Mál 1/2018 – Seta varaþingmanna í framkvæmdarráði.

Upplýsingar um málsmeðferð:

Þann 12. Janúar barst úrskurðarnefnd kæra þar sem nefndinni er falið að úrskurða um hvort það standist lagagrein 7.5 í lögum Pírata um framkvæmdarráð að varaþingmönnum sé stætt að sitja í framkvæmdarráði Pírata miðað við undangengin úrskurð nefndarinnar 4/2017 um setu varaþingmanna í stjórn PíR.

Kærandi bað um nafnleynd og varð nefndin við því.

Þann 15. Janúar hélt nefndin fund um málið og á honum var ákveðið að senda framkvæmdarráði erindi þar sem því var boðið að taka afstöðu til kærunar.

Framkvæmdarráð svaraði þann 24. Janúar á þann veg að ráðið tæki ekki afstöðu til kærunnar.

Úrskurðarnefnd taldi að henni hefði nú borist afstaða framkvæmdarráðs til máls 1/2018 og óhætt væri að halda málsmeðferð áfram.

Þann 12. Febrúar 2018 úrskurðaði nefndin í mál 1/2018.

 

Lagagreinar sem hafa með málið að gera:

7.5. Félagsmenn sem hafa verið skráðir í félagið í 30 daga eða lengur, aðrir en kjörnir fulltrúar, geta átt sæti í

framkvæmdaráði. Þó skal enginn sitja í framkvæmdaráði lengur en tvö kjörtímabil samfleytt.

4.8 (lög PíR) Kjörgengur til stjórnar félagsins er hver sá aðili sem skráður er í félagið og gegnir ekki kjörnum embættum til sveitarstjórnar eða Alþingis.

 

Rök kæranda:

Með vísan í úrskurð 4/2017 um lögmæti varaþingmanna til Alþingis til setu í stjórn aðildarfélagsins Píratar í Reykjavík

óska ég eftir að nefndin skeri úr um hvort varaþingmönnum sé stætt að sitja í stjórn framkvæmdarráðs Pírata þar sem

grein 7.5 í lögum pírata segir að félagsmenn, aðrir en kjörnir fulltrúar, geta átt sæti í framkvæmdaráði.

Málshefjandi vill benda nefndinni á að í grunnstefnu Pírata stendur í 6.3 “Píratar telja að draga þurfi úr miðstýringu

valds á öllum sviðum og efla þurfi beint lýðræði í þeim formum sem bjóðast.”

Þó þetta sé ekki lagagrein þá er þetta grunngildi hreyfingar sem berst fyrir valddreifingu og gegn samþjöppun valds á

fáar hendur.

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Þar sem lagagrein 7.5 um framkvæmdarráð skilgreinir kjörna fulltrúa ekkert frekar er nefndinni skorinn þröngur stakkur að vexti. Í úrskurði 4/2017 þar sem kveðið var á um lögmæti varaþingmanna í stjórn PíR komst nefndin að þeirri niðurstöðu að varaþingmenn væri sannanlega kjörnir fulltrúar samkvæmt gr. 4.8. “Kjörgengur til stjórnar félagsins er hver sá aðili sem skráður er í félagið og gegnir ekki kjörnum embættum til sveitarstjórnar eða Alþingis.” með rökunum að varaþingmenn komi almennt fram sem slíkir, hljóti kjörbréf í samræmi við 2. mgr. 1. gr. laga nr. 55/1991 og enginn verði varaþingmaður nema vera kjörinn sem slíkur.

Telur nefndin að vegna þess að 7.5  skilgreinir ekki kjörna fulltrúa á neinn hátt væri hægt að túlka hana á þann hátt að hver sá sem kjörinn hafi verið í trúnaðarstöðu innan Pírata og gegni henni geti ekki einnig átt sæti í framkvæmdarráði Pírata. Af þessu leiðir að bæði er um að ræða “fulltrúa” Pírata í þeim skilningi að varaþingmaðurinn tekur slíkt sæti fyrir hönd Pírata en einnig er hann kjörinn, fyrst í prófkjöri Pírata en síðan með atkvæðum landsmanna.

Telur Úrskurðarnefnd því ekki hægt að horfa framhjá skýru orðalagi greinarinnar og að teknu tilliti til markmiðs ákvæðisins, þá verði ekki önnur niðurstaða fengin í þessu máli en að varaþingmenn geti ekki átt sæti í framkvæmdarráði Pírata

 

Úrskurðarorð:

Nefndin úrskurðar eftirfarandi í máli 1/2018

Samkvæmt lögum Pírata 7.5 um framkvæmdarráð geta kjörnir fulltrúar ekki átt sæti í framkvæmdarráði Pírata.  Missa þeir því rétt sinn til setu í framkvæmdarráði Pírata svo lengi sem þeir eru varaþingmenn og skulu þeir víkja úr framkvæmdarráði Pírata samstundis.

 

Reykjavík 13. Febrúar 2018

Gissur Gunnarsson
Lárus Vilhjálmsson
Júlíus Blómkvist