Vinnureglur fulltrúa Pírata til stjórnarmyndunarviðræðna

 

14. október 2017

Vinnureglur þessar eru gefnar út af fulltrúum Pírata fyrir stjórnarmyndunarviðræður vegna Alþingiskosninga 2017. Þær byggja á erindisbréfi sem umboðsmenn flokksins störfuðu eftir í stjórnarmyndunarviðræðum árið 2016 og útlista verklag fulltrúanna sem hafa umboð flokksins til umræðna við forsvarsmenn annarra stjórnmálaflokka um myndun ríkisstjórnar og skilyrði Pírata fyrir slíku samstarfi.

Vinnureglurnar gilda um viðræður, formlegar og óformlegar, bæði fyrir og eftir næstu Alþingiskosningar og gert er ráð fyrir að Píratar byggi mögulegt ríkisstjórnarsamstarf eftir kosningar á niðurstöðum viðræðnanna.

Fulltrúar hafa frjálsar hendur um val viðmælenda sinna hjá öðrum stjórnmálaflokkum. Þeim er heimilt að semja um skilyrði fyrir stjórnarsamstarfi við aðra flokka og stilla upp drögum að stjórnarsamkomulagi. Fulltrúar skulu þó ávallt hafa hafa samþykkta kosningastefnu Pírata til grundvallar og þann fyrirvara gagnvart viðsemjendum að gildi samkomulags sé háð stuðningi þingflokks og hjóti aðeins gildi við staðfestingu grasrótar flokksins í atkvæðagreiðslu.

Fulltrúar skulu fyrir kosningar gefa þingflokki og þremur efstu frambjóðendum flokksins úr hverju kjördæmi skýrslu, munnlega eða skriflega, einu sinni vikulega að lágmarki. Eftir kosningar skal samráð við þingflokk vera daglega til að þingflokkur sé ávallt upplýstur um gang viðræðna. Með hliðsjón af þeirri staðreynd að oft eru stjórnarmyndunarviðræður mjög bundnar trúnaði skulu skýrslur fulltrúa og staða umræðna aðeins birt almennum flokksmönnum ef þingflokkur metur að það sé rétt, nauðsynlegt og í samræmi við skuldbindingar fulltrúa um trúnað.

Þegar áherslur Pírata hafa verið opinberaðar þriðjudaginn 17. október 2017 munu fulltrúar auglýsa boðleiðir fyrir félagsmenn sem vilja koma frekari ábendingum eða athugasemdum á framfæri við fulltrúa.

Vinnureglur þessar setja sér:

Helgi Hrafn Gunnarsson, Smári McCarthy og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir

 

Nái þessir fulltrúar ekki kjöri inn á Alþingi þá fær tilkomandi þingflokkur Pírata, kjósi þeir svo, umboð til þess að velja sér nýja fulltrúa til stjórnarmyndunarviðræðna.