Vinnuhópurinn Fjölmiðlunarhópur var stofnaður í ársbyrjun 2015 til að halda utan um tæknimál í Tortuga og koma á nýjum leiðum til að miðla málefnum Pírata. Í hópnum hafa píratar einnig rætt og tekið ákvarðanir um hvernig flokkurinn tjái sig í fjölmiðlum ásamt því sem auglýsingaefni og kynningarefni er unnið.

 

Fyrstu starfsmánuðina var hlutverk hópsins í mótun en fljótlega var kominn kraftur í starfið. Verkefni Fjölmiðlunarhóps eru unnin í teymum þar sem tilteknir píratar taka að sér afmörkuð verkefni en Fjölmiðlunarhópur heldur utan um verkefnin, fylgist með framvindu og veitir ráðleggingar eftir þörfum.

Innan Fjölmiðlunarhóps starfar m.a. vefteymi sem vinnur að gerð nýrrar vefsíðu fyrir Pírata. Textavinnsluhópur hefur starfað til að skrifa bæði langa og stutta pistla um hin og þessi málefni á vefnum. Vídeóhópur tók að sér að útbúa stutt kynningarmyndband um grunnstefnu pírata og stefnt er að fleiri slíkum myndböndum á næstunni.

Í ársbyrjun 2016 bauðst Pírötum að vera með vikulegan þátt á ÍNN sjónvarpsstöðinni. Þættirnir fengu nafnið Strandhögg og hafa þeir nú birst vikulega og eru aðgengilegir á youtube. Í apríl 2016 var hafinn undirbúningur að rafrænu fréttabréfi Pírata. Rafsnepillinn fékk nafnið Plankinn og hafa komið út tvö eintök sem dreift er til allra skráðra pírata.

Í Tortuga hefur Fjölmiðlunarhópur haft yfirumsjón með tæknilegum málum, svo sem streymi og upptökur af fundum. Streymisteymi hefur verið starfrækt og er reynt að verða við öllum óskum pírata um að streyma félags- og málefnafundum þar sem ekki allir komast í bæinn á fund.

Fjölmiðlunarhópur hefur einnig látið vinna nýjan birtingastaðal (style guide) fyrir allt útgefið efni Pírata, þar sem tilgreint er allt varðandi leturgerðir, notkun merkis pírata, litavals og yfirbragðs bæði prentaðs kynningarefnis sem og vefútgáfna.

Hönnunarstaðall og tengt efni.

Fjölmiðlunarhópurinn er lokaður hópur að því leytinu að starfið miðast við að ljúka verkefnum og aðeins þeir sem vinna að verkefnum á vegum hópsins teljast vera í honum. Ábyrgðamenn Fjölmiðlunarhóps eru Gissur Gunnarsson og Elsa Kristjánsdóttir, en með þeim hafa margir mætir píratar unnið bæði ofan- og neðanþilja.

Fjölmiðlunarhópur telst vera formlegur málefnahópur í samræmi við lög Pírata og fær því stuðning frá Framkvæmdaráði og kynnir framvindu mála reglulega fyrir stjórn Framkvæmdaráðs.


Vinnureglur um fjölmiðlunarhóp Pírata voru samþykktar á fundi framkvæmdaráðs þann 26. maí 2016

Ályktun

Nú hefur fjölmiðlunarhópur pírata verið starfræktur í þó nokkurn tíma. Hópurinn og reglugerð hans var staðfest af fyrra framkvæmdaráði 26. maí 2016. Í samræmi við greinar 4.3 og 8.2 í þessari reglugerð leggur hópurinn nú uppfærða reglugerð fyrir nýtt framkvæmdaráð til staðfestingar. Einnig óskar hópurinn eftir því að núverandi ábyrgðarmenn hópsins, Elsa Kristjánsdóttir og Gissur Gunnarsson hljóti staðfestingu ráðsins.

Reglugerð

1.0 Markmið

1.1) Stuðla að formlegri útgáfu ýmiskonar efnis fyrir Pírata.

1.2) Hafa umsjón með framgangi og framkvæmd verkefna á sviði fjölmiðlunar og margmiðlunar.

1.3) Að efla, styðja við og leiðbeina sjálfboðaliðum úr grasrót Pírata sem vilja starfa innan hópsins.

1.4) Hópurinn er hugsaður sem vinnueining sem hefur það hlutverk meðal annars að létta undir með framkvæmdaráði Pírata er kemur að efnisatriðum margmiðlunar og tæknilegra málefna.

2.0 Skilgreining

2.1) Hópurinn heyrir beint undir framkvæmdaráð sem formleg vinnueining innan Pírata.

2.2) Ábyrgðarmenn hópsins hafa umboð sitt frá framkvæmdaráði.

2.3) Hópurinn hefur umboð sitt frá ábyrgðarmönnum hópsins.

2.4) Hlutverk er ákvarðað af framkvæmdaráði en markmið og starfssvið skal vera ákvarðað af hópnum fyrst og fremst og síðan samþykkt af framkvæmdaráði.

2.5) Hópurinn skal vera skipaður af sjálfboðaliðum úr grasrót Pírata.

3.0 Viðfangsefni

3.1) Leitast skal við að viðfangsefni hópsins séu tengd fjölmiðlun, grafík, textavinnu, birtingum og útgáfu á Pírataefni. Viðfangsefni eru ekki tæmandi og kunnu að breytast eftir tímabilum hverju sinni.

3.2) Viðfangsefni og framleiðsla efnis hópsins skulu ávallt vera fyrir landsfélagið fyrst og fremst, en standa í boði fyrir aðildarfélög sem þess óska.

3.3) Hópurinn skal bera ábyrgð á hönnunarstaðli fyrir landsfélagið og bjóða aðildarfélögum að kynna sér hann.

3.4) Breyting á hönnunarstaðli skal leggja fyrir framkvæmdaráð til staðfestingar.

4.0 Skipan ábyrgðarmanna

4.1) framkvæmdaráð ákveður hvernig skipa skuli ábyrgðarmenn í hópinn hverju sinni. Hópurinn velur sér síðan ábyrgarmenn sem framkvæmdaráð staðfestir.

4.2) Ábyrgðarmenn hópsins skulu ekki vera færri en tveir og ekki fleiri en þrír hverju sinni.

4.3) Endurskoða skal ábyrgðir minnst árlega og fá nýtt umboð framkvæmdaráðs eftir hvern aðalfund.

5.0 Fundarhald og skýrslur

5.1) Fundir fjölmiðlunarhóps skulu vera auglýstir með sem mestum fyrirvara.

5.2) Hópnum ber að nota samþykkt fundarsköp á fundum sínum.

5.3) Allar fundargerðir skulu vera aðgengilegar á formlegum vettvangi Pírata opnar öllum, þó er heimild fyrir trúnaðarbókunum sem eru aðgengileg framkvæmdaráði.

5.4) Samþykktir skulu vera vel tilgreindar í fundargerðum.

5.5) Leitast skal við að ábyrgðarmaður á vegum hópsins sitji allavega einn fund í mánuði með framkvæmdaráði og sé með stutt erindi varðandi framgang verkefna.

5.6) Fjölmiðlunarhópur skal skila skriflegri skýrslu um störf sín til framkvæmdaráðs fyrir hvern aðalfund.

6.0 Verkefni hópsins

6.1) Fjölmiðlunarhópur skal leitast við að vinna faglega með öðrum málefnahópum, ráðum og starfsmönnum Pírata.

6.2) Ef hópurinn telur sig ekki geta framkvæmt viss verkefni getur hann alltaf neitað eða vísað verkefninu til baka.

6.3) Ábyrgðarmenn skulu leitast við að deila verkefnum samkvæmt getu hvers og eins og sjá til þess að sjálfboðaliðar séu vel meðvitaðir um stöðu mála áður en þeir eru skrifaðir fyrir verkefnum.

6.4) Ekki er ætlast til þess að ábyrgðarmenn vinni öll verkefni sjálfir, hlutverk þeirra skal fyrst og fremst vera að hafa umsjón með verkefnastöðu og framgangi þeirra

6.5) Ábyrgðarmenn skulu aðstoða, efla og leiðbeina sjálfboðaliðum í gegnum framgang verkefna ásamt því að samþykkja endanlega niðurstöðu þeirra.

6.6) Ábyrgðarmenn fjölmiðlunarhóps meta stöðu verkefna reglulega og geta ef þurfa þykir, endurskipulagt eða endurúthlutað ábyrgð á verkefnum.

6.7) Sjálfboðaliðum skulu gerð grein fyrir tímarömmum verkefna sinna og gefinn kostur á breytingu ef þurfa þykir.

6.8) Hópurinn skal eftir fremsta megni hlusta á skoðanir grasrótar hvað varðar ný verkefni en hefur alltaf lokaorðið hvort verkefni verði unnin af hálfu hópsins eða ekki.

6.9) Ef deilumál koma upp vegna einstakra verkefna eða stöðu þeirra ber ábyrgðarmönnum að greiða úr ágreiningi sem fyrst.

6.9.1) Ábyrgðarmenn hópsins hafa lokaorðið þegar kemur að framkvæmd og niðurstöðu verkefna vinnuhóps.

6.9.2) Ef deilumál eru of stór og ekki næst að leysa þau með hópnum skulu ábyrgðarmenn fjölmiðlunarhóps vísa málinu til framkvæmdaráðs.

7.0 Umboð og fjárráð

7.1) Umboð hópsins er í nafni framkvæmdaráðs og skilgreint með reglugerð þessari. Umboð vegna verkefna sem eru ekki sérstaklega skilgreind í þessari reglugerð þarf að sækja um til framkvæmdaráðs.

7.2) Fjárráð hópsins eru undir framkvæmdaráði komið hverju sinni.

7.3) Leitast skal við að hópurinn hafi fjárhagsramma til að sinna störfum sínum hverju sinni.

7.4) Hópurinn skal sækja sér fjárhagsheimild áður en verkefni eru unnin.

8.0 Breytingar

8.1) Framkvæmdaráð skilgreinir starf og umboð fjölmiðlunarhóps með reglugerð þessari.

8.2) Ef breytinga er þörf á þessari reglugerð skal leggja hana fyrir framkvæmdaráð til staðfestingar að nýju.