Reykjavík 22. sept 2017

Mál 1/2017

Erindi barst úrskurðunarnefnd þann 19. Sept 2017 frá Alexöndru Briem þar sem nefndin var beðin um að skýra út hvernig bæri að skilja grein 13.5 í lögum Pírata um kosningar.
Nefndin fundaði um málið og komst að þeirri niðurstöðu að 13.5 gefur tvær ósamræmanlegar leiðir til að raða á lista. Nefndin telur að annað hvort þurfi að endurtelja atkvæði í báðum tilfellum eða að leyfa mönnum/konum að færa sig upp í báðum tilvikum. Ekki sé stætt á að hafa tvær misvísandi reglur um þetta. Er það skoðun nefndarinnar að það ætti að fella út endurtalningarákvæðið þar sem það hefur áður sett kosningar í uppnám og ákvæðið um að fólk færi sig til á lista samkvæmt samkomulagi sé einnig töluvert farsælla og auðveldara í notkun.

Eftir að hafa skoðað lög Pírata um kosningar telur nefndin einnig að greinar 13.1, 13.2 og 13.6 gefi aðildarfélögum rými til að ákveða hvorri leiðinni þau fylgi.

Greinar sem eiga við um málið

13.1. Þátttaka í kosningum er á ábyrgð aðildarfélaga á kjörsvæði. Ábyrgðaraðila ber að setja skýrar reglur um framboð Pírata.

13.2. Framkvæmdaráð annast samræmingu kosningabaráttu á landsvísu í samráði við aðildarfélögin. Framkvæmdaráð er heimilt að útbúa kosningastefnuskrá fyrir Alþingiskosningar út frá samþykktri stefnu.

13.5. Raða skal á framboðslista samkvæmt úrslitum forgangskosningar með Schulze-aðferð. Þó skal frambjóðendum heimilt að víkja sæti og taka lægra sæti á lista en kjör hans segir til um, og færast þá aðrir frambjóðendur ofar á lista. Starfsmanni er ekki heimilt að taka fyrsta eða annað sæti. Hafni frambjóðandi sæti eða geti af öðrum sökum ekki tekið því skal raða á lista með endurtalningu atkvæða að brottfelldum frambjóðanda. Nægi fjöldi frambjóðenda að þessum breytingum loknum ekki lögbundnu lágmarki fyrir fullskipaðan framboðslista er ábyrgðaraðila listans heimilt að bæta nöfnum þeirra sem það samþykkja í sæti á eftir þeim sem kjörnir hafa verið á framboðslistann.

Þrátt fyrir fyrstu málsgrein skal ábyrgðaraðilum tveggja eða fleiri kjördæma heimilt að halda sameiginlega framboðslistakosningu fyrir kjördæmi sín. Skal þá raðað á framboðslista kjördæmanna þannig að frambjóðendum sameiginlegu kosningarinnar sé dreift á framboðslistana í sem mestu samræmi við úrslit þeirra.

13.6 Ábyrgðaraðila er heimilt að setja frekari reglur um framkvæmd kjörs á framboðslista. Í slíkum reglum er heimilt að kveða á um skilyrði atkvæðisréttar í kosningu á framboðslista.

Félagsmaður, sem getur sýnt fram á að hann muni að óbreyttu hafa kosningarrétt við Alþingiskosningar, skal ætíð hafa atkvæðisrétt í kosningum á framboðslista í kjördæmi sínu. Þó má gera kröfu um að félagsmaður hafi verið skráður um ákveðið tímabil áður en kosning fer fram.

Úrskurður nefndar

Úrskurður nefndar er að Framkvæmdarráð setji lagabreytingaferli í gang við fyrsta tækifæri og breyti 13.5 þannig að hún gefi ekki misvísandi upplýsingar um framkvæmd kosninga. Nefndin leggur einnig til að ábyrgaraðilar kosninga nýti sér greinar 13.1, 13.2 og 13.6 og setji sér sínar eigin reglur um hvora leiðina þau ætli að nýta.

Fyrir hönd úrskurðarnefndar Pírata

Gissur Gunnarsson
Júlíus Blómkvist
Lárus Vilhjálmsson

Úrskurðurinn á PDF formi