Um Pírata

Píratar eru stjórnmálaafl sem berst fyrir raunverulegu gegnsæi og ábyrgð í stjórnkerfinu, auknu aðgengi að upplýsingum, beinu lýðræði, endurskoðun höfundarréttar, sjálfbærni, upplýsingafrelsi og nýrri stjórnarskrá.

Sagan

Píratar á Íslandi voru stofnaðir þann 24. nóvember 2012. Píratar byggja á hugmyndafræði Piratpartiet frá Svíþjóð sem Richard Falkvinge setti á fót þann árið 2006 vegna aðkallandi þarfar á lagaramma utan um höfundarrétt á internetinu. Nú starfa Píratahreyfingar í meira en sextíu löndum. Áherslur eru mismunandi eftir þjóðum en ákall Pírata um gegnsæi í stjórnsýslu og verndun og eflingu borgaralegra réttinda er undirstaða Pírata um allan heim.

Stjórnmálin

Píratar hafa barist fyrir nýrri hugmyndafræði og breytingum á grunnkerfum samfélagsins til að mæta þörfum framtíðarinnar með heiðarleika, framsýni og rökfestu að leiðarljósi. Píratar eru aðhaldsafl gegn spillingu. Píratar vilja samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Píratar vilja efla borgaravitund almennings. Gagnsæi í stjórnkerfinu er svo forsenda fyrir ábyrgri og upplýstri þátttöku almennings í mótun samfélagsins. Grunnstefna Pírata er pólitíska sýn flokksins.

Alþingi

Sagan spannar fjórar Alþingiskosningar. Fyrst buðu Píratar fram um vorið 2013 sem skilaði 5% fylgi. Þrír Píratar tóku þá sæti á Alþingi; Helgi Hrafn Gunnarsson, Birgitta Jónsdóttir og Jón Þór Ólafsson. Síðan hafa verið tvennar kosningar. Í kosningum árið 2016 náðu Píratar inn 10 þingmönnum en eftir kosningar 2017 áttu Píratar 6 manna þingflokk á Alþingi. Í kosningunum 2021 fengu Píratar 6 þingmenn. 

Sveitarstjórn

Árið 2014 tóku Píratar fyrst þátt í sveitarstjórnar-kosningum og fékkst einn kjörinn fulltrúi í Reykjavík. Í sveitarstjórnarkosningum 2018 bauð flokkurinn fram í fimm sveitarfélögum auk þess að vera þátttakandi í sameiginlegum framboðum víða um land. Tveir fulltrúar fengust kjörnir í Reykjavík og einn í Kópavogi. Árið 2022 buðu Píratar fram í sex sveitarfélögum auk þátttöku í sameiginlegum framboðum. Í Reykjavík komust þrír Píratar í borgarstjórn, einn hélt sæti í Kópavogi og í Árborg komst einn Pírati í bæjarstjórn í sameiginlegu framboði með öðrum flokkum. 

Formannsleysið

Píratar byggja á flötum strúktur og velja sér því ekki formann. Við upphaf hvers löggjafarþings er nýr formaður og þingflokksformaður valinn innan þingflokksins með hlutkesti. Formennska í þingflokk Pírata er eingöngu formlegs eðlis vegna þinglegra reglna og hefur ekki í för með sér nein sérstök valdsvið eða ábyrgð. Samkvæmt lögum Pírata ber að hafna sérstöku 50% launaálagi þingflokksformanns. Píratar telja að slíkar álagsgreiðslur vegna flokksstarfs séu á ábyrgð flokkanna en ekki Alþingis.

Grasrótin er hjarta Pírata. Píratar eru vettvangur fyrir alla sem vilja taka þátt í að móta samfélag sitt í átt til aukins lýðræðis og borgararéttinda, bæði í raun- og netheimum, og ræða breytingar á frjálsan og óheftan hátt með aðstoð tækninnar fyrir opnum tjöldum. Taktu þátt hér!