunnarsson

Lárus Vilhjálmsson

Júlíus Blómkvist